Stöndum vörð um frelsið til að kjósa

Það hefur verið reglulega ánægjulegt að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ undanfarnar vikur og finna vináttu og stuðning fólks sem skuldar mér ekki neitt en leggur sig samt fram um að lyfta framboðinu upp. Fyrir það er ég afar þakklátur. Það að treysta fólkinu fyrir valinu á listann er góð og rétt leið. Lýðræðinu lútum við öll. Verkefni kjósenda verður að stilla upp sigurliði fyrir kosningarnar í vor og þegar ég lít yfir hóp sautján frambjóðenda í prófkjörinu þá er nánast alveg sama hvernig þessu er raðað. Sigurlið verður niðurstaðan.

Ég hef sett ýmis málefni á oddinn og framleitt myndbönd sem eru aðgengileg á Facebook undir mínu nafni á slóðinni www.facebook.com/gudfinnur.sigurvinsson4. Þar rek ég mínar hugmyndir og áherslur eins og eflingu verslunar og þjónustu í bænum, nýtt hlutverk Vífilsstaða sem miðstöð menningar og lista, Arnarnesvoginn sem paradís fyrir sjósportsunnendur auk sígildra stefa úr stefnu okkar sjálfstæðismanna í bæjarstjórn, eins og skilvirka og öfluga þjónustu á öllum sviðum og lágar álögur.

Á laugardaginn kemur mun nokkuð merkilegt eiga sér stað. Við kjósum. Svo höldum við saman sem einn maður til sveitastjórnarkosninganna í vor þar sem landið allt tekur þátt. Nú þegar ljótt höfuð harðstjórnar og kúgunar hefur skotið upp kollinum í okkar heimsálfu erum við rækilega á það minnt hversu dýrmætt andsvar frjálsar lýðræðislegar kosningar eru í þessari baráttu. Við höfum svo lengi búið við frið, velsæld og velferð að kosningarétturinn hefur orðið of sjálfsagður. Tómlæti gagnvart því að fólkið eigi lokaorðið hefur myndast og því miður hefur eitruð stjórnmálamenning fengið að skjóta rótum sem fælir fólk frá framboði. Nú er svo komið að við höfum ekki lengur efni á að leyfa okkur slíkan hugsunarhátt. Við verðum öll sem eitt, hvar í flokki sem við stöndum, að þétta raðirnar og standa vörð um grundvallargildin sem eru okkur öllum svo kær. Sjálfstæði, frelsi í öllum litum regnbogans, mannréttindi og velferð. Með okkar þátttöku mun hjartsláttur lýðræðisins ekki stöðvast.

Við skulum því öll sem eitt kjósa í öllum þeim kosningum sem framundan eru og draga alla sem vettlingi geta valdið á kjörstað. Því dúndrandi kjörsókn verður stórsigur lýðræðisins og gildir þá einu hver niðurstaðan verður fyrir einstaka frambjóðendur eða flokka. Lýðræðið skal hafa sigurinn allan.

Guðfinnur Sigurvinsson.

Höfundur er varabæjarfulltrúi og óskar eftir 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar