Við höfum góða sögu í Garðabæ. Samfélagið okkar hefur eflst og dafnað í gegnum tíðina undir forystu okkar í Sjálfstæðisflokknum og rekstur bæjarins er traustur. Fólk vill búa í Garðabæ því það veit að hér er gott, öflugt og traust samfélag og bæjarbúar eru ánægðari með þjónustuna en víðast annars staðar. Slík framþróun gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf að hlusta eftir því hvað skiptir íbúa máli, móta heildstæða sýn og láta verkin tala.
Spennandi framtíð í Garðabæ
Framtíðin er spennandi í Garðabæ og þrátt fyrir að framboð af húsnæði hafi verið mest hér á liðnu kjörtímabili þá er eftirspurnin áfram æpandi. Garðabær er að stækka hratt og ný eftirsótt hverfi að rísa, sem byggð eru af miklum metnaði. Það segir sína sögu.
Í Hnoðraholti og Vetrarmýri munum við bráðum sjá nýja blandaða byggð og þar verða líka ný svæði fyrir verslun og þjónustu. Nú þegar hafa opnað spennandi veitingastaðir í Urriðaholti í bland við önnur fyrirtæki . Á Álftanesi standa einnig yfir framkvæmdir sem munu efla byggðina þar og styrkja forsendur fyrir verslun og þjónustu í nærumhverfi.
Íbúar vilja í auknum mæli sækja þjónustu í nærumhverfi og endurnýjun miðbæjarins er þáttur í því að efla mannlíf og fjölga tækifærum til gæðastunda í Garðabæ. Frekari uppbygging á Garðatorgi og víðar býr til tækifæri til að laða að fleiri spennandi fyrirtæki og fjölga störfum í nágrenninu. Grunnþjónustan okkar, sem er samfélaginu mikilvæg, kostar sitt og við verðum því að fjölga tekjustoðunum og fjölga íbúum til að geta áfram tryggt um leið mikilvæga þjónustu og varðveitt getu okkar til að halda álögum í hófi.
Góður árangur er ekki tilviljun
Staða Garðabæjar er sterk og sá mikli árangur sem náðst hefur náðst í uppbyggingu á blómlegum bæ undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefði hæglega getað þróast með öðrum hætti. Verja þarf þennan árangur á sama tíma og uppbyggingunni er haldið áfram til móts við nýja tíma.
Þegar kosið er í bæjarstjórn þá erum við að velja fólk sem tekur ákvarðanir um margt það sem stendur okkur næst. Skólana sem börnin okkar ganga í, hvaða íþróttir og afþreying er í boði, hvernig er hugsað um eldra fólkið okkar og þá sem þurfa á stuðningi að halda. Við erum einnig að velja hverjum við treystum til að þróa áfram hverfin okkar, byggja upp innviðina, bæta aðstöðu og um leið gæta að því að vel sé haldið utan um fjárhaginn.
Við í Sjálfstæðisflokknum í Garðabæ erum þakklát fyrir það traust sem bæjarbúar hafa sýnt okkur og vonumst til að fá skýrt og sterkt umboð til áframhaldandi góðra verka og sóknar. Við trúum því og treystum að íbúar Garðabæjar vilji halda áfram á þeirri vegferð sem hafin er. Góður árangur í rekstri sveitarfélaga er sannarlega ekki sjálfgefinn og hann skiptir íbúa miklu máli.
Setjum X við D. Fyrir Garðabæ.
Almar Guðmundsson er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