Skipulagsstjóri Garðabæjar gerir ekki athugasemd við byggingarleyfisumsókn Oddfellowreglunnar og hefur því gefið grænt ljós á byggingarleyfi fyrir nýtt 3000 m2 regluheimili að Vinastræti 28 í Urriðaholti í Garðabæ að undangengnu samþykki bæjarstjórnar.
Það ætti því vera lítið til fyrirstöðu að Oddfellowreglan fáið að hefja framkvæmdir efst á holtinu í Urriðaholti, en nýtt regluheimili verður ákveðið kennileiti fyrir Urriðaholtið.
Þróunarsjóður Oddfellowreglunnar í samstarfi við Arkitektafélag Íslands efndu til samkeppni um nýtt 3000 m2 regluheimili í Urriðaholti, Garðabæ, í febrúar 2023 og það voru KRADS, TRÍPÓLÍ og Urbanlab nordic sem urðu hlutskörpust í samkeppninni.
Áhersla var lögð á raunhæfa og spennandi tillögu í samkeppninni sem mundi sóma sér vel í umhverfinu og er ætlað að verða ákveðið kennileiti á háholtinu. Gerð var krafa um að umhverfissjónarmið, sjálfbærni og að vistvæn hönnun yrði höfð að leiðarljósi við hönnun og efnisval.
Um vinningstillöguna segir m.a. ,,Tillagan sýnir vandaða og hlýlega byggingu sem fangar vel hugmyndina um regluheimili. Aðlögun að umhverfi og staðaranda er góð og heildarútkoman fáguð og góð byggingarlist. Greinargerð gefur til kynna góða þekkingu á meginatriðum sjálfbærni og hvernig vinna megi útfrá þeim forsendum við útfærslu byggingarinnar.“
Megin inntakið í Oddfellowreglunni er mannrækt og kjörorð Reglunnar eru; Vinátta, Kærleikur og Sannleikur
Garðapósturinn heyrði hljóðið í Guðmundur Eiríksson Stórsír Oddfellowreglunnar á þessum tímamótum og byrjaði að spyrja hann fyrir hvað reglan standi. ,,Oddfellowreglan á Íslandi hefur starfað frá 1897 og tekið þátt í mörgum stórum verkefnum fyrir samfélagið. Má þar, svo fátt eitt sér nefnt, Holdsveikraspítalann í Laugarnesi sem var fyrsta verkefnið og síðar aðkoma að stofnun Vífilsstaðarspítala. Í seinni tíð sem okkar kynslóð þekkir betur til má nefna uppbyggingu á Líknardeildinni í Kópavogi, endurbætur á húsnæði Ljóssins við Langholtsveg, endurbætur á húsnæði í Hlaðgerðarkoti í Mosfellsbæ, stuðning við Píetasamtökin og standsetningu á húsnæði í St. Jósepsspítala fyrir Alzeimers- og Parkinsonsamtökin,“ segir hann og heldur áfram: ,,Oddfellowreglan eru félagasamtök þar sem félagar eru af báðum kynjum og mynda stúkur sem eru í annars vegar karlar (bræður) og hins vegar konur (systur). Félagsskapurinn hefur haft sínar aðalstöðvar frá 1932 við Vonarstræti í Reykjavík. Síðan eru Regluheimili um allt land og hafa félagar í Reglunni aldrei verið fleiri en um þessar mundir. Megin inntakið í Oddfellowreglunni er mannrækt og kjörorð Reglunnar eru; Vinátta, Kærleikur og Sannleikur. Öflugur sjóður hefur einmitt myndast vegna uppbyggingarinnar í Urriðaholti og má vænta öflugs stuðnings í framtíðinni frá Oddfelloweglunni sem sækir styrk sinn til þessarar uppbyggingarinnar.“
Reglan fékk jörðina Urriðakot að gjöf árið 1957
,,Árið 1957 gáfu 61 bróðir jörðina Urriðakot, eins og hún hét áður fyrr, til Reglunnar. Höfðu þeir þá átt jörðina í nokkur ár og voru ýmis áform uppi hjá þeim, m.a. um sumarhúsabyggð en þetta var á þeim tíma nokkuð langt út úr bænum eins og þá þótti. Ekki varð af þessu né öðrum framkvæmdum þá, en gjöfin þeirra varð síðan grundvöllurinn að þeirri uppbyggingu sem við þekkjum í dag. Þar er golfvöllurinn, og útivistarsvæðið umhverfis hann sem nú hefur verið friðað að hluta. Svo auðvitað sjálft Urriðaholtið sem nú sér fyrir endann á uppbyggingu á. Áform um byggingu regluheimilis hefur alltaf verið hluti af áformum um uppbyggingu á Háholtinu og nú er það að raungerast,“ segir Guðmundur.
Kostnaðurinn 2,5 milljarður
Guðmundur segir að byggingaleyfi fyrir bygginguna sem verður um 3000 m2 og hefur hún nú verið samþykkt hjá skipulagsfulltrúa en á eftir að fá endanlega afgreiðslu hjá bæjaryfirvöldum. ,,Ef allt gengur eftir er áætlað að jarðvinna geti hafist á þessu ári og uppsteypa hússins með vorinu. Kostnaður við bygginu hússins er um 2.5 miljarður og má áætla að það verði flutt inn í hluta hússins innan 3ja ára.
Ekki liggur endanlega fyrir hvaða stúkur Oddfellowreglunnar muni flytja í Urriðaholtið en það skýrist í vetur. Það er gert ráð fyrir að stúkur úr Hafnarfirði og einhverjar úr Reykjavík flytji í húsið og um leið skapast rými fyrir nýjar stúkur en húsnæðiskostur á Höfuborgarsvæðinu hefur hamlað fjölgun þeirra að undanförnu. Ekki verður allt húsið tekið í notkun til að byrja með af Oddfellowreglunni en gert er ráð fyrir að leigja hluta þess út fyrstu árin. Í húsinu verða góðir samkomusalir og er til skoðunar að leigja út til viðburða og gætu þeir þá nýst vel af nærumhverfinu í Urriðaholti,“ segir Guðmundur að lokum.