Þetta þarf að gerast í leikskólamálum í Garðabæ

Garðabær er að yngjast. Nýjum hverfum fylgir nýtt fólk, en með tilkomu Urriðaholts hefur ungu fjölskyldufólki fjölgað hratt í bænum. Þetta er frábær þróun.

Á sama tíma og samfélagið stækkar er hins vegar mikilvægt að við höldum í þá sérstöðu sem laðar fjölskyldur að Garðabæ. Bærinn okkar hefur borið af í leikskólamálum og þannig á það áfram að vera. Sem bæjarfulltrúi og foreldri ungs barns í Garðabæ vil ég setja þessi þrjú mál í forgang á nýju kjörtímabili.

Komum okkur aftur á sporið

Garðabær hefur skýra sérstöðu með þjónustuloforði um leikskólapláss þegar börn verða eins árs. Í dag er hins vegar algengt að fá ekki pláss fyrr en um 14-16 mánaða aldur.

Þar dugar ekki að tala um betri stöðu en í nágrannasveitarfélögum, við höfum verið framúrskarandi í þessum efnum og eigum að vera það áfram. Við þurfum að koma okkur aftur á sporið, veita foreldrum skýr svör og tryggja pláss strax við 12 mánaða aldur.

Vandinn leysist ekki einungis með fleiri leikskólabyggingum

Leikskólamál snúast ekki bara um að fjölga byggingum. Mikilvægasta verkefnið okkar er að fá áfram framúrskarandi fólk til starfa. Leikskólakennarar eru ein mikilvægasta starfsstétt samfélagsins og eiga drjúgan hluta í uppeldi barna okkar flestra. Það skiptir miklu máli að leikskólar séu heillandi starfsvettvangur þar sem er gott að vinna. Á nýju kjörtímabili þurfum við að fá alla að borðinu og skapa aðstæður þar sem leikskólar í Garðabæ eru öflugir og vel mannaðir til frambúðar.

Börn fæðast allan ársins hring

Það er mér hjartans mál að með tíð og tíma verði börn ekki einungis tekin inn á haustin. Börn fæðast allan ársins hring. Við eigum að laga þjónustuna að fólkinu, en ekki fólkið að þjónustunni. Garðbæingar eiga ekki að þurfa að skipuleggja barneignir eftir árstíðum. Á næsta kjörtímabili vil ég koma því til leiðar að börn verði tekin inn á leikskóla á öllum árstíðum.

Margrét Bjarnadóttir
Gefur kost á sér í 5.sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar