Stjarnan mætir nýliðunum í Keflavík í Pepsí-Max deild kvenna í kvöld kl. 19:15 á Samsungvellinum. Stjarnan tapaði fyrir Val í fyrstu umferð deildarinnar, 2-1, en leikurinn var nokkuð vel leikinn af hálfu Stjörnunnar og úrslitin alls ekki sanngjörn. Stjarnan kom mörgum á óvart með góðum leik og fróðlegt verður að sjá hvernig Stjörnustúlkur fylgja þeim leik eftir, en kröfurnar fyrir leikinn í kvöld, kannski ólíkt Valsleiknum, er sigur á heimavelli á móti nýliðunum.
Áttum að fá stig út frá tölfræðinni í leiknum
Eins og segir að þá var það samdóma álit flestra að þrátt fyrir ósigurinn á móti Val að þá hefði Stjarnan leikið vel í leiknum og jafnvel verið sterkara liðið. Garðapósturinn spurði Kristján Guðmundsson þjálfara Stjörnunnar hvort hann hafi verið sammála því og varstu ánægður með leikinn og uppleggið? ,,Við erum sátt með leikinn. Tölfræðin segir að við áttum að fá stig úr viðureigninni og það var einmitt okkar tilfinning strax eftir leik. Flest sem að við lögðum upp með gekk upp, mikill ákafi í leikmönnum og áræðni ásamt trú á verkefninu. Það sást vel að við vorum heildsteyptari liðsheild,“ segir Kristján.
Kemur inn með orku og forystuhæfileika
Og þið bættuð í hópinn í vikunni með því að fá reynsluboltann Katrínu Ásbjörns í Stjörnuna, að nýju – hvernig kom það til? ,,Við höfum verið a svipast um um eftir ákveðnum týpum af leikmönnum til þess að bæta við hópinn og styrkja reynsluminni leikmenn. Katrín passar vel inn í þá mynd fyrst og fremst sem frábær persóna en kemur með orku og forystuhæfileika inn í hópinn og liðið.“
Þurfum að leggja á okkur sömu vinnu
Svo þarf eðlilega að fylgja þessum fína leik eftir á móti Vali og næsti mótherji eru nýliðarnir úr Kelfavík. Hvernig líst þér á þann leik, erfiður leikur og mikilvægur? ,,Mikilvægast er að við leggjum á okkur sömu vinnu og í leiknum í seinustu viku. Aðaláherslan í undirbúningnum þessa vikuna hefur verið á okkar eigið lið og þá nálgun em við ætlum að hafa á leikinn. Það skal takast að ná upp sömu stemningu, sömu einbeitingu og svipaðri frammistöðu og fyrsta leiknum og að slíkt fylgi okkur allt mótið.“
Allir leikmenn í góðu ástandi
Eru allir heilir eftir síðasta leik og geturðu stillt upp þínu sterkasta liði eða vantar einhverja leikmenn, kemur Katrín inn í hópinn? ,,Allir leikmenn sem spiluðu fyrsta leik eru í góðu ástandi og staðráðnar í að standa sig á heimavelli gegn Keflavík. Við bætum við tveimur leikmönnum í leikmannahópinn fyrir þennan leik og Katrín er önnur þeirra,“ segir Kristján