Tekist á um samning við Terru um leigu á einingum fyrir leikskóla

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar í síðustu viku gerði sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs grein fyrir samningi við Terru um leigu á einingum fyrir leikskóla sem staðsettur verður við hlið leikskólans Sunnuhvols á Vífilsstöðum og hefur verið nefndur Mánahvoll.

Eðlilegt að farið sé í útboð

Ingvar Arnarson, fyrir hönd Garðabæjarlistans, telur eðlilegt að farið sé í útboð þegar samningur er gerður um slíka leigu en Ingvar lagði fram eftirfarandi bókun.

„Við í Garðabæjarlistanum teljum eðlilegt að þegar gengið er til samninga um kaup eða leigu á færanlegu húsnæði sé farið í útboð, enda er fjárhæð þessa samnings langt yfir viðmiðunarfjárhæðum sem kveðið er á um í lögum um opinber innkaup. Í ljósi þess getum við ekki samþykkt að Garðabær gangi til samninga um leigu og forkaupsrétt á gámaleikskóla í eigu Terra. Auk þess teljum við óásættanlegt að gengið sé til samninga án útboðs við fyrirtæki sem er að hluta í eigu forseta bæjarstjórnar. Stefna Garðabæjarlistans er að öll meiriháttar innkaup fari í útboð og tryggja þannig gagnsæi og góða nýtingu á skattfé Garðbæinga.“

Leigan er undaskilin gilidissviði laga

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn eru ekki sammála fulltrúum Garðabæjarlistans og og segja farið eftir gildandi lögum, en þeir lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Garðabær leggur ríka áherslu á þjónustu við foreldra með börn á leikskólaaldri. Fjölgun barna í Garðabæ er mikil um þessar mundir og brýnt að börnum sé útveguð leikskólavist við 12 mánaða aldur eins og Garðabær leggur upp með. 

Leiga fasteignar eins og þeirrar sem hér um ræðir er undanskilin gildisviði laga um opinber innkaup nr. 120/2016. Öll tilvísun í viðmiðunarfjárhæðir samkvæmt þeim lögum á ekki við hér.
Varðandi hæfi bæjarfulltrúa vísast til ákvæða sveitarstjórnalaga og samþykktar um stjórn Garðabæjar sem fylgt hefur verið hvívetna í þessu máli eins og öðrum málum sem koma til umfjöllunar og afgreiðslu bæjaryfirvalda“.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar