Styrkjum úthlutað að upphæð 4,5 milljónir kr.

Nýverið var styrkjum úthlutað úr Þróunarsjóði leikskóla í Garðabæ fyrir skólaárið 2022-2023. Í ár voru veittir styrkir til sex verkefna úr Þróunarsjóði leikskóla í Garðabæ alls að upphæð 4,5 milljónir kr. 

Verkefni sem hlutu styrk úr sjóðnum voru

  • Verkefni leikskólans Lundabóls: Raddir barna – Lýðræðisleg vinnubrögð í leikskólastarfi
  • Verkefni leikskólans Lundabóls: Könnunaraðferð -project approach- áhugi barna sem leiðarljós í leikskólastarfinu 
  • Verkefni leikskólans Hæðarbóls: Regnbogaskjóður – málörvun með sögum, söngvum og leik
  • Samstarfsfverkefni allra leikskóla í Garðabæ: Barnvænt samfélag. Innleiðing ákvæða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna – unnið í samstarfi við Rannung
  • Verkefni leikskóladeildar 4 og 5 ára barna í Flataskóla: Stofufundir, lýðræði og lausnaleit í leikskólanum
  • Samstarfsverkefni Hæðarbóls og Lundabóls: Mat á námi og vellíðan barna 4-6 ára í Garðabæ – framhaldsverkefni – unnið í samstarfi við Háskóla Íslands

Áhersluþættir í ár voru eftirfarandi: Áhrif barna á mótun leikskólastarfs, samræður með börnum og val barna á verkefnum og efnivið. Einnig var hægt að sækja um styrki til verkefna sem studdu við skólanámskrá, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, Heilsueflandi samfélag og sérstöðu hvers skóla. Við úthlutun styrkjanna var m.a. horft til tengingar við fræðasamfélagið og samstarfs milli skóla og skólastiga.

Framþróun og öflugt innra starf 

Markmið þróunarsjóða leik- og grunnskóla í Garðabæ er að stuðla að framþróun og öflugu innra starfi skóla í Garðabæ. Einstaka kennarar, kennarahópar og aðrir fagaðilar sem starfa við grunnskóla í Garðabæ, einn skóli eða fleiri skólar/fagaðilar í sameiningu sem og fræðslu- og menningarsvið bæjarins í samstarfi við skóla geta sótt um styrk í þróunarsjóðina. Úthlutun úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla er einu sinni á ári og fjölbreytt verkefni hafa fengið styrki úr sjóðunum á liðnum árum eða allt frá árinu 2017 þegar sjóðirnir voru stofnaðir.

Þróunarsjóðsverkefni á vef Garðabæjar

Á síðum þróunarsjóðsverkefna leik- og grunnskóla í Garðabæ á vef Garðabæjar, gardabaer.is  er hægt að sjá upplýsingar um verkefnin sem hafa hlotið styrk með aðgengilegri hætti en áður. Lokaskýrslur þróunarverkefna eru birtar á nýjum undirsíðum þar sem verkefnin eru flokkuð eftir skólastigum: leikskólastig, yngsta stig grunnskóla, miðstig grunnskóla og unglingastig grunnskóla. Á hverju skólastigi er textaleit úr stuttri lýsingu um verkefnin, þar er hægt að setja inn heiti skóla o.fl. og einnig eru þar fellivalsgluggar þar sem hægt er að velja áhersluþætti og námsgreinar sem tengjast verkefnunum.
Áfram verður unnið að því að þróa þessa birtingu þróunarsjóðsverkefna á vef Garðabæjar og fleiri verkefni sett inn á síðurnar.

Mynd: Frá vinstri: Eiríkur Björn Björgvinsson forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs, Björg Helga Geirsdóttir leikskólastjóri Lundabóls, Jóna Rósa Stefánsdóttir leikskólastjóri Hæðarbóls, Ágúst Frímann Jakobsson skólastjóri Flataskóla, Halldóra Pétursdóttir leikskólafulltrúi og Kristjana F. Sigursteinsdóttir þáverandi formaður leikskólanefndar Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar