Á dögunum var sr. Matthildur Bjarnadóttir valin kona ársins 2022 af Bandalagi kvenna í Reykjavík á
þingi bandalagsins. Viðurkenninguna hlaut hún fyrir störf sín í þágu barna sem misst hafa náinn ástvin.
Bandalag kvenna í Reykjavík telur mikilvægt að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er á öllum sviðum samfélagsins og því byrjaði það að veita viðurkenningar á 98. þingi félagsins sem var á baráttudegi kvenna 8. mars 2014.
Garðapósturinn ræddi við sr. Matthildi Bjarnadóttur, prest í Vídalíns- og Garðakirkju og spurði hana nánar um það starf sem hún innir af hendi og hlaut viðurkenninguna fyrir.
Við byrjuðum á því að spyrja Matthildi hvenær hún hóf störf í Vídalínskirkju og hvernig það hafi komið til að hún fór í prestinn? ,,Ég er alin upp af tveimur prestum svo starfið var fyrirferðamikið alla mína æsku og ég tók þátt í ýmis konar kirkjustarfi. Ég mætti bæði í fermingarfræðslu og eldri borgara starf þegar ég var krakki. Svo kom nú langur tími þar sem ég hafði engan sérstakan áhuga á prestsskap en þegar kom að því að velja háskólanám bankaði guðfræðin upp á innra með mér og svo hafði ég gríðarlega gaman af náminu þegar á hólminn var komið,” segir Matthildur.
Mamma tók því ekkert sérstaklega vel að ég ætlaði í guðfræðina
Svo þú fékkst engu um þetta ráðið? ,,Reyndar var það alveg öfugt. Ég tilkynnti foreldrum mínum nokkuð formlega að ég ætlaði í guðfræði og mamma tók því bara ekkert sérstaklega vel! Hún veit allt of vel hvað prestsstarfið getur verið erfitt, vinnutíminn oft ófjölskylduvænn og verkefni sem rífa í hjartað svo henni leist ekkert sérstaklega á þetta val hjá mér.”
Og hvernig kanntu við þið í Garðasókn, er þetta gefandi og fjölbreytt starf? ,,Ég held að það sé leitun að starfi sem sé fjölbreyttara og mér leiðist aldrei í vinnunni. Það er afskaplega gefandi að fá að vera samferða fólki í alls kyns verkefnum lífsins, bæði í gleði og sorg og ég er alltaf að vinna með merkingu og innihald, stóru spurningarnar í lífinu.”
Og ef við snúum okkur að viðurkenningunni sem þú fékkst á dögunum frá Bandalagi kvenna í Reykjavík fyrir störf þín í þágu barna sem misst hafa náinn ástvin. Hvenær byrjaðir þú að hugsa um þetta og hvernig fer þetta fram? ,,Það var afskaplega óvænt ánægja að fá þetta hrós frá Bandalagi kvenna í Reykjavík og mér þykir mjög vænt um að fá svona vind í bakið og hvatningu frá öllum þessum konum. Ég ætlaði aldrei að einbeita mér sérstaklega að þessu málefni til að byrja með, áhuginn og köllunin vaknaði þegar ég varð sjálfboðaliði fyrir Örninn árið 2018. Síðan þá hefur sú þróun orðið að ég hef meira og meira sinnt barnafjölskyldum í sorg, bæði innan Garðasóknar og utan og bætt við mig menntun í sálgæslu og sorgarúrvinnslu.
Örninn býður upp á mánaðarlegar samverur í Vídalínskirkju yfir veturinn og árlega helgarferð út fyrir bæinn þar sem er fjölbreytt úrvinnsla undir handleiðslu fagfólks. Við höldum úti vefsíðunni arnarvaengir.is þar sem hægt er að skrá sig í hópinn og Facebook síðunni Örninn minningar- og styrktarsjóður.”
Þetta er erfiður tími í lífi hvers og eins, en reynir þetta ekki oft á þig að vinna með svona ungum börnum sem hafa misst annað foreldri sitt eða annan náinn ástvin – mikil sorg? ,,Auðvitað tekur það á að verða vitni að djúpri sorg og sársauka fólks en huggunin felst í því að geta gert eitthvað gagn í erfiðum að- stæðum. Svo er það mikilvægur hluti af fagmennsku í starfi að fá sjálf handleiðslu og passa upp á andlegu hliðina. Svo er starf Arnarins og kirkjunnar fullt af gleði og fegurð líka og það eru einhver sterkustu bjargráðin á erfiðum tímum.”
Eru allir tilbúinir til að taka þessi skref með þér, vilja stuðning? ,,Nei, það er mjög persónubundið hvenær og hvort fólk er tilbúið til þess að þiggja stuðning í sorgarúrvinnslu. Það er mikilvægt að bæði börn og fullorðnir fái að stýra ferðinni í sinni eigin sorgarúrvinnslu. Það er ekkert að því að hvetja fólk til dáða en að ætla að hafa vit fyrir öðrum og neyða einhvern í úrvinnslu sem viðkomandi treystir sér ekki í hefur ekki góð áhrif,” segir Matthildur að lokum.
Mynd: Matthildur ásamt Kolbrúnu Benjamín og Vilborgu Bergman, formanni Bandalags kvenna í Reykjavík er hún tók á móti viðurkenningunni.