Sveinbjarnarstígur vígður af forseta Íslands

Þann 21. júní sl. vígði forseti Íslands formlega nýjan útivistarstíg meðfram heimreiðinni að Bessastöðum, að forsetafrú viðstaddri.

Viðburðinn sóttu einnig Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, ásamt bæjarfulltrúum og embættismönnum, auk fulltrúa þeirra sem unnu að hönnun og gerð stígsins, Hornsteina, Loftorku, VSÓ og Verkís. Þá voru félagar úr Skokkhópi Álftaness með í för og tóku þeir stíginn formlega í notkun með því að hlaupa hann fram og til baka ásamt forseta. Stígurinn auðveldar fólki að ganga, hlaupa eða hjóla að Bessastöðum og Bessastaðanesi og eykur öryggi slíkra vegfarenda. Stígurinn hefur fengið nafnið Sveinbjarnarstígur og er kenndur við Sveinbjörn Egilsson, skáldið og þýðandann góðkunna og kennara við Bessastaðaskóla á fyrri hluta nítjándu aldar. Hann bjó að Eyvindarstöðum á Álftanesi og gekk þaðan til Bessastaða svipaða leið og stígurinn liggur nú um og var sá vegur oft illur yfirferðar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar