Tekjutengdur afsláttur af gjöldum fyrir barnafjölskyldur

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti á fundi sínum 20. janúar sl. nýjar reglur um tekjutengingu afsláttar af leikskólagjöldum, gjöldum frístundaheimila og gjöldum til dagforeldra. Reglurnar eru settar til að koma til móts við barnafjölskyldur með lágar tekjur með það að markmiði að bæta kjör fjölskyldna.

Með samþykkt reglnanna geta fjölskyldur með lægri tekjur en 787.200 sótt um 40% afslátt af leikskólagjöldum, gjöldum í frístund og gjöldum til dagforeldra. Afsláttur til forgangshópa/einstæðra foreldra og námsmanna helst óbreyttur til ársloka en verður svo tekjutengdur. Reglurnar hafa engin áhrif á systkinaafslátt sem verður áfram óbreyttur.

Um leið og umsókn um tekjuafslátt verður komin inn á þjónustugátt Garðabæjar verður sett inn tilkynning á vef Garðabæjar og fésbókarsíðu bæjarins með leiðbeiningum um hvernig eigi að sækja um.

40% afsláttur af gjöldum fyrir fyrsta barn

Samkvæmt nýju reglunum um tekjutengdan afslátt fá foreldrar/forráðamenn sem eru undir tekjuviðmiðum 40% afslátt af leikskólagjöldum, gjöldum frístundaheimila og gjöldum til dagforeldra. Tekjuviðmiðin eru miðuð við heildartekjur heimilis þar sem meðaltekjur eru allt að 787.200 kr á mánuði. Miðað er við meðaltekjur samkvæmt staðgreiðsluskrá fyrir síðustu þrjá mánuði þegar umsókn er send inn. Tekjuviðmiðin taka svo breytingum skv. launavísitölu um næstu áramót.

Viðmiðunarfjárhæðin er sú sama og félagsmálaráðuneytið var með vegna sérstakra frístundastyrkja á síðasta ári.

Systkinaafsláttur óbreyttur – 50% og 75%

Systkinaafsláttur verður áfram óbreyttur þar sem allir foreldrar geta sótt um afslátt fyrir systkini af leikskólagjöldum, gjöldum frístundaheimila og gjöldum til dagforeldra. Foreldrar sem eiga tvö eða fleiri börn fá 50% afslátt af grunngjaldi eldra/elsta barnsins og 75% af grunngjaldi fyrir hvert barn umfram tvö.

Foreldrar sem eiga rétt á afslætti skv. tekjutengingu geta því fengið 40% afslátt af gjöldunum fyrir eitt barn, 50% afslátt af barni tvö og 75% afslátt af þriðja barni og fleiri börnum.

Tekjutengdir afslættir frá og með 1. mars – sækja þarf um fyrir 15. febrúar

Rafræn umsókn um tekjutengdan afslátt verður sett inn í þjónustugátt Garðabæjar fyrir lok janúar og sækja þarf um afsláttinn fyrir 15. febrúar vegna gjalda fyrir mars og skal fylgja yfirlit úr staðgreiðsluskrá sem sýnir tekjur fyrir síðustu þrjá mánuði. Hægt verður að sækja um afslátt síðar og ef umsókn berst fyrir 15. dag hvers mánaðar kemur afsláttur til framkvæmdar í næsta mánuði á eftir. Ekki þarf að sækja um mánaðarlega en gert er ráð fyrir að endurnýja þurfi umsókn um tekjutengdan afslátt einu sinni á ári að hausti.

Þeir sem eru nú þegar með afslátt, s.s. einstæðir foreldrar/forgangshópar og námsmenn halda honum áfram út árið en þurfa fyrir 15. október að sækja um áframhaldandi afslátt af gjöldum frá og með 1. janúar 2023 og gilda þá tekjuviðmið sem koma fram í reglunum við ákvörðun afsláttar.

Tekjutengdur afsláttur sem þessi hefur verið settur á hjá fleiri sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, s.s. í Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Reglurnar um tekjutengingu afsláttar hjá Garðabæ verða endurskoðaðar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar