Stoltur af því að vera hluti af því frábæra íþróttasamfélagi sem Garðabær er – segir Ægir Þór Steinarsson Íþróttakarl Garðabæjar 2024

Ægir Þór Steinarsson, körfuknattleiksmaður Stjörnunnar var valinn íþróttakarl Garðabæjar fyrir árið 2024 á íþróttahátíð Garðabæjar, sem haldin var í Miðgarði 12. janúar sl.

Ægir Þór er fyrirliði meistaraflokksliðs Stjörnunnar sem er í toppbaráttu Bónusdeildarinnar í körfubolta karla. Ægir er að spila sitt fimmta tímabil fyrir Stjörnuna, hann lék hér á árunum 2019-2021 og aftur frá 2023-2025 en í millitíðinni fór hann í atvinnumennsku til Spánar. Það sem af er tímabili er Ægir stoðsendingahæstur af öllum í deildinni, í þriðja sæti yfir stolna bolta ásamt því að vera með tæp 17 stig í leik. Af heildarframlagi leikmanna í deildinni er Ægir í sjötta sæti, langhæstur Íslendinga. Framlag Ægis er þó langt í frá að vera mælt eingöngu í tölfræði enda algjör drifkraftur í leikjum Stjörnunnar á báðum endum vallarins sem drífur bæði liðið og áhorfendur með sér. Ægir Þór er landsliðsfyrirliði. Árangur landsliðsins undir forystu Ægis hefur verið frábær þar sem sigur á Ungverjum og frækinn útisigur á Ítalíu standa upp úr. Íslenska landsliðið er sem stendur í frábærri stöðu til að tryggja sig inn á lokakeppni Evrópumótsins næsta sumar. Ægir Þór er einnig þjálfari hjá Stjörnunni.

Það er sjálfsagt ánægjulegt að vera valinn Íþróttakarl Garðabæjar? ,,Já, þetta er gríðarlegur heiður. Ég er þakklátur fyrir viðurkenninguna og stoltur af því að vera hluti af því frábæra íþróttasamfélagi sem Garðabær er. Þetta er ekki bara persónuleg viðurkenning heldur líka viðurkenning fyrir allt liðið og stuðningsfólkið í kringum mig,“ segir Ægir Þór.

Hvernig mundir þú meta árið 2024 hjá þér persónulega, er þetta eitt þitt besta árið í körfunni? ,,Ég hef verið heppinn með heilsuna, fengið að spila með frábæru liði og upplifað einstaka leiki með landsliðinu. Það hefur margt smollið saman.“

Vitum að við eigum meira inni

Nú hefur Stjarnan verið að leika einstaklega vel sem af er tímabilinu, liðið er á toppnum þegar deildin er rúmlega hálfnuð. Ertu ánægður með spilamennsku liðsins fram að þessu, eigið þið meira inni sem lið? ,,Við höfum klárlega staðið okkur vel fram að þessu og ég er mjög ánægður með spilamennskuna. En við vitum að við eigum meira inni. Það er spennandi að sjá hvernig við þróumst og byggjum ofan á það sem við höfum gert hingað til,“ segir Ægir Þór, en þess má geta að Stjarnan tryggði sér sæti í undaúrslitum VÍS bikarsins í gærkvöldi með sigri á nágrönnum sínum Álftanesi, í Forsetahöllinni á Álftanesi.

Fóru í sjálfsskoðun eftir síðasta tímabil og lögðu áherslu á liðsheild

Stjarnan komst í fyrsta skipti í mörg ár ekki í úrslitakeppnina í fyrra, þetta er því töluverð breyting á milli ára hvað varðar gengi liðsins. Hvað veldur og hvað hefur breyst? ,,Við gerðum mikla sjálfsskoðun eftir síðasta tímabil og lögðum áherslu á liðsheild. Það eru smá breytingar í hópnum og menn hafa einfaldlega stígið upp. Við höfum unnið markvisst að því að ná þessum árangri og það sést í stöðugleikanum okkar.“

Trúum því að við séum með lið til að fara alla leið

Og eins og staðan er í dag, gæti þetta verið ár Stjörnunnar? Eru þið með mannskap og liðsheild til að fara alla leið á Íslandsmótinu? ,,Já, við trúum því að við séum með lið til að fara alla leið. Það er auðvitað langt í land, en við höfum trú á verkefninu okkar og vinnum hörðum höndum að því að gera þetta að okkar ári.

