Það geta allir tekið þátt í Lífshlaupinu

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur ár hvert í febrúar fyrir Lífshlaupinu, sem er heilsu- og hvatningarverkefni sem höfðar til allra landsmanna. Skráning er þegar hafin inn á lifshlaupid.is og nú er um að gera fyrir vinnustaði, framhalds-, og grunnskóla eða einstaklinga að skrá sig til keppni. Lífshlaupið verður síðan ræst þann 1. febrúar n.k. og stendur keppnin yfir í þrjár vikur, en í tvær vikur fyrir grunn- og framhaldsskóla.

Lífshlaupið var fyrst hleypt af stokkunum árið 2006, en þúsundir Íslendinga hafa tekið þátt í verkefninu ár hvert. Í Lífshlaupinu er keppt í fjórum flokkum, vinnustaðakeppni, framhaldsskólakeppni, grunnskólakeppnin. Einstaklingkeppnin er í gildi allt árið.

Hrönn Guðmundsdóttir og Linda Laufdal starfsmenn ÍSÍ halda utan um verkefnið og þær voru spurðar að því hvert markmiðið væri með Lífshlaupinu? „Í Lífshlaupinu eru allir landsmenn hvattir til þess að huga að daglegri hreyfingu sinni og auka hana eins og kostur er í frítíma sínum, í vinnu eða skóla og við val á ferðamáta. Í ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu er börnum og unglingum ráð lagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag,“ segir Hrönn.

Fólk áttaði sig í Covid hvað hreyfing og góð heilsa er mikilvæg

Það eru 16 ár síðan fyrsta Lífshlaupið var haldið, hefur það undið upp á sig á síðustu árum? ,,Þátttaka í Lífshlaupinu hefur bara vaxið undanfarin ár. Í Covid (2020 og 2021) jókst hins vegar þátttaka í Lífshlaupinu til muna, þarna fattaði fólk hvað hreyfing og góð heilsa er mikilvæg,” segir Linda.

Það má alltaf finna flöt á þátttöku

En hverjir eru það sem taka þátt í Lífshlaupinu? ,,Það geta í rauninni allir tekið þátt í Lífshlaupinu og gaman að segja frá því að félög eldri borgara og börn á leikskólum eru farin að taka þátt. Það má alltaf finna flöt á þátttöku. Það er skemmtilegast ef sem flestir geta og vilja vera með. Mörg fyrirtæki og skólar eru með Lífshlaupið á dagskrá á hverju ári. Það er orðið fast í dagatalinu og frábær byrjun á nýju ári,” segir Linda.

Þátttaka skapar góðan anda á vinnustöðum og í skólum

Og Lífshlaupið skapar oft mikla stemmningu innan vinnustaða og skóla og eða á milli þeirra, lands-menn eru að setja smá metnað í þetta? ,,Já, heldur betur. Lífshlaupið samanstendur af grunnskólakeppni fyrir fimmtán ára og yngri sem stendur yfir í tvær vikur, framhaldsskólakeppni fyrir 16 ára og eldri sem stendur yfir í tvær vikur og vinnustaðakeppni sem nær yfir þriggja vikna tímabil í febrúar. Auk þess er einstaklingskeppni í gangi þar sem allir geta tekið þátt og skráð niður daglega hreyfingu sína allt árið.Allir landsmenn geta tekið þátt, hver á sínum forsendum. Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega. Einnig skapar þátttaka góðan anda á vinnustöðum og í skólum landsins,“ segir Hrönn.

Keppast við að hreyfa sig við hvert tækifæri

En þetta snýst fyrst og fremst um að láta landsmenn hreyfa sig og vekja athygli á mikilvægi hreyfingar – ekki keppni í raun nema þátttakendur vilja krydda þetta aðeins? ,,Helsti ávinninginn er að vinnustaðir og skólar landsins keppast við að hreyfa sig við hvert tækifæri. „Dæmi eru um að hópar myndist á vinnustöðum og nýti hádegin til göngu, hlaupa, hjólreiða eða annarrar hreyfingar. Víða eru settar upp keppnir innan vinnustaða, t.d í tröppuhlaupi, göngur, keppni í armbeygjum, reipitogi og öðrum skemmtilegum leikjum. Eins hef ég heyrt að á meðan á átakstímabilinu stendur sé margt um manninn í kvöldgöngum og hlaupum í mörgum bæjarfélögum landsins til þess að ná í 30 mínúturnar sínar,“ segir Linda.

Hreyfing eykur hreysti og bætir lífsgæði

Og það er mikilvægt fyrir landsmenn að stunda góða hreyfingu sér til heilsu- bótar og það er aldrei of seint að byrja? ,,Grunnmarkmið átaksins hefur ekkert breyst frá árinu 2006, sem er að fá landsmenn til að huga að sinni daglegu Hreyfingu. Rannsóknir sína að hreyfing gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu og vel-líðan. Regluleg hreyfing hægir á öldrun og minnkar líkurnar á lífsstílstengdum sjúkdómum. Hreyfing eykur hreysti og bætir lífsgæði. Það er ljóst að nú er mikilvægara sem aldrei fyrr að huga vel að heilsunni og stunda reglulega hreyfingu. Mikilvægt er að finna sér hreyfingu við hæfi og það sem höfðar til hvers og eins. Lífshlaupið er kjörið hvatningarátak í átt að bættri heilsu,“ segir Hrönn en það er hægt að skrá sig og byrja hvenær sem er á meðan átakið stendur yfir.

En hvað þurfa landsmenn að hreyfa sig mikið á hverjum degi eða hversu oft í viku til að uppfylla skilyrði landslæknis um hreyfingu? ,,Samkvæmt ráðleggingum Embættis landslæknis þá eiga börn að hreyfa sig allavega 60 mínútur á dag og fullorðnir 30. Dagleg hreyfing gerir öllum gott en fyrir börn og unglinga er það nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt, þroska og andlega vellíðan. „Öll börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og er kröftug hreyfing sem reynir á beinin sérstaklega mikilvæg fyrir kynþroska og á kynþroskaskeiði fyrir beinmyndun og beinþéttni,” segir Linda.

Hjartað þarf að pumpa örlítið

Og þetta þurfa ekki að vera nein átök eða hvað? ,,Nei alls ekki, hjartað þarf að pumpa örlítið og þá er talað um meðal erfiða hreyfingu, t.d rösk ganga, skokk, sund, hjól ofl. Í vinnustaðakeppninni má skrá alla miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu sem stunduð er utan vinnutíma,” segir Hrönn og Linda bætir við: „Til þess að fá einn dag skráðan þarf að hreyfa sig að lágmarki í 30 mínútur sem skipta má upp í nokkur skipti yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn. Hreyfingin ætti að vera eins fjölbreytt og mögulegt er til að efla sem flesta þætti hreysti, þar á meðal afkastagetu hjarta- og æðakerfis, lungna, vöðvastyrk, liðleika, viðbragð og samhæfingu. Mikilvægt er að finna sér hreyfingu við hæfi og það sem höfðar til hvers og eins. Lífshlaupið er kjörið hvatningarátak í átt að bættri heilsu.“

Fljótlegt og einfalt að skrá sig

Og skráning er hafin og þið hvetjið að sjálfsögðu alla að taka þátt? ,,Það er bæði fljótlegt og einfalt að skrá sig til leiks inn á vef verkefnisins, lifshlaupid.is, og stofna aðgang ef hann er ekki til þegar. Síðan þarf að finna vinnustaðinn sinn og annað hvort stofna nýtt lið með vinnufélögunum eða ganga í lið sem þegar hefur verið stofnað. Og þá er bara að byrja að hreyfa sig og skrá það. Í anda almenningsíþrótta er leikurinn byggður upp með það að markmiði að framlag hvers og eins telji. Ef starfsmaður skráir einn dag þá telur það. Skrá má alla hreyfingu sem nær minnst 30 mínútum samtals á dag hjá fullorðnum og minnst 60 mínútum samtals á dag hjá börnum og unglingum. Bara muna að skrá heilar 30 mín, 29 mínútur telja ekki sem dagur,” segja þær Hrönn og Linda að lokum.

Og nú er bara að skrá sig á: lifshlaupid.is

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar