Stjörnuhlaupið fer fram 20. maí nk. og boðið verður upp á utanvegahlaup

Stjörnuhlaupið fer fram laugardaginn 20. maí nk. og í ár verður leitað aftur til upprunans og boðið upp á utanvegahlaup í fallegu umhverfi í landi Vífilsstaða og Heiðmerkur, en fyrstu Stjörnuhlaupin voru utanvegahlaup á sama stað.

Boðið verður upp á tvær vegalengdir, annars vegar 11 km hringur og hins vegar 22 km (tveir hringir).
Það er hlaupahópur Stjörnunnar sem hefur umsjón með hlaupinu eins og undanfarin ár og Garðapósturinn heyrði í Brynjúlfi Halldórssyni eins af forsvarsmönnum hlaupsins.

Hvernig kom það til að þið ákváðu að breyta til og gera Stjörnuhlaupið aftur að utanvegahlaupi? ,,Ef ég horfi til baka þá var fyrsta Stjörnuhlaupið 2011 og það var utanvega um Heiðmörk. Síðar eða árið 2015 var ákveðið að snúa þessu yfir í götuhlaup sem ræst var frá Garðatorgi. Síðastliðin tvö ár hefur Stjörnuhlaupið farið fram á stígum um hverfi bæjarins og ræst frá Miðgarði. Nú blasir við að mikill áhugi er fyrir utanvegaæfingum og utanvegakeppnishlaupum. Eftir ákveðna umhugsun var ákveðið að ræsa nýtt utanvega Stjörnuhlaup í ár og nýta ótrúlega möguleika sem við höfum hér í náttúrunni við bæjardyrnar frá Miðgarði,” segir Brynjúlfur.

Brynjúlfur í Puffinn hlaupinu í Vestmannaeyjum á dögunum

Gleðihringurinn hlaupinn

Og þið eruð að bjóða upp á mjög skemmtilega hlaupaleið um land Vífils- staða og í Heiðmörkinni? ,,Já, ég kalla þessa hlaupaleið Gleðihringinn. Þetta er falleg leið og heilmikið landslag. Hlaupaleiðin liggur í landi Vífilsstaða og Heiðmörk og um útivistarskóga í Smalaholti og Sandahlíð. Leiðin liggur frá Miðgarði í austur að Smalaholti og upp í Sandahlíðina fyrir ofan hesthúsin. Þegar komið er upp á mela Sandahlíðar er útsýnið fagurt og Bláfjöllin blasa við. Þaðan liggur leiðin síðan að Skátaheimilinu í Garðabæ og áfram er haldið í vesturátt að Vífilsstaðavatni eftir nýjum malarstíg sem tengist við malarstíginn í botni Vífilsstaðavatns. Hlaupið er meðfram Vífilsstaðavatninu í átt að Vífilsstöðum og þaðan niður í Miðgarð þar sem endamarkið er. Þetta er 11 km hlaupahringur sem liggur um dásamlega vel útfærða stíga í náttúruparadís okkar Garðbæinga.”

Hlaupaleiðin aðgengileg fyrir öll getustig

Er þessi leið krefjandi fyrir hlaupara og þá kannski helst nýliða? ,,Þessi hlaupaleið er örugg og aðgengileg fyrir öll getustig. Hún er vissulega ögn á fótinn framan af og ólíkt götuhlaupum er Gleðileiðin með nokkrar brekkur og mismunandi undirlag. Hlaupaleiðin er í hækkunarferli fyrstu 5 km með hæsta punkt í 150 metra hæð frá Miðgarði. Hæsti punkturinn er í hlíðinni ofan við nýja Skátaheimilið. Samanlögð hækkun brautarinnar er um 200 metrar sem er vel viðráðanleg. Leiðin kann að vera krefjandi fyrstu 5 km þegar farið er um hlíðarnar og holtin en svo eftir það er öll leiðin niðurá við heim í Miðgarð. Þessi lækkun á seinnihluta leiðarinnar mun gleðja og kalla fram bros hjá öllum þátttakendum.”

Og það geta allir verið með í Stjörnuhlaupinu? ,,Það eru allir velkomnir og ég hvet sérstaklega Garðbæinga til að taka þátt sem og aðra auðvitað líka. Einn hringur er 11 km og tveir hringir gera þá 22 km. Tímamörk eru þrjár og hálf klukku- stund en þá verður tímatöku hætt og allir komnir í mark.”

En þarf einhvern sérstakan búnað til að taka þátt í utanvegahlaupi Stjörnunnar? ,,Undirlag brautarinnar er ekki mjög torfært heldur mest þjappaðir moldarstígar eins og eru víðast hvar í Heiðmörk, um mjúkan hestastíg að hluta en annars á nýjum malarstígum. Æskilegt er að reima á sig utanvegaskó og taka mið af veðri hvað snertir val á fatnaði. Mjög góð aðstaða er í Miðgarði býðst hlaupurum fyrir og eftir hlaup. Einnig geta áhorfendur og keppendur látið fara vel um sig þar og eins á marksvæðinu.”

Gleðin verður við völd

Þannig að það ætti að verða góða stemmning í hlaupinu og hver að hlaupa á sínum forsendum að hafa gaman og njóta? ,,Já, gleðin verður við völd og enginn svikinn af því að taka þátt í þessu nýja utanvegahlaupi. Það verður fjör í startinu við Miðgarð, hressandi tónlist og upphitun fyrir hlaup. Eftir hlaup verða veitingar í boði fyrir alla hlaupara og verðlaunaafhending. Veitt verða verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í kvenna- og karlaflokki í báðum vegalengdum. Ég hlakka til að sjá sem flesta og njóta paradísarinnar í Heiðmörk með okkur,” segir Brynjúlfur að lokum.

Þátttökugjald í hlaupið er 4.500 kr. til og með 19. maí, en það hækkar um 1.000 kr. á hlaupadegi. Skráning fer fram á hlaup.is

Afhending hlaupagagna verður í Miðgarði föstudaginn 19. maí frá kl. 16:00 til 18:00 og á hlaupadag laugardaginn 20. maí frá kl. 8:30 – 9:00. Hlaupið hefst svo stundvíslega klukkan 10:00.

Forsíðumynd. Hlaupaleiðin í Stjörnuhlaupinu 20. maí nk. um Heiðimörk

Frá Stjörnuhlaupinu 2013, en þá var hlaupið um Heiðmörkina. Á myndinni má m.a. sjá Sigurð Guðmundsson núverandi formann Stjörnunnar, lengst til hægri.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar