Þess vegna völdum við Garðabæ

Garðabær er eftirsótt sveitarfélag fyrir ungt fjölskyldufólk, það er okkar reynsla og þess vegna völdum við að búa hér. Í Garðabæ er góður bæjarbragur og samfélagið er samheldið. Það sést líka greinilega á íbúaþróun að ungt fólk vill búa í Garðabæ og finnur að hér er grundvöllur fyrir farsæla framtíð fjölskyldunnar

Innviðirnir eru góðir og að þeim hefur greinilega verið hlúð lengi. Þægilegar samgöngur og stutt í allar stofnbrautir. Græn og opin svæði eru til útivistar og hreyfingar og stígar lagðir nánast óslitið milli hverfa. Grunnþjónusta á borð við götuhreinsun og sorphirðu er til fyrirmyndar. Álögur eru almennt lágar á heimili. Hér virðast innviðir einnig aðlaðandi fyrir fyrirtæki og aukna menningu líkt og við sjáum með grósku á Garðatorgi.

Grunn- og leikskólar Garðabæjar hafa jafnan vakið athygli og þótt fyrirmynd annarra fyrir hversu vel er þar staðið að málum. Nýsköpun í skólastarfi fær að njóta sín, valfrelsi nemenda um hvar námið er sótt er tryggt, fagfólk er þar við störf á öllum póstum og vel haldið um allt sem snýr að vellíðan og þroska barnanna. Garðabær hefur staðið mörgum nágrannasveitarfélögum framar í að tryggja nýjum Garðbæingum leikskólapláss og börnin tekin mun fyrr inn en landsmeðaltalið segir. Byggingar og öll aðstaða skólahalds er eins og best verður á kosið. Þannig viljum við hafa það áfram.

Aðstaða til íþróttaiðkunar er sömuleiðis eins og best gerist, hún er í algjörum sérflokki. Metnaður og kapp einkennir allt íþróttastarfið og börnin fá þar fullt tækifæri til að eflast og sækja fram í krafti eigin verðleika. Sama má segja um tómstundir og afþreyingu fyrir alla fjölskylduna í Garðabæ. Leiksvæðin eru mörg ný og af bestu gerð.

Annað sem laðar fjölskyldufólk hingað til bæjarins er öryggið og umhverfið. Börnin geta leikið sér frjáls í fallegri náttúru enda mörg græn opin svæði sem eru friðlýst hér og kjörin til útivistar þar sem öll fjölskyldan nýtur sín. Það geta ekki öll sveitarfélög boðið fjölskyldufólki upp á rólegt líf í sveit í borg með sama hætti og Garðabær. Það eru lífsgæði sem okkur finnast eftirsóknarverð.

Góður rekstur á sveitarfélagi spilast ekki bara upp í hendurnar á okkur. Það þarf að halda áfram vel á spöðunum svo að ólíkir samfélagshópar njóti sín í Garðabæ, óháð stöðu og uppruna. Komandi kynslóðir þurfa að njóta góðs af ákvarðanatöku forystufólksins okkar í dag.

Að okkar mati hefur meirihluti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Garðabæjar unnið framúrskarandi gott verk og skapað hér bæjarfélag sem augljóslega er eftirsótt og virkar. Við treystum frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins best til að tryggja að Garðabær verði áfram í fremstu röð og haldi forystuhlutverkinu, sem bæjarfulltrúar flokksins í áranna rás, tryggðu bænum. Við hvetjum því allt ungt fjölskyldufólk til að setja X við D þann 14. maí næstkomandi. Fyrir fjölskylduna og fyrir Garðabæ.

Agla Eir Vilhjálmsdóttir, Brjánn Guðjónsson og Védís Hervör Árnadóttir, foreldrar í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar