Þess vegna stofnuðum við fátæktarsjóð

Ég er svo lánsamur að eiga foreldri á lífi. Móðir mín, sem sleit barnsskónum í Kópavogi, er nú um áttrætt og ennþá heilsuhraust – sem er ekki sjálfsagt. Alltaf þegar ég heimsæki hana er ég minntur á hvað ég stend í mikilli þakkarskuld við þær kynslóðir sem gerðu Ísland að einu þróaðasta og ríkasta landi í heimi. Þessar kynslóðir hafa í flestum tilvikum lokið sinni starfsævi en eru, einhverra hluta vegna, háðar ósanngjörnu lífeyriskerfi og ófullnægjandi þjónustu heilbrigðis- og velferðarkerfis.   

Þegar ég sat í stjórn Rauða krossins fann ég frá fyrstu hendi hvaða áhrif fátækt hefur á fólk. Það opnaði augu mín að sjá hversu mikil fátækt er á þessu ríka landi og ég skammast mín fyrir það. Við hjá Rauða krossinum brugðum því á það ráð að setja á fót sárafátæktarsjóð til að styðja fólk í þessari stöðu. Umsóknirnar frá fólki með lítið sem ekkert á milli handanna, ekki síst eldra fólki, hafa verið fleiri en auðvelt er að viðurkenna.

Þessu vil ég breyta. Þess vegna býð ég mig fram. Öll stefna okkar Pírata miðar að því að Ísland verði velsældarsamfélag. Stór þáttur í því er að tryggja eldra fólki velsæld, öryggi, samráð og virðingu. Við viljum útrýma fátækt eldra fólks sem reiðir sig einvörðungu á lögbundin ellilífeyri. Lífeyrir skal fylgja almenni launaþróun og skal ekki skerðast við lífeyrissjóðsgreiðslur né atvinnutekjur. Að auki viljum við lögfesta lágmarksframfærsluviðmið fyrir alla íbúa landsins.

Við viljum tryggja húsnæði og þjónustu við hæfi heima í héraði og koma þar með í veg fyrir hreppaflutninga og að hjónum sé stíað í sundur. Við viljum efla heimaþjónustu til að gera eldra fólki kleift að búa sem lengst á eigin heimili kjósi það svo.

Að lokum viljum skipuleggja gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, félagslegan stuðning, aðgerðir til að draga úr einangrun og auka virkni, fjölbreytt félagsstarf þvert á kynslóðir og stuðning til sjálfshjálpar. Allt verði þetta gert í samráði og samstarfi við eldra fólk, enda er aðkoma fólks að eigin málefnum lýðræðisleg, valdeflandi og í anda Pírata. 

Gísli Rafn Ólafsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar