,,Þetta frumkvæði þeirra er mér mikill heiður,” segir Pálmar

Söngleikurinn Pálmar í FG

Það er mikil orka í loftinu þegar blaðamaður Garðapóstsins gengur inn í sal Fjölbrautaskólans í Garðabæ sem nú er orðinn að glæsilegu leikhúsi. Hópur af ungum leikurum er hér við stífar æfingar á glænýjum söngleik sem ber heitið Pálmar.

Höfundar söngleiksins eru þær Guðrún Ágústa Gunnarsdóttir og Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir og byggir verkið á atburðum í lífi afa Tinnu, Pálmars Ólasonar arkitekts og tónlistarmanns sem er flestum Garðbæingum vel kunnugur.

Við tókum þær Guðrúnu og Tinnu tali ásamt aðalpersónunni sjálfri, Pálmari.

Guðrún Ágústa og Tinna Hrafnkels eru samrýmdar og skapandi

Hvernig kom það til að þið sömduð þennan söngleik? ,,Við höfum lengi gengið með í maganum að semja söngleik saman enda erum við óforbetranlegar áhugamanneskjur um söngleiki. Við erum báðar í söngnámi við Tónlistarskóla Garðabæjar og ég (Guðrún) er á tónlistarbraut í MH og Tinna á leiklistarbraut í FG. Við erum með óteljandi hugmyndir um spennandi viðfangsefni en þegar Tinna fór að segja mér frá afa sínum, honum Pálmari, sáum við báðar að við vorum komnar með söguna sem við vildum segja,” segir Guðrún brosandi. ,,Já, afi minn er náttúrulega einstakur maður sem hefur snert ótrúlega marga í kringum sig með gleði sinni og smitandi hlátri en það eru ekki margir sem þekkja hans sögu og hvaðan hann kemur. Okkur langaði að koma því á framfæri með þeim hætti sem hann er þekktur fyrir – með tónlist og skemmtilegheitum.” segir afastelpan

,,Við fengum svo tækifæri til að semja söngleikinn í sumar á vegum Skapandi sumarstarfa í Garðabæ og nú erum við tilbúnar til þess að deila gleðinni með áhorfendum. Samtals taka 11 manns þátt í leiksýningunni og gætum við ekki verið heppnari með leikhóp. Frábærir listamenn og öll einhuga um að glæða lífi í þessa einstöku sýningu okkar.”

Um hvað er söngleikurinn? ,,Eins og við nefndum þá byggjum við söguna á atburðum í lífi Pálmars, þó við leyfum okkur að taka ansi mikið skáldaleyfi! Ef við stiklum á stóru þá gerist sagan árið 1958 og fjallar um góðhjartaða skemmtikraftinn Pálmar sem þarf að taka ákvörðun um hvort hann vilji stefna á listina eða eitthvað hagkvæmt, eins og arkitektúr. Sigurveig er unnusta hans og stendur hún alltaf á bakvið Pálmar og styður hann í öllu sem hann gerir en það sem hún þráir mest er að byggja fjölskyldulíf með Pálmari. Pálmar er yfir sig ástfanginn af Sigurveigu og langar að njóta lífsins með henni en þó vill hann ekki að hún sé opinberlega bundin honum á meðan hann fer til Ítalíu í nám.
Á meðan dvöl hans stendur á Ítalíu verður hann heltekinn af ítalskri tónlist. Hann fer að skrifa íslenska lagatexta við lögin og sendir þau heim til Íslands svo að Raggi Bjarna, Haukur Morthens og Ellý Vilhjálms geti sungið þau og komið þessari undurfögru tónlist til Íslendinga. Meðal þessara laga eru t.d. Ciao, ciao bambina, Kveðju sendir blærinn, Horfðu á mánann, og Ævintýri, svo eitthvað sé nefnt. Pálmar er stanslaust að vinna, læra og skemmta, þannig þegar hann veiktist alvarlega, setur það ugg að fólkinu í kringum hann. Sigurveig kemur alla leið til Ítalíu til að gæta að honum, sem var heljarinnar ferð á þessum tíma. Hver verða örlög elskendanna?”

Pálmar Ólason ásamt hluta af leikhópnum

Við vindum okkur nú að Pálmari. Hvernig er það að sjá sögu um sjálfan sig færða í stílinn á leiksviði? ,,Það er hreint út sagt ótrúlegt og eitthvað sem maður hefði aldrei trúað að upplifa. Þetta frumkvæði þeirra er mér mikill heiður og hef ég, að þeirra beiðni, reynt að aðstoða eftir megni með efnisöflun. Þær eru sérstaklega frjóar og hugmyndaríkar þar sem þær láta söng-leikinn spanna aðeins nokkur ár, þar sem ég er um tvítugt en færa ýmsa atburði sem gerast í raun miklu seinna inn á þennan tíma. Mér finnst þetta ganga fullkomlega upp hjá þeim og skapar gott flæði í sýninguna að mínu mati. Ég tók það líka skýrt fram við þær í upphafi að þær mættu alls ekki láta sannleikann þvælast fyrir góðri sögu. Ég þekki ekki alltaf sjálfan mig eða konuna mína í verkinu en það gerir þetta allt miklu meira spennandi!,” segir Pálmar og hlær hátt

Hvenær verða sýningar og hvar er hægt að nálgast miða? ,,Við frumsýnum á sunnudaginn 26. september kl. 17 og svo höfum við sett tvær sýningar í viðbót 30. september og 1. október kl. 19.30,” segja þau en miðasalan fer fram á tix og má nálgast miða hér https://tix.is/is/event/11987/palmarson-gleikurinn/

Við þökkum þessum upprennandi leikhúsmanneskjum og Pálmari kærlega fyrir viðtalið og miðað við sýnishornið sem blaðamaður fékk af verkinu er hægt að lofa miklu fjöri og skemmtilegri sýningu. Nú er gott tækifæri fyrir Garðbæinga að skella sér í leikhús í heimabænum.

Guðrún Ágústa og Tinna Hrafnkels bregða á leik

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar