Nú fögnum við sumri! Á þessum árstíma verðum við áþreifanlega vör við gróandann í kringum okkur og mannlífið tekur á sig bjartari svip.
Það er ómissandi partur af vorinu að fylgjast með börnum og ungmennum í bænum okkar blómstra. Barnamenningarhátíðin setti nýverið svip sinn á bæjarlífið þar sem við fengum m.a. að njóta hugmyndaauðgis og hönnunartakta 4. bekkinga á Hönnunarsafninu ásamt því að 5 ára leikskólabörn settu upp sýningu á bókadrekum á Bókasafninu.
Fegrum bæjarlandið
Nú tökum við öll til hendinni í einkagörðum og í bæjarlandinu. Vorhreinsun lóða fer brátt af stað og að vanda hvetjum við íbúa til að nýta sér þá fjöldamörgu gáma fyrir garðaúrgang sem verða staðsettir inni í hverfunum. Það er áberandi að íbúar vilja hafa snyrtilegt í kringum sig og við vinnum ötullega að því að svo verði. Ég vil sérstaklega hvetja félagasamtök, íþróttafélög og flokka, samstillta nágranna og alla hina til að taka að sér að hreinsa svæði innan bæjarlandsins. Mér finnst skipta máli að við veitum þessum hópum styrki til að efla samtakamáttinn og auðvitað að fegra bæjarlandið. Ekki má gleyma plokkinu en stóri plokkdagurinn er einmitt á sunnudaginn.
Náttúruperlan Heiðmörk
Á þessum árstíma gefst okkur kostur á að njóta þeirra mýmörgu útivistarmöguleika í bæjarlandinu. Heiðmörkin er okkur öllum mikilvæg og aðgengi að henni er einmitt í umræðunni núna. Við þurfum að umgangast vatnsauðlindina okkar af ábyrgð og ég virði sjónarmið Veitna um það. Um leið er það okkur öllum kappsmál að aðgengi að upplandinu sé sem best þannig að hið magnaða stígakerfi og áningarstaðir sem þar eru nýtist sem best. Við höfum verið að bæta tengingar að Heiðmörkinni og finnum að það er vinsælt meðal íbúa. Eins hafa skógræktarfélögin unnið ómetanlegt starf við að opna náttúruna fyrir okkur. Það verður að tryggja að Heiðmörkin verði eins aðgengileg og kostur er.
Flakkið og samtölin
Við höfum á undanförnum misserum lagt áherslu á opin og einlæg samskipti við íbúa. Undanfarið hef ég flakkað með skrifborðið mitt, ekki bókstaflega þó, og hitt íbúa á fjölförnum stöðum í bænum. Mér þykir mjög vænt um öll samtölin sem ég hef átt við íbúa á þessum vettvangi og þann áhuga sem fólk sýnir á málefnum bæjarins. Við vinnum skipulega úr þeim ábendingum sem koma af þessum fundum. Annað mikilvægt atriði er að kanna reglulega hug bæjarbúa til þjónustunnar. Núna erum við að skoða þjónustu við fatlað fólk sérstaklega og eins að kanna viðhorf fjölskyldna til breytinga á umgjörð leikskólamála. Allt er þetta hluti af því að „iðka samfélagið“, ræða saman og gera góðan bæ enn betri.
Þorpið í bænum
Ég hef lagt áherslu á opin samskipti eins og að ofan greinir. Það er ótrúlega dýrmætt að finna að í stækkandi samfélagi sem telur nú rúmlega 20 þúsund manns megi enn finna þorpsbrag. Hann er mikilvægur því hann heldur svo vel utan um hið mannlega, upphefur það smáa í hinu stærra og felur í sér einlæg samskipti. Það eru lífsgæði fyrir okkur öll og er að mínu bati bæjarbragur. Jafnvel þorpsbragur!
Talandi um þorp. Í byrjun maí opnar Jazzþorpið okkar góða á Garðatorgi. Um leið og ég óska ykkur gleðilegs sumars þá hlakka ég til að hitta ykkur þar.
Almar Guðmundsson
bæjarstjóri
Forsíðumynd: Almar og Ómar Guðjóns listrænn stjórnandi Jazzþorsins léttir í lundu.