Sveinbjörn Halldórsson

Garðar Grásteinn – kynning á frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins fyrir prófkjör sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ 5. mars nk.

Hver ert þú og hvaða sæti sækist þú eftir? Ég heiti Sveinbjörn Halldórsson og býð mig fram í 6. sæti.
Ég er 58 ára gamall og giftur Ingibjörgu Ernu Sigurðardóttur, saman eigum við 3 uppkomin börn og 7 barnabörn. Undanfarin 23 ár höfum við fjölskyldan verið búsett í Garðabæ.

Ég er löggiltur fasteignasali og hef starfað við sölu fasteigna í 26 ár. Árið 2016 keypti ég rekstur fasteignasölunnar Garðs, sem ég rek ásamt fjölskyldu minni.

Félagsmálastarf hefur lengi verið eitt af mínum aðal áhugamálum, ég hef verið virkastur hjá útivistarfélögum eins og Ferðaklúbbnum 4×4, þar sem ég hef starfað sem formaður nánast frá árinu 2008. Frá árinu 2009 hef ég verið formaður hjá Samút. Einnig er ég félagi í Oddfellow og gengt þar ýmsum trúnaðarstörfum.

Af hverju býður þú þig fram? Ástæða þess að ég ákvað að bjóða mig fram er sú að ég hef alltaf haft mikinn áhuga á að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og fólkið í kringum mig. Ég hef mikinn metnað og stend við það sem ég segi og vinn verkin mín af krafti. Ég hlusta á aðra og viðurkenni ef ég hef rangt fyrir mér.

Ég veit að ég hef margt gott fram að færa til bæjarins og langar að leggja mitt af mörkum til að tryggja það að Garðabær verði áfram í fremstu röð.

Hverjar eru þínar helstu áherslur? Ég legg áherslu á traustan rekstur, enda er það forsenda þess að hægt sé að veita bæjarbúum góða þjónustu.

Mikil uppbygging er fram undan – því er mikilvægt að hafa skýra sýn á hverjar þarfirnar á húsnæði eru og hvernig hægt sé að þróa hverfin í takt við það.

Ég vil bæta aðbúnað og starfsumhverfi á leikskólum bæjarins. Tryggja greiðar samgöngur sem eru í takt við bæ í uppbyggingu.

Ég vil að öll börn hafi jöfn tækifæri á að stunda tómstundir, hægt er að ýta undir það með því að koma á systkina- og tekjutengdum afsláttum.

Ég vil minnka umferðarhnúta og eftir samræður við íbúa Urriðaholts finnst mér mikilvægt að byggja opna sundlaug þar.

Einnig vil ég einblína á geðheilbrigðismál og stuðla að aðgengilegri sálfræðiþjónustu á öllum skólastigum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar