Þessi árekstur setti allt mitt líf og fjölskyldunnar allrar á hvolf

Á mánudaginn ætlar Anna Linda Bjarnadóttir að standa fyrir minningarathöfn í Garðakirkju um alvarlegt umferðarslys sem hún varð fyrir á gatnamótunum við Arnarnesbrúna þann 28. nóvember 2020, er ölvaður ökumaður keyri á hana. Þetta er annað árið í röð sem Anna Linda stendur fyrir slíkri minningarannað árið í röð sem Anna Linda stendur fyrir slíkri minningarathöfn og er tilgangurinn með henni að minna á þær miklu afleiðingar sem slíkir árekstrar geta haft í för með sér fyrir líf og heilsu tjónþola, en Anna Linda er enn að glíma við afleiðingar árekstrarins, þar á meðal höfuðáverka.

,,Í mínu tilviki ók tjónvaldurinn, sem var ölvuð kona, yfir á rauðu ljósi hennar megin, en hún keyrði í norður til að taka vinstri beygju inn á brúna og ók í hliðina á bifreið minni, sem kastaðist til og klessti tvennar öryggisstálgrindur áður en bifreiðin stöðvaðist. Ég var svo heppin að lögreglukona úr umferðarlögreglunni var í bíl fyrir aftan mig og hjálpaði mér á vettvangi. Ég var lömuð af skelfingu. Tveir lögreglumenn komu nokkrum mínútum síðar, tóku við stjórninni og handtóku tjónvaldinn,” segir Anna Linda er hún rifjar upp atburðinn. Þetta var í annað sinn, sem keyrt er á hana á Arnarnesbrú, en í maí árið 2014 var bíll hennar kyrrstæður á rauðu ljósi þegar keyrt var aftan á hana.

Hefur farið í ótal meðferðir, hefðbundnar jafnt sem óhefðbundnar

Og ertu enn að glíma við afleiðingar árekstursins nú tveimur árum síðar? ,,Þessi árekstur setti allt mitt líf og fjölskyldunnar allrar á hvolf. Allt fram á þetta ár hafa verið að koma fram afleiðingar. Ég fékk mikið höfuðhögg, tognaði illa frá hálsi niður að mjóbaki, tognaði á bringubeini auk þess sem neðstu hryggjarliðir og mjaðmagrind skekktust. Þá hef ég líka glímt við mikla bandvefsertingu. Eins og við mátti búast fékk ég áfallastreituröskun og keyri helst ekki neitt,” segir hún og heldur áfram: ,,Síðustu tvö árin hefur allt mitt líf snúist um að ná bata, lesa mér til um áverka, leita stöðugt að nýjum meðferðarúrræðum og auka úthald og hugræna getu. Það tók kírópraktor 43 skipti að hnykkja beinagrindina til og hann fann orsakir fyrir óbærilegum verkjum í baki, sem læknar fundu ekki skýringar á. Ég get þakkað honum að geta gengið. Síðan er ég hjá frábærum sjúkraþjálfara, sem dregur úr og heldur einkennum niðri. Ég var einnig í nokkra mánuði í heilsunuddi og prófaði óhefðbundnar meðferðir, t.d. nálastungur, cupping, gua sha og moxa. Vegna áverka á bringubeini fann ég fyrir miklum sársauka við öndun, en nálastungur og lasermeðferð hjá sjúkraþjálfara léttu á. Andleg heilsa skiptir jafn miklu máli eins og líkamleg heilsa og fór ég í hugræna úrvinnslumeðferð hjá sálfræðingi til að komast yfir þetta áfall. Vegna höfuðhöggsins hef ég verið í skertu starfshlutfalli. Í þessum mánuði mun ég hefja endurhæfingu hjá taugasálfræðingi til að fá frekari aðstoð við afleiðingar höfuðhöggsins. Hreyfing er besta verkjalyfið og ég byrja alla daga á göngutúr eða æfingum. Heitir pottar draga líka úr verkjum. Í vinnunni er ég með rafmagnsnuddpúða til þess að verkir í brjóstbaki trufli ekki einbeitinguna. Það er meira en fullt starf að vera tjónþoli og mikið á alla lagt, sem slasast alvarlega. Þrátt fyrir alla þessa upptalningu er ég heppin að hafa lifað af ólömuð.“

Minningarathöfn í Garðakirkju á mánudaginn klukkan 19:30

Og þú ætlar að halda minningarathöfn í Garðakirkju á mánudaginn þar sem þú vilt m.a. leggja áherslu á framkvæmdirnar sem nú standa yfir við Arnarnesbrúna, sem eru til bóta, ekki rétt?
,,Já, ég hefði ekki getað fundið betri stað fyrir þessa minningarathöfn. Það verður lögð áhersla á núverandi framkvæmdir á Arnarnesbrú, slysatíðni, löggæslu og valdheimildir lögreglu hvað varðar akstur undir áhrifum og síðast en ekki síst áhrif alvarlegra umferðarslysa á líf og heilsu tjónþola og fjölskyldur þeirra. Ég fékk fréttirnar um fyrirhugaðar framkvæmdir á Arnarnesbrú fyrir ári síðan og það voru bestu fréttir ársins 2021. Gæti ekki verið ánægðari með þetta framtak Garðarbæjar og Vegagerðarinnar.”

Myndir frá slysinu árið 2020 en Anna var á Land Rover

Þú varst einnig með minningarathöfn í fyrra þar sem þú tendraðir kerti á Arnarnesbrúnni fyrir hvert umferðarslys sem hefur orðið á þessum gatnamótum og þau eru ófá og nokkur hafa bæst við frá því á sama tíma í fyrra? ,,Á þessu ári hafa orðið tvö umferðarslys á Arnarnesbrú tímabilið 1. janúar – 31. júlí. Því miður eru nýrri upplýsingar ekki tiltækar, hvorki hjá Vegagerðinni né Samgöngustofu. Annað slysið var vegna aksturs undir áhrifum og deildi ég þeirri frétt á facebook síðu íbúa í Garðabæ.”

Ég mun aldrei sætta mig við þetta

Áttu erfitt með að sætta þig við þetta, að lífið þitt hafi farið á annan veg en þú ætlaðir út af ábyrgðarlausum ölvuðum ökumanni? ,,Reyndar mun ég aldrei sætta mig við það, en það kemur vonandi einhvern tímann að því að ég geti sleppt tökunum á þessari erfiðu reynslu og lært að lifa með henni án þess að hugsa um þetta atvik alla daga. Ég er á námskeiði þessar vikurnar til að læra ákveðna hugsanatækni til þess.”

Hver finnst þér að refsingin ætti að vera fyrir slíkt brot, finnst þér hún næg og er hægt að segja að refsingin geti oft á tíðum verið meiri fyrir tjónþola vegna þess skaða sem hann verður fyrir og þarf jafnvel að bera allt sitt líf? ,,Akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna er refsiverður verknaður samkvæmt umferðarlögum. Ef vínandamagn í blóði ökumanns er yfir 0,5% getur það varðað fangelsi allt að tveimur árum. Því miður sleppa tjónvaldar alltof auðveldlega og fá yfirleitt ekki annað og meira en fjársekt og ökuleyfissviptingu. Þeir, sem valda slysum af stórfelldu gáleysi, t.d. vegna ölvunaraksturs, ættu að mínu mati undantekningarlaust að vera ákærðir og dæmdir í óskilorðsbundið fangelsi til viðbótar við fjársekt, ökuleyfissviptingu og greiðslu miskabóta til tjónþola. Því fylgir nístandi sársauki fyrir tjónþola að þurfa að bera afleiðingar lögbrots, sem þeir tóku engan þátt í að fremja. Í of mörgum tilvikum þurfa tjónþolar jafnframt að bera hluta fjártjóns síns sjálfir því almennt er framtíðarkostnaður við meðferðir ekki bættur auk þess sem skaðabætur vegna varanlegrar örorku eru of lágar.”

Í framhaldi af minningarathöfninni í fyrra stofnaður þú ásamt öðrum tjónþola úr Garðabæ jafningahópinn ,,Á batavegi”, sem er facebookhópur opinn öllum þeim sem glíma við langvarandi afleiðingar umferðarslysa. Eru margir sem deila með ykkur sögum þar um sambærileg atvik? ,,Það fjölgar stöðugt í hópnum og umræðurnar eru fjölbreyttar. Við deilum bæði sögum, árangri af meðferðum og meðferðarúrræðum, upplifunum af ,,kerfinu“, réttarstöðu tjónþola, kostnaðarþátttöku vátryggingafélaga, bjóðum upp á batahittinga, látum vita af viðtölum og greinum og ræðum almennt hvernig gengur á bataveginum. Ein í hópnum gaf út bók um sína árekstra og hefur verið dugleg að koma fram opinberlega til að benda á afleiðingar umferðarslysa og vangreiningu áverka.”

Allir eru hjartanlega velkomnir á minningarathöfnina

Og mega allir mæta á minningarathöfnina á mánudaginn? ,,Allir eru hjartanlega velkomnir, sem láta sig umferðaröryggi og afleiðingar umferðarslysa varða. Dagskráin er óformleg en auk mín munu 2-3 aðilar taka til máls og flytja stutt erindi. Eftir það verða opnar umræður. Ég vonast til að sjá sem flesta og það verður tekið vel á móti öllum sem leggja leið sína í Garðakirkju á mánudagskvöldið klukkan 19:30,” segir Anna Linda að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar