Styðja við ungt skapandi fólk

Skapandi sumarstörf starfræk yfir sumartímann í Garðabæ

Skapandi sumarstörf hafa verið starfræk yfir sumartímann í Garðabæ til fjölda ára og í sumar verður engin undantekning á því. Markmið skapandi sumarstarfa er er að styðja við ungt skapandi fólk og veita því tækifæri til að vinna á markvissan hátt að verkefnum sínum með aðstoð leiðbeinenda sem geta verið þeim innan handar. Þetta sumarið verða ellefu fjölbreytt og spennandi verkefni unnin af ungu og hæfileikaríku listafólki frá Garðabæ. Verkefnin munu reyna að setja mark sitt á bæinn en þau spanna vítt svið skapandi greina svo sem hljóð innsetningar, leiklist, ljósmyndun og margmiðlun, hönnun, myndlist og myndasögugerð.

Hvert verkefni mun standa fyrir viðburðum í sumar sem settir verða upp í Garðabæ þar sem þau munu kynna skapandi afurðir sínar fyrir bæjarbúum. Búast má við að bæjarbúar geti rambað á hljóðið eða séð skemmtilegan gjörning í bænum í sumar.

Söngleikurinn Pálmar

Söngleikurinn Pálmar er eitt af þeim verkefnum sem unnið verður á vegum Skapandi sumarstarfa en hann er unninn af þeim Guðrúnu Ágústu Gunnarsdóttur og Tinnu Margréti Hrafnkelsdóttur. Söngleikurinn er um Pálmar Ólason, afa Tinnu, en hann átti áhrifaríkan tónlistarferil sem hafði mikil áhrif á íslenskt menningarlíf. Stelpurnar segjast munu semja handrit, tónlist byggða á dægurlögum Pálmars, leikstýra og setja upp söngleikinn. “Söngleikurinn á að vera sannkölluð upplifun, settur upp á skemmtilegan og lífgandi máta, fyrir alla aldurshópa. Við mælum með að þú kíkir á Söngleikinn Pálmar ef að þú vilt læra og skemmta þér á sama tíma” segja stelpurnar.

Táknmyndir Garðabæjar

Eitt af myndlistarverkum sumarsins er unnið af Agnesi Birnu Ólafsdóttur. Hún segist ætla að draga fram sérkenni og persónuleika Garðabæjar í myndlist með samspil nærumhverfisins við alþjóðasamfélagið sem undirtón. “Ég ætla að leita að táknmyndum fyrir Garðabæ, nokkurs konar póstkortum, sem ég mun mála og endurspegla hvaða augum við sjálf og utanaðkomandi aðilar lítum á bæinn okkar sem hluta af sjálfbærum heimi” segir Agnes.

Vinnu Skapandi sumarstarfa lýkur svo með lokasýningu fimmtudaginn 15. júlí frá 17-20 á Garðatorgi 7 þar sem bæjarbúum og öðrum gefst kostur á að sjá afrakstur sumarsins.

Hægt er að fylgjast með starfinu á síðunni – facebook.com/skapandigbr

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar