Stjórnmál eiga að snúast um hagsmuni þjóðarinnar, einstaklinga og atvinnulífs, á grunni skýrrar hugmyndafræði. Miðflokkurinn vill breyta stöðunni í efnahagsmálum, útlendingamálum og orkumálum en einnig í húsnæðismálum þar sem ráðist verði á rót vandans. Þá viljum við rjúfa áratuga kyrrstöðu í nauðsynlegri uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að festa hana í sessi vítahrings óraunhæfra og kostnaðarsamra hugmynda borgarlínunnar.
Við stöndum fyrir innihald umfram umbúðir. Við þurfum að standa vörð um fullveldi landsins, íslenska tungu og menningu. Við leggjum áherslu á lausn verkefnanna á grundvelli þess hvað sé skynsamlegt þar sem virðing er borin fyrir samhenginu milli velferðar og öflugs atvinnulífs.
- Heildstæð nálgun á efnahagsmál og atvinnulíf
Miðflokkurinn vill draga úr óþarfa ríkisútgjöldum og stöðva viðvarandi halla á ríkissjóði undanfarin 7 ár. Ábyrg ríkisfjármál þýða lækkun verðbólgu og vaxta sem í dag er stærsta velferðarmálið. Við viljum efla nýsköpun og styrkja sjálfstæði atvinnulífsins og hlúa að öllum fjórum útflutningsstoðum landsins.
- Ábyrg innflytjendastefna sem tekur mið af íslenskum veruleika
Miðflokkurinn telur að innflytjendastefna eigi ekki að vera ákvörðun sem tekin sé í flýti eða út frá pólitískum þrýstingi. Við viljum heildarendurskoðun laga um hælisleitendur svo þau taki raunverulega mið af getu samfélagsins til að taka á móti hælisleitendum í stað óstjórnar síðustu ára. Afnema þarf sérreglur íslenska hælisleitendakerfisins með sama hætti og þær hafa verið afnumdar á hinum Norðurlöndunum. Kerfið á ekki virka eins og segull sem skapað hefur ástand sem dregur hingað til lands þúsundir hælisleitenda með gríðarlegu álagi á alla okkar grunninnviði og jafnvel misnotkun þeirra.
- Orkumál og umhverfisvernd
Miðflokkurinn styður umhverfisvernd byggða á tækni, vísindum og heilbrigðri skynsemi. Við teljum mikilvægt að nýta umhverfisvæna innlenda orku til að auka lífskjör á Íslandi. Við getum aukið orkuframleiðslu, bætt flutningskerfið og nýtt virkjanir og orkukosti betur til að bæta kjör landsmanna. Til að standa undir velferð þarf vélin að virka.
Stjórnmálin eru á krossgötum og það eru viðbrögðin sem skipta öllu máli fyrir framhaldið. Þau geta ekki farið lengur fram í tómarúmi aðgerðaleysis og stjórnlausra ríkisútgjalda. Það þarf að virkja, byggja og sýna aðhald í ríkisrekstri. Ég býð mig fram fyrir Miðflokkinn vegna þess að ástandið kallar á mig með sama hætti og það gerði þegar ég barðist gegn því að skattgreiðendur greiddu ólögvarðar kröfur Icesave. Þá tókst að beygja skútuna í rétta átt. Við getum gert betur og höfum gert það áður. Það munar um Miðflokkinn.
Eiríkur S. Svavarsson,
höfundur er íbúi í Garðabæ og er í 3. sæti á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.