Það virðist eiga að þvinga okkur í hækkun útsvars – segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri í Garðabæ

Innviðaráðherra hefur boðað að lagt verið fram á Alþingi nýtt frumvarp um breytingar á Jöfnunarsjóði. Í frumvarpinu er m.a. ákvæði um að ef sveitarfélög fullnýta ekki útsvar sitt eigi að draga úr fjárframlögum til sömu sveitarfélaga.

Undanfarin ár hafa Garðbæingar greitt háar fjárhæðir í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í gegnum hlutdeild í útsvarstekjum. Þessir fjármunir fara í að standa straum að greiðslum Jöfnunarsjóðs vegna málefna grunnskóla og fatlaðs fólks. Umræddar greiðslur eru mun hærri en Garðabær fær úthlutað úr sjóðnum. Á síðustu fimm árum hafa Garðbæingar þannig lagt vel yfir þremur milljörðum króna meira inn í sjóðinn en sveitarfélagið hefur fengið á móti.

Bæjarstjóri Garðabæjar, Almar Guðmundsson, hefur gagnrýnt frumvarpið og segir að kerfið skapi ranga hvata þar sem vel rekin sveitarfélög, sem  vilja gera vel við bæjarbúa og vilji halda sköttum í lágmarki, sé beinlínis refsað með aukinni greiðslubyrði í sjóðinn.

Þetta skapar beinlínis hvata fyrir sveitarfélög að skrúfa skatta í botn og er alvarleg aðför að okkar sjálfsákvörðunarrétti

Þú ert ekki sáttur við frumvarpið um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og hefur sagt að breytingin skapi ranga hvata. Geturðu útskýrt hvað þú átt við með því, af hverju er það og telur þú regluverk sjóðsins vera ósanngjarnt fyrir Garðabæ? ,,Frumvarpið fjallar reyndar um fleiri þætti. En já, við mótmælum harðlega ákvæði sem snýr að fullnýtingu útsvars, þ.e. að greiðslur til okkar minnki úr sjóðnum um sem nemur mismun á útsvari Garðabæjar og hámarksútvari. Þetta skapar beinlínis hvata fyrir sveitarfélög að skrúfa skatta í botn og er alvarleg aðför að okkar sjálfsákvörðunarrétti. Svo er það þannig að álagning okkar á útsvar hefur engin áhrif á úthlutanir úr sjóðnum, þvert á það sem haldið er fram af stuðningsmönnum frumvarpsins,“ segir Almar og bætir við: ,,Það má geta þess að síðast þegar þetta frumvarp kom fram hafði Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi innviðaráðherra fellt þessa umdeildu tillögu út úr frumvarpinu áður en það fór til Alþingis. Það er undarlegt að núverandi ráðherra skuli ekki afgreiða málið á sama hátt.

Um 600 milljónir króna skellur fyrir bæjarsjóð

Um hvaða fjárhæðir erum við að tala og hvaða áhrif hefur þetta haft á rekstur bæjarins? ,,Fjárhagsleg áhrif frumvarpsins á Garðabæ eru þannig að breytingar á svokölluðum jöfnunarframlögum myndu skerða framlög til okkar um u.þ.b. 200 m.kr. Áhrif breytinganna vegna útsvarsálagningar eru síðan um 400 m.kr. Samtals er því um að ræða 600 m.kr. skell fyrir bæjarsjóð, sem yrði gríðarlega erfitt verkefni að brúa,“ segir hann.

Kostar hvern Garðbæing um 50 þúsund krónur á ári

,,Það verður líka að geta þess að nú þegar leggjum við Garðbæingar miklu meira til sjóðsins en sveitarfélagið fær í framlög frá honum. Okkur reiknast til að verði breytingin að lögum muni hver einasti Garðbæingur leggja sjóðnum til um 50 þúsund krónur á ári umfram það sem sveitarfélagið fær frá sjóðnum,“ segir Almar.

Almar segir að nýja frumvarpið geti kostað Garðabæ 600 milljónir króna á ári eða um 50 þúsund krónur á hvern íbúa

Öll sveitarfélög eins, með sitt „ríkisútsvar“

Það hefur verið bent á að Garðabær geti einfaldlega hækkað útsvarið til að fá hærri greiðslur úr sjóðnum. Hvað segir þú um það? ,,Það er nú eins öfugur hvati og hægt er að hugsa sér og það virðist eiga að þvinga okkur í að hækka útsvar. Þeir stjórnmálamenn sem hugsa svona ættu að fara rétta leið að sínum markmiðum. Sú leið væri að breyta ákvæði um sjálfsstjórn sveitarfélaga í stjórnarskránni og samtóna ákvæðum í lögum sem leyfa okkur að ákvarða útsvar og fleiri skatta innan ákveðins ramma,“ segir hann og heldur áfram: ,,Mér fyndist það þar fyrir utan ótrúlega óskynsamlegt, en ef menn á annað borð vilja hafa öll sveitarfélög eins með sitt „ríkisútsvar“ þá væri þetta eðlilegri leið.“

Breyting á útsvari skilar sjóðnum engum viðbótartekjum

Er Garðabær ekki í raun nauðbeygður til þess að hækka útsvarsprósentuna á bæjarbúa til að rétta stöðuna er kemur að greiðslu úr sjóðnum? ,,Ég vil ekki úttala mig um það enn þá, við tökum á því ef þessi staða kemur upp. En ég verð að hvetja þingmenn til að kynna sér málið vel og ég hef trú á því að það hafi nægileg áhrif til að málið fari ekki í gegn. Ég fann það að það var staðan síðast þegar frumvarpið fór í umræðu. Annars er það ansi merkilegt að ef Garðabær myndi hækka útsvarið eftir samþykkt frumvarpsins yrði staðan sú ári síðar að engir viðbótarfjármunir væru til skiptanna í sjóðnum, þvert á það sem margir halda. Það er nefnilega þannig að breyting á útsvari skilar sjóðnum engum viðbótartekjum.“

Ég finn góðan samhljóm í bæjarstjórninni gagnvart þessu máli

Hvernig hefur svo umræðan um þessa stöðu verið innan sveitarstjórnar Garðabæjar, eru allir bæjarfulltrúar sammála um ósanngjarnar reglur sjóðsins? ,,Ég finn góðan samhljóm í bæjarstjórninni gagnvart þessu máli. Við höfum rætt þetta ítarlega og lagt okkur fram um að kynna okkur málið. Og það er gríðarlega mikilvægt að bæjarfulltrúar í Garðabæ nálgist þetta með hagsmuni sveitarfélagsins í huga. Það er skylda okkar allra. Mér sýnist að flokkslínurnar á þingi muni ekki hafa áhrif hér.“

Eru einhver önnur sveitarfélög í svipaðri stöðu og Garðabær sem deila þessari gagnrýni? ,,Já, við erum ekki ein á báti. Seltjarnarnes hefur einnig verið með mun lægra útsvar en hámarkið og það er algjör samhljómur í okkar málflutningi. Þá eru sveitarfélög eins og Hafnarfjörður og Kópavogur sama sinnis, en þessi sveitarfélög leggja ekki á hámarks útsvar. Ég finn svo fyrir því að frjálslyndara sveitarstjórnarfólk og þeir sem telja sjálfstæði sveitarfélaga mikilvægt hneigjast til að vera sammála okkur.“

Munum fylgja okkar afstöðu eftir af krafti

Hvað gerist næst í málinu? ,,Við eigum von á því að frumvarpið fari til umræðu á Alþingi og við munum fylgja okkar afstöðu eftir af krafti á þeim vettvangi og í samvinnu við sveitarfélög sem eru sama sinnis. Ég mun líka bjóða þingmönnum upp á kynningar á efni frumvarpsins og áhrifum þess á okkur. Þetta er flókið mál og mikilvægt að þingmenn setji sig inn í okkar sjónarmið,“ segir Almar og bætir við að lokum. ,,Þetta mál hefur síðan öll einkenni þess að verði frumvarpið að lögum ber okkur skylda til að kanna allar færar leiðir í að leita okkar réttar.“

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins