segir Kristján Guðmundsson þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Stjörnunni
Fyrsti leikur Stjörnunnar í Pepsí-Max deildinni í sumar er ekki af lakari gerðinni því Stjörnustúlkur heimsækja Hlíðarenda í dag, miðvikudag þar sem mótherji liðsins er Valur, sem er spáð Íslandsmeistaratitlinum í ár.
Það hafa ekki orðið miklar breytingar á Stjörnuliðinu á milli ára, fjórir leikmenn horfið á braut og fjórar nýir komið í staðinn.
Garðapósturinn heyrði í Kristján Guðmundssyni, þjálfara Stjörnstúlkna og spurði hann m.a. hver staðan sé á liðinu eftir sérstakan undirbúningsvetur vegna kórónuveirunnar og samkomutakmarkanna? ,,Við höfum lent í að missa leikmenn í meiðsli í vetur eins og lang flest lið í deildinni en flestar sem hafa verið frá hjá okkur seinustu vikur eru alveg við það að verða leikfærar þannig að ástandið er orðið nokkuð gott, eins og oftast svona rétt fyrir mót. Það hungrar alla í að hefja mótið og spila alvöru leiki.“
Hópurinn þéttari í ár
Það hafa orðið nokkrar breytingar á liðinu, fjórir leikmenn horfið á braut en fjórir nýir bæst í hópinn – ertu sambærilegt lið og í fyrra hvað styrkleika varðar? ,,Við erum með mjög svipað lið að styrkleika og á seinasta ári. Þó finnst mér hópurinn vera þéttari í ár og jafnvel tilbúnari í átökin í sumar en á seinasta ári. Maður veit þó aldrei fyrr en eftir einhverjar seks umferðir í hvað stefnir hjá liðunum. Samsetning leikmannahópsins er svipuð en ég hefði viljað jafnvægisstilla örlítið betur hlutfall leikmanna út frá leikstöðum fyrir mótið.“
Eðli fótboltaliða að vera síðfellt að skoða leikmenn
Ertu kominn með fullmannaðan leikmannahóp eða eruð þið stöðugt að leita að nýjum leikmönnum, á eftir að bætast í hópinn á næstu dögum? ,,Það er eðli fótboltaliða að vera sífellt að skoða þá leikmenn sem eru í boði hverju sinni enda félagaskipti leikmanna orðin mun tíðari en þegar maður var sjálfur að spila. Við erum enn með augun á að ná betra jafnvægi í hópinn út frá leikstöðum.“
Ungu stúlkurnar að styrkjast
Það er töluvert að ungum leikmönnum í hópnum sem hafa reyndar flestir fengið að taka þó nokkur sporin með liðinu í efstu deild – er þessi leikmenn að styrkjast með hverju árinu? ,,Stjarnan er að vinna út frá ákveðinni hugmyndafræði til lengri tíma. Stærsti hlutinn af þeirri hugmyndafræði snýr að því að bæta umhverfi fyrir þá leikmenn sem alast upp í Stjörnunni og hungrar í að spila fyrir Stjörnuna í efstu deild. Þær sem hafa fengið tækifærið seinustu árin eru að styrkjast hver á sinn hátt og eru allar tilbúnari í meiri átök í sumar. „
Það vita afskaplega fái hver staðan er
Ykkur er spáð 7. sæti í deildinni. Er það raunhæf spá eða hver eru markmiðin fyrir sumarið? ,,Spáin er raunhæf út frá þeim forsendum sem spáin byggir á. Það hafa þó verið leiknir afar fáir undirbúningsleikir hjá liðunum í vetur og vor þannig að í raun vita afskaplega fáir hver staðan er á öllum liðum nú rétt fyrir upphaf móts. Markmiðin eru skýr, við stefnum á efri hluta deildarinnar.“
Ég á von á svipuð móti
Hvernig reiknar þú með að deildin muni spilast í sumar, verður hún jafnari en oft áður? ,,Deildin í fyrra var gríðarlega jöfn fyrir utan tvö efstu liðin. Ég á von á svipuðu móti og fyrir ári en þó ekki svo afgerandi forystu efstu liðanna. Þau lið sem ná meiri stöðugleika í leik sinn og frammistöðu frá í fyrra munu ná að elta liðin tvö sem enduðu efst á seinasta ári og er spáð tveimur efstu sætunum aftur í ár.“
Allir áttuðu sig á að alvaran er að nálgast
Þið fáið erfiða mótherja í fyrstu umferðinni, Val sem er spáð Íslandsmeistaratitli. Hvernig líst þér á þann leik og jafnvel gott að fá svona sterka mótherja strax í fyrsta leik? ,,Þegar ljóst var að fyrsti leikur okkar yrði að Hlíðarenda gegn jafn sterku liði og Valur er, þá áttuðu allir sig á að alvaran nálgaðist eftir veiru vetur og stemmningin hjá okkur hefur verið gríðarlega góð. „
En hverjir eru helstu styrkleikar Stjörnuliðsins? ,,Jafn leikmannahópur sem eru tilbúnar að berjast hver fyrir aðra og mynda sterka liðsheild.“
Allir leikmenn heilir fyrir leikinn fyrir Val? ,,Það eru allar heilar en mistilbúnar í fyrsta leik. Við getum ekki valið úr öllum leikmannahópnum en það styttist í það. Það er spilað þétt í maí og við þurfum á öllum leikmönnum að halda næstu vikurnar.“
Frammistaðan í leiknum ákvarðar hvort við fáum eitthvað út úr honum
Og markmiðið að sækja þrjú stig á Origo völlinn að Hlíðarenda á miðvikudaginn? ,,Við erum mjög hress og spennt fyrir að hefja leik í íslandsmótinu. Frammistaðan í leiknum ákvarðar það hvort að við náum í þrjú stig og eigum við ekki að vera bjartsýn á það,“ segir Kristján brosandi.
Á aðalmyndinni eru Chanté Sandiford markvörður sem kom frá Haukum og Gunnar Leifsson formaður meistarafloksráðs kvenna