Erum ekki háðir einum eða tveimur leikmönnum

Hver er fyrst og fremst styrkur Stjörnuliðsins í ár? ,,Liðsheildin. Allir í liðinu vita sitt hlutverk og við styðjum hver annan. Það skiptir líka miklu máli hvað við höfum mikla breidd; við erum ekki háðir einum eða tveimur leikmönnum. Það gerir okkur erfiða viðureignar.“

Snýst fyrst og fremst um að vinna stöðugt í sjálfum sér

Þú hefur verið að leika frábærlega sem af er tímabili. En hvernig heldur Ægir Þór sér við, þú verður 34 ára á árinu og það virðist vera sami sprengikraftur, hraði og áræðni í þér og þegar þú varst í kringum tvítugt – er þetta í genunum eða æfingin og reynslan? ,,Það er blanda af öllu. Ég legg mikla áherslu á að halda líkamanum í toppstandi með góðum æfingum og næringu. Reynsla hjálpar líka gríðarlega, maður þarf ekki að eyða jafn mikilli orku í hvert einasta skref. Kannski eru genin eitthvað að hjálpa líka, en þetta snýst fyrst og fremst um að vinna stöðugt í sjálfum sér.“

Sigurinn á Ítalíu var ótrúleg upplifun

Þetta hlýtur að vera skemmtilegt tímabil; ásamt því að vera á toppnum með Stjörnunni hefur þú leikið stórt hlutverk með íslenska landsliðinu. Hvernig var að taka þátt í útisigrinum á Ítalíu og hvað metur þú möguleika ykkar að komast á lokamót EM? ,,Sigurinn á Ítalíu var ótrúleg upplifun. Að vinna á móti stórliði á þeirra heimavelli er eitthvað sem maður gleymir aldrei. Ég held að við eigum mjög góða möguleika á að komast á lokamótið, en það krefst þess að við höldum einbeitingu og spilum okkar besta leik í hverri viðureign.“

Hraðinn og ákefðin vinnur gegn hæðinni

Þú ert 1.83 sm á hæð. Hvernig var það á þínum yngri árum, lá alltaf beinast við að þú værir í körfunni eða stundaðir þú aðrar íþróttir? ,,Ég prófaði ýmsar íþróttir þegar ég var yngri, en körfuboltinn náði fljótt tökum á mér. Það var eitthvað við hraðann og taktíkina sem heillaði mig. Þótt ég sé ekki hár miðað við körfuboltamenn, þá hefur hraðinn og ákefðin hjálpað mér mikið.

Elskaði fótbolta en varð ástfanginn af körfubolta

Ef þú hefðir ekki valið körfuna, hvar værir þú þá í dag? ,,Ef ekki körfubolti, þá hefði ég líklega valið fótbolta. Ég elskaði fótbolta þegar ég var yngri og lék hann mikið. En ég varð ástfanginn af körfubolta.“

Hvað gerir Ægir Þór dags daglega þegar hann er ekki í körfubolta? ,,Ég eyði miklum tíma með fjölskyldunni og vinum. Það er mikilvægt fyrir mig að eiga góðar stundir utan vallarins.“

Góður stuðningur bætir orku og stemmninguna

Er Stjarnan í betri stöðu en oft áður til að vinna titil eða titla á þessu tímabili? ,,Já, ég held það. Við erum með sterkt lið, frábæra breidd og góðan stuðning frá okkar fólki. Það skiptir miklu máli að fá stuðningsmennina á leiki; það bætir orku og stemningu. Við erum tilbúnir að berjast fyrir titlinum,“ segir Ægir Þór Steinarsson íþróttakarl Garðabæjar að lokum.

Mynd: Ægir Þór ásamt Almari Guðmundssyni bæjarstjór í Garðabæ og Hrannari Braga Eyjólfssyni, formanni íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar