Það býr svo ótrúlega mikið í þessu liði og enn meira en við höfum sýnt – segir Guðmundur Kristjánsson fyrirliði Stjörnunnar

Úrslitakeppni efri hlutar í Bestu-deild karla hefst í dag og þar eru drengirnir í Stjörnunni í dauðafæri að tryggja sér sæti í Evrópukeppninni að ári, en liðið er í fimmta sæti eins og er með jafn mörg stig og ÍA sem er í fjórða sæti og fjórum stigum á eftir Val sem er í þriðja sæti.

Eftir sigur KA á Víkingum sl. laugardag í úrslitaleik bikarkeppninnar mun 4. sætið í Bestu deildinni ekki gefa sæti í Evrópukeppninni að ári og Stjarnan verður því að ná þriðja sætinu til að tryggja sér þátttökuréttinn.

Garðapósturinn heyrði hljóðið í fyrirliða Stjörnunnar, Guðmundi Kristjánssyni, og spurði hann um úrslitakeppnina sem er framundan, en fyrsti leikur liðsins er á móti Val á Hlíðarenda á mánudaginn kl. 19:15 og það þarf ekkert að ræða um mikilvægi hans.

En hvernig líst fyrirliðanum á komandi úrslitakeppni og stöðuna á Stjörnuliðinu í dag? ,,Mér líst vel á úrslitakeppninu. Við erum búnir að vera í þokkalegu floti undanfarnið og ágætis jafnvægi í frammistöðum hjá okkur. Minna af sveiflum en stundum áður. Núna taka hins vegar við erfiðir leikir við öll liðin í efri hlutanum svo að við þurfum að reyna að breyta þokkalegum frammistöðum í góðar frammistöður og helst góðum í frábærar.“

Þetta bann kom á góðum tíma

Og þú fékkst góða hvíld í síðasta leik og kemur vonandi ferskur inn að nýju – ekkert að há þér?
,,Nei, þetta bann kom á góðum tíma því ég var búinn að vera að spila í gegnum meiðsli og gat ekki tekið spretti í leikjunum á undan. Núna er ég búinn að hafa smá tíma til að ná að jafna mig á því og ætti að koma ferskur heill til baka og klár í úrslitakeppnina,“ segir hann brosandi.

Vonandi springur liðið alveg út núna í lok mótsins

Má ekki segja að sjálfstraustið og stemmningin í Stjörnuliðinu sé nokkuð góð fyrir úrslitakeppnina, liðið aðeins tapað einum leik af síðustu átta í Bestu deildinni? ,,Jú, sjálfstraustið hefur verið að aukast í liðinu samhliða góðum frammistöðum og hagstæðum úrslitum. Við höfum haldið hreinu núna þrjá leiki í röð og þá er töluvert auðveldara að sækja úrslitin sem við viljum. Núna eigum við samt í vændum enn erfiðari leiki svo að það er mikilvægt að byggja ofan á þetta. Það býr svo ótrúlega mikið í þessu liði og enn meira en við höfum sýnt. Vonandi springur liðið alveg út núna í lok mótsins.“

Ég mikla trú á þessum leikmannahópi

En ertu sáttur með spilamennskuna ykkar í sumar, í 5. sæti í lok deildarkeppninnar, eru þið að pari við markmiðið ykkar fyrir mót? ,,Spilamennskan hefur verð góð á köflum, en yfir heildina hefur hún sveiflast aðeins of mikið. Ég hef svo mikla trú á þessum leikmannahópi að ég vil sjá hann ná enn lengra. Við erum ennþá í hörku baráttu um Evrópusæti svo að næstu fimm leikir verða ákaflega mikilvægir fyrir okkur. Við munum halda áfram að einbeita okkur að því að verða betri sem lið og bæta okkar leik. Ef við höldum okkar striki hvað það varðar þá hef ég fulla trú á að við náum þangað sem við viljum fara.“

Þegar maður fer yfir leiki liðsins í deildinni er þá ekki svolítið svekkjandi að þið skiluðu aðeins 13 stigum í hús af 24 á móti fjórum neðstu liðunum sem eru að berjast um að halda sér í Bestu deildinni – dýr stig í súginn fyrir komandi baráttu? ,,Jú, auðvitað eru það stig sem hefðu komið sér vel núna. Sérstaklega þegar svona lítið skilur á milli okkar og liðanna í kringum okkur.“

Styrkst varnarlega í föstum leikatriðum

En eru einhverjir vankantar á leik liðsins sem þið eruð að vinna í fyrir úrslitakeppnina eða snýst þetta meira um að menn koma rétt stemmdir og tilbúnir í leikina? ,,Á tímabili í sumar vorum við í vandræðum með föst leikatriði varnarlega. Okkur hefur tekist undanfarnar vikur að vinna í því og höfum verið þokkalega sterkir í þeim undanfarnar vikur. Þar sem við erum að fara að spila á móti sterkustu liðum deildarinnar þá reikna ég með því að þau eigi eftir að koma framar á völlinn að pressa okkur heldur en hefur oft verið í sumar. Þá þurfum við að vera öflugir og hugrakkir í að spila í gegnum pressuna. Ég held að leikmannahópurinn í heild sinni sé tilbúinn í þessa leiki og menn virka almennt spenntir fyrir áskoruninni. Við vonumst síðan til þess að fá eins margar bláar treyjur og háværar raddir og hægt er, til að berja á trommur og hvetja okkur áfram. Þetta verða hörkuspennandi leikir og þá munar um að hafa góða stemningu og hvatningu í stúkunni frá okkar Stjörnufólki.

Eins og staðan er fyrir úrslitakeppnina að þá stefnir í gott fjögurra liða einvígi um eitt Evrópusæti, á milli Stjörnunnar, Vals, ÍA og FH. Þið tókuð 15 stig af 18 á móti þessum liðum í deildarkeppninni sem er frábær árangur. Þó ekkert sé í hendi þá virðist það henta ykkur betur að spila á móti þessum liðum í efri hlutanum en í botnliðunum út frá stigasöfnun í sumar – sammála því og hvað veldur? ,,Já, það virðist hafa gengið betur hjá okkur heilt yfir gegn þessum liðum. Hvað sem veldur, þá virðumst við hafa náð betri frammistöðum að einhverju leyti í þessum leikjum. Því miður telja þeir bara til þriggja stiga, rétt eins og hinir. En vonandi heldur þetta góða gengi gegn þeim áfram núna á komandi vikum. Þá ættum við að enda mótið á góðum stað.“

Með sigri á Val galopnum við baráttuna um Evrópusæti

Fyrsti leikurinn ykkar í úrslitakeppninni er á móti Val að Hlíðarenda, hvernig líst þér á þann leik og þetta er nokkuð stór leikur í baráttunni um Evrópusæti og sérstaklega ef menn stefna á öruggt Evrópsæti, þriðja sætið? ,,Þetta verður mjög spennandi og sennilega líka skemmtilegur leikur fyrir áhorfendur. Þetta eru tvö lið með marga öfluga og góða knattspyrnumenn svo að það er hægt að búast við skemmtilegri rimmu reikna ég með. Það er ljóst að með sigri í honum galopnum við baráttuna um Evrópusætið. Fókusinn okkar verður að nýta okkur þeirra veikleika og jafnframt spila okkar bolta, eins og við erum vanir. Þannig erum við bestir. Okkur vegnar yfirleitt best þegar við einbeitum okkur að okkur sjálfum sem mest og hvernig við bætum okkur leik frá leik.

Biðlar til alls Stjörnufólks að fjölmenna á Hlíðarenda og styðja liðið í komandi orrustu

En Stjörnumenn eru allir upp til hópa stemmdir fyrir úrslitakeppninni og það hlýtur að vera góð tilfinning að hafa þetta í sínum höndum þ.e.a.s. undir ykkur komið hvort þið tryggið ykkur Evrópusæti að ári, ef fjórða sætið dugar? ,,Já, það er auðvitað alltaf best. En okkar fókus liggur alltaf í næsta leik og frammistöðu. Þetta er gömul og góð klisja, en við horfum bara einn leik fram í tímann. Það hefur alltaf reynst okkur best. Mig langar síðan að biðla til alls Stjörnufólks að fjölmenna með okkur á Hlíðarenda og styðja liðið í komandi orrustu,“ segir fyrirliði Stjörnunnar að lokum.
 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar