Það má alltaf finna leiðir til þess að bæta sig

Íþróttahátíð Garðabæjar var haldin í Miðgarði í janúar þar sem íþróttafólk var heiðrað fyrir góðan árangur árið 2022.

Á hátíðinni var Ásta Kristinsdóttir hópfimleikakona í Stjörnunni útnefnd Íþróttakona Garðabæjar fyrir árið 2022 og Garðapósturinn tók hana tali.

Með hæsta erfiðleikastigið í öllum stökkum

Ásta Kristinsdóttir varð Íslands- og bikarmeistari í hópfimleikum með kvennaliði Stjörnunnar. Ásta er einn af lykilmönn- um liðsins, er í öllum sex stökkumferðunum og með hæsta erfiðleika í öllum stökkum. Einnig sýndi hún glæsilega frammistöðu á dansgólfinu. Ásta var einnig lykilmanneskja í kvennalandsliðinu á Evrópumótinu í hópfimleikum í september 2022. Hún var ein af sex kon- um sem var valin í úrvalslið mótsins, „All star“ liðið fyrir frammistöðu sína á dýnu á mótinu. Núna í desember keppti Ásta á alþjóðlegu móti sem nefnist ,,Face off“ þar sem keppt er í mismunandi þrautum og er markmiðið að lenda stökk með hæstan erfiðleika með ákveðinni uppsetningu. Í ár var í fyrsta sinn keppt í kvennaflokki og Ásta var fyrst kvenna til að vinna þann flokk. Hún er fyrirmyndar afrekskona í fimleikum og sýnir mikinn metnað til að ná árangri í íþróttinni. Ásta var á dögunum útnefnd í 2.-3. sæti sem fimleikakona ársins hjá Fimleikasambandi Íslands.

Stökkin hjá Ástu eru svakaleg

Mikill heiður að vera valin Ánægð með viðurkenninguna að vera valin Íþróttakona Garðabæjar árið 2022? ,,Það er algjör heiður að vera valin Íþróttakona Garðabæjar. Gaman að fá viðurkenningu fyrir það sem þú hefur verið að stunda nánast daglega í mörg ár og að sú vinna sem ég hef sett í íþróttina sé að skila sér,” segir Ásta.

Á meðal sex bestu á Evrópumótinu

En þetta er langt frá því að vera eina viðurkenningin sem þú fékkst fyrir árið 2022 því þú varst m.a. valin í ,,All star“ liðið eftir Evrópumót landsliði í hópfimleikum, fyrir frammistöðu þína á dýnu. Varstu að toppa þína bestu frammistöðu á þessu móti og hvernig upplifun var það að komast í ,,All star“ liðið? ,,Á Evrópumótinu átti ég algjörlega eitt af mínum bestu mótum hingað til og má því segja að ég hafi toppað mig, en ég er að æfa önnur stökk með háum erfiðleika sem gætu komið í framtíðinni. Það er hinsvegar mikill heiður að vera valinn í All star liðið og vera meðal bestu sex kvenna á Evrópumótinu. Valið inn í liðið samanstendur af háum erfiðleika og góðri framkvæmd og eru dómarar mótsins sem sjá um valið. Því er gaman að fá viðurkenningu frá dómurunum og að ég hafi vakið eftirtekt meðal keppenda mótsins. Dýna er eitt af mínum uppáhalds áhöldum og hefur alltaf verið lúmst markmið að komast inn í liðið, var því ótrúlega gaman að vera valin inn í All star hópinn fyrir frammistöðu mína á dýnu.”

Unnum hart að okkar markmiðum

Svo varstu bæði Íslands- og bikarmeistari með liðinu þínu, Stjörnunni, á Íslandsmótinu í hópfimleikum, þar sem þú varst lykilhlutverki. Voruð þið með yfirburðarlið á Íslandi í fyrra?
,,Ég varð Íslands- og bikarmeistari með kvennaliði Stjörnunnar og vorum við með mjög sterkt og gott lið á síðasta tímabil. Við unnum hart að okkar markmiðum og settum allar fimleikana í fyrsta sæti í okkar lífi. Sama hversu mikil samkeppni er á Íslandi þá viljum við halda standard og setum við því mikla pressu á okkur sjálfar, einnig til að eiga séns á erlendum stórmótum.”

Með landsliðinu. Ásta í neðstu röð lengst til vinstri ásamt félögum í íslenska landsliðinu

En hvað gerir þetta lið svona gott, hvað þarf til? ,,Það er góð samheldni í liðinu og erum við miklar vinkonur sem gerir það að verkum að maður er spenntur að mæta bara til að hitta vinkonur sínar sama þó maður sé ekki að taka fullan þátt vegna meiðsla eða að mæta með fulla einbeitingu á æfinguna. Ég er að ganga í gegnum smá meiðslatímabil en ég mæti þó á allar æfingar og er ,,fómó” ef ég missi úr æfingum.”

Hvenær byrjaðir þú í fimleikum og af hverju byrjaðir þú í fimleikum? ,,Ég byrjaði í sumarnámskeiði 4 ára og fór svo í keppnishóp 6 ára í áhaldafimleikum. Skipti ég svo yfir í hópfimleika 13 ára og hef ekkert hætt síðan.”

Nýtir hverja æfingu vel sama hversu þreytt hún er

Þú ert gríðarlega öflug í stökkum og ert yfirleitt að taka hæsta erfiðleikastigið í öllum stökkunum þínum. Er það ekki bæði erfitt líkamlega og andlega að vera alltaf í hæsta erfiðleikastiginu og hvað er það sem gerir þig af einni bestu, ef ekki bestu stökkkonu heimsins? ,,Það er fer mikil vinna hjá mér í fimleikana utan æfingartíma til að halda mér í góðu líkamlegu formi. Ég pæli mikið í því að borða meira en nóg til að hafa sem mestu orku á æfingum. Það sem hefur einnig hjápað mér er að horfa á myndbönd af æfingum deginum eftir æfinguna. Ég reyni einnig að nýta hverja æfingu vel, sama hversu þreytt ég er í líkamanum því á keppnisdegi gæti ég verið þreytt í líkamanum og því þarf ég að kunna að takast á við það. Tel ég að þessir þættir hafi hjálpað mér að komast á þann stað sem ég er á. Þó svo að ég er að framkvæma háan erfiðleika núna er ég þó að æfa önnur stökk með háum erfiðleika sem gætu komið í framtíðinni.”

En krefst þetta ekki gríðarlega mikillar æfingar og má ekki lítið út af bregða í svona erfiðum stökkum? ,,Ég æfi fjórum sinnum í viku þrjá klukkutíma í senn með Stjörnunni, en þegar nær dregur að stórmótum þá bætist yfirleitt við sú fimmta ásamt æfingahelgum. Hvert stökk krefst ákveðnar áhættu svo mikil vinna og endurtekning er lykillinn að því að standa sín stökk. “

Þrátt fyrir stökkin þín þá ertu líka gríðarlega öflug á dýnu/dansgólfinu, má segja að þú sért svona alhliða í öllum greinum hópfimleikanna, eða hvað er í uppáhaldi hjá þér? ,,Til að byrja með gekk mér best í dansi enda fékk ég All star fyrir dans á EM 2021. Dýna hefur þó verið eitt af mínum upphalds áhöldum, þrátt fyrir það hef ég alltaf lagt mikla áherslu á að standa mig vel á öllum áhöldum.”

Ásta sigraði í Face off keppninni með glæsibrag sl. desember

Vann fyrst kvenna ,,Face off”

Ásta í Face Off keppninni!

Þú kepptir líka núna í desember á alþjóðlegu móti sem nefnist ,,Face off“ þar sem keppt var í mismunandi þrautum og er markmiðið að lenda stökk með hæstan erfiðleika með ákveðinni uppsetningu. Það var í fyrsta skipti keppt í kvennaflokki á þessu móti og þú gerðir þér lítið fyrir og sigraðir, hvernig var þetta mót og var ekki gaman að vinna það fyrst kvenna? ,,Faceoff snýst um að fimleikamaðurinn fá rými til að gera það sem honum langar til að sína. Enda er engin reglubók eins og er í öllum öðrum fimleikagreinum. Í raun má líta á keppnina meira sem sýningu frekar en keppni enda er mikið lagt upp úr ljósasýningu og tónlist. Keppnin hefur verið haldin í Danmörku síðan 2014 og var fyrst núna haldin í Svíþjóð og Noregi. Einnig var í fyrsta skipti kvennaflokkur á mótinu og keppti ég bæði í Svíþjóð og Danmörku og vann báðar keppninar. Það var skrítið að vera að keppa sem einstaklinur í fyrsta skipti í átta ár og saknaði ég liðsins míns mikið. Gríðaleg stemming er þó á þessum viðburði og eru allir þarna saman þó við vorum að keppa á móti hvor öðru. Áhöldin eru einnig öðruvísi og eru okkur lagt upp vissar þrautir, hafði ég til að nefna aldrei æft á einu áhaldi sem kallast DMT og æfði ég eftir bestu getu hérna heim til að undirbúa mig fyrir þetta mót. Þetta var geðveik upplifun og var mikil stemmning meðal áhorfenda og var ótrúlega gaman að fá rými til að prófa nýja hluti.”

En hefur aldrei neitt annað komist að en fimleikar hjá þér eða stundaðir þú aðrar íþróttir þegar þú varst yngri? ,,Mér datt aldrei í hug að æfa neitt annað en fimleika öll þessi 18 ár á mínum ferli.”

Ásta var valin í All star liðið

Er í flugnámi og stefnir á atvinnuflugið

En hvað gerir Ásta annað en að æfa fimleika stærstan hluta af sólarhringnum? ,,Ég er að byrja í flugnámi og stefni á atvinnuflugið og er rosalega spennt yfir því enda langþráður draumur. Hef ég þó bæði verið að vinna í Klettaskóla sem stuðningsfulltrúi og verið að vinna sem flugfreyja hjá Icelandair núna síðastliðið ár.”

Hvað er svo framundan hjá þér og Stjörnunni? ,,Núna erum við að byrja á íslenska keppnistímabilinu og við erum að vinna okkur inn réttindi inn á NM sem verður haldið á Íslandi í nóvember 2023. Auðvitað stefnum við á að verja Íslands- og bikarmeistaratitilinn þetta árið enda með þeim titlum náum við inn þátt- tökuréttindum á NM. “

Æfir þrefalt heljarstökk

Og finnst þér þú enn geta bætt þig í hópfimleikunum/persónulega, áttu meira inn þrátt fyrir frábært ár? ,,Ég er að vinna í hærri erfiðleikum sérstaklega á trampolíni þar sem ég hef verið að æfa þrefalt heljarstökk sem krefst mikillar nákvæmni í loftinu. Það má alltaf finna leiðir til að bæta sig enda myndi ég staðna ef ég hefði ekkert markmið fyrir hverja æfingu,” segir Ásta að lokum.

Íþróttakona Garðabæjar 2022, Ásta Kristinsdóttir hópfimleikakona.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar