„Með þessari áætlun gerum við ráð fyrir að renna stoðum enn frekar undir traustan fjárhag Garðabæjar. Við sjáum það á útkomuspá þessa árs að hagræðingaraðgerðir hafa borið árangur. Þjónusta Garðabæjar verður áfram í hæsta gæðaflokki, uppbygging innviða heldur áfram og við ætlum okkur að halda í gæðin sem við bjóðum upp á,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar en fjárhagsáætlun ársins 2025 var lögð fram til fyrri umræðu á síðasta fundi bæjarstjórnar og þar má m.a. sjá að álögum á íbúa Garðabæjar verður áfram stillt í hóf, grunnrekstur bæjarins mun styrkjast enn frekar og skuldir verða sem áður hóflegar fyrir árið 2025.
Mikill bati hefur orðið á grunnrekstri Garðabæjar árið 2024, eins og fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir. Veltufé frá rekstri í A sjóði styrkist verulega. Veltufé frá rekstri fyrir samstæðuna í heild er áætlað um 2.700 m.kr. Hagræðingaraðgerðir hafa skilað sér og reksturinn hefur styrkst. Rekstrarniðurstaða A sjóðs er jákvæð um 112 m.kr. og rekstrarniðurstaða A og B sjóðs er jákvæð um 469 m.kr.

Bærinn hefur hagrætt í öllum rekstri
Þú segir að hagræðingaraðgerðir hafi borið árangur, hverjar voru þær helstar, hvar hefur bærinn verið að hagræða? „Bærinn hefur hagrætt í öllum rekstri, til dæmis með útboði á ræstingum í stofnunum bæjarins. Þetta bar víða niður hjá stofnunum bæjarins og ég er afskaplega ánægður með að stjórnendur hjá bænum voru tilbúnir í að rýna reksturinn og finna leiðir til umbóta. Það er alltaf verkefni okkar að fara vel með fjármunina sem okkur er treyst fyrir,“ segir Almar.
Mikilvægar veituframkvæmdir á Álftanesi
Framkvæmdir eru áætlaðar fyrir tæpa fimm milljarða á árinu 2025 og þar af fer 1,7 milljarður í 3. áfanga Urriðaholtsskóla, sem verður án vafa einn glæsilegasti skóli landsins, en þið ætlið líka að hefja mikilvægar veituframkvæmdir á Álftanesi. Hvað erum við að tala um þar? „Mikilvægar veituframkvæmdir eru fram undan á Álftanesi þegar við tengjum fráveituna þar við Skerjafjarðarveitur. Við undirrituðum viljayfirlýsingu fyrr á þessu ári, en fyrstu skrefin verða stigin á þessu og næsta ári,“ segir hann.
Endunýjun á gervigrasvöllum og 2. hæð Miðgarðs innréttuð
Það á að setja 240 milljónir í endurbætur íþróttamannvirkja og 300 milljónir í Miðgarð? Hvaða íþróttamannvirki eru verið að taka í gegn og eru framkvæmdir að hefjast við efri tvær hæðirnar í viðbyggingu Miðgarðs? „Endurbætur á íþróttamannvirkjum endurspeglast í tímabærri endurnýjun á gervigrasvöllum, til dæmis á Álftanesvelli. Þetta bætir aðstöðuna, en hér í bænum er íþróttaaðstaðan okkar heilt yfir til fyrirmyndar. Í Miðgarði er komið að því að innrétta 2. hæð og taka hana í notkun. Þar verður meðal annars rými sem leigt verður út til aðila í heilsutengdri starfsemi,“ segir Almar.
Uppbygging fyrirhuguð á Garðatorgi
Fyrir rúmum tveimur árum var skipuð undirbúningsnefnd um uppbyggingu miðbæjar Garðabæjar. Þið eruð að setja 50 milljónir í Garðatorg á næsta ári, er það eitthvað í tengslum við þetta? „Ýmislegt hefur áunnist á síðastliðnum tveimur árum og við sjáum að á Garðatorgi er mikið líf. Við höfum unnið að endurnýjun á yfirbyggingunni við Garðatorg, lagfært lýsingu og skipulag torgsins. Við ætlum að halda þessu áfram. Stærsta málið er raunar breytt skipulag á Garðatorgi sem nú er til umfjöllunar hjá skipulagsnefnd. Því mun fylgja uppbygging á torginu sem færir okkur enn öflugri og aðgengilegri miðju, eða miðbæ, með fjölgun fermetra fyrir verslun og þjónustu.“
Eru einhverjar framkvæmdir sem þið hafið sett á bið tímabundið þar sem efnahagsumhverfið er þungt? „Við höfum forgangsraðað verkefnunum og sett skólahúsnæði og lóðir efst á blað ásamt mikilvægum veituframkvæmdum. Í forgangsröðun þarf alltaf eitthvað að bíða, en við erum alltaf á tánum,“ segir Almar.
Fasteignaskattar á íbúa verða ekki hækkaðir umfram verðlag
Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að álögum á íbúa verði áfram stillt í hóf. Hlutfall útsvarsprósentu Garðabæjar er það lægsta meðal stærstu sveitarfélaga landsins, stendur til að hreyfa eitthvað við henni á næsta eða næstu þremur árum miðað við þriggja ára áætlun? „Útsvar í Garðabæ er það lægsta meðal stærstu sveitarfélaganna og þannig verður það áfram. Markmiðið okkar er að halda álögum lágum, fasteignaskattar verða ekki hækkaðir umfram verðlag og við höldum áfram að fara vel með skattfé hér í Garðabæ,“ segir Almar.
Horfum til framtíðar en lítum einnig stolt til baka
Er Garðabær á góðum stað fjárhagslega og er kemur að öllum innviðum, tilefni til að horfa með björtum augum til framtíðar sveitarfélagsins? „Að sjálfsögðu, okkar góða samfélag heldur áfram að vaxa og dafna. Þjónustan og innviðirnir verða að vera í takt við það, og við leggjum allt kapp á það. Við horfum til framtíðar en lítum einnig stolt til baka á hvernig við höfum viðhaldið góðri stöðu bæjarins í flóknu rekstrarumhverfi verðbólgunnar, hárra vaxta og óvissu kjarasamninga. Okkur hefur tekist að standa vörð um þjónustustig Garðabæjar og lífsgæði íbúa,“ segir Almar, að lokum.

Íbúafjölgun heldur áfram og eru Garðbæingar nú ríflega 20 þúsund. Mikil uppbygging stendur yfir í Garðabæ en eins og á yfirstandandi ári verður framkvæmdum forgangsraðað eftir mikilvægi.
Lykiltölur fjárhagsáætlunar:
- Rekstrarniðurstaða A sjóðs er jákvæð um 112 m.kr.
- Rekstrarniðurstaða A og B sjóðs er jákvæð um 469 m.kr.
- Veltufé frá rekstri nemur um 2.700 m.kr. og hefur grunnrekstur bæjarins styrkst verulega.
- Skuldaviðmið skv. reglugerð nemur um 103,7% hjá A- sjóði og 105,7% hjá A og B sjóði
- Skuldahlutfall A sjóðs lækkar í 122%.