Holtakot fagnaði 15 ára afmæli í lok apríl
Sat inn í stofu heima hjá sér og pantaði inn búnað og mótaði hugmyndafræði leikskólans
Miðvikudaginn 28. apríl 2021 eru komin heil 15 ár síðan að Heilsuleikskólinn Holtakot opnaði, heil 15 ár síðan að Ragnhildur leikskólastjóri sat heima hjá sér í stofu og pantaði inn búnað og mótaði hugmyndafræði leikskólans.
Fylgir ekki endilega ákveðnum stefnum og straumum
Frá upphafi hefur hún haft það að leiðarljósi að stjórna leikskólanum frá hjartanu en ekki endilega eftir einhverjum ákveðnum stefnum og straumum og finna taktinn í umhverfinu áður en hún tók loka ákvörðun um hvaða hugmyndafræði yrði fyrir valinu.
Uppeldi til ábyrgðar
Á þessum 15 árum hefur margt gerst og skólinn þróast og þroskast mikið. Upphaflegar stefnur leikskólans voru, og eru enn í dag Uppeldi til ábyrgðar og Grænfáni Landverndar, sem við höfum flaggað 5 sinnum fyrir mismunandi verkefni tengdum umhverfis og náttúruvernd. Í byrjun árs 2011 var ákveðið að stíga skref í átt að því að vinna eftir stefnu Heilsuskóla og aðeins þremur mánuðum síðar eða þann 25. apríl 2011 náðum við því markmiði. Síðast en ekki síst er að segja frá Leikur að læra sem við bættum við í febrúar 2017.
Að auki höfum við tekist á við og tekið þátt í hinum ýmsu verkefnum sem hafa svo fest í veggjum skólans og orðið hluti af daglegu starfi, eins og t.d. sundkennsla elstu barnanna okkar, ferðir í íþróttahús Álftaness og Ásgarð, klifurveggurinn okkar góði, útikennsla og svo mætti lengi telja.
Gleðin í fyrirrúmi á afmælisdegi
Í venjulegu árferði hefðum við haft opið hús og boðið gestum og gangandi til veislu á þessum merka degi, en þess í stað gerðu börn og starfsfólk sér glaðan dag í tilefni dagsins og héldu upp á afmælið með gleðina í fyrirrúmi.
Salurinn í leikskólanum var settur í afmælisbúning, gluggarnir málaðir bæði af börnum og starfsfólki með blómum og blöðrum ásamt afmælisfána. Deildarnar voru skreyttar að einhverju leiti og börnin föndruðu eldfjalla kórónur sem þau báru á höfðinu um morguninn þegar allir hittust í vinastund til að syngja afmælissönginn ásamt fleiri skemmtilegum lögum og fylgjast með því þegar eldhúskonurnar okkar breyttu hólnum í bakgarðinum í eldfjall. Starfsfólkið var með kjóladag og mættu í kjól með varalit en börnin fengu að hafa búningadag og í nónhressingu seinni partinn fengu allir afmælisköku með gulu kremi. Að vinastundinni lokinni um morguninn var haldið ball í salnum fyrir eldri deildarnar, en áður en yngri börnin fóru aftur inn á deild færði starfsfólkið Ragnhildi leikskólastjóra afmælis- og þakklætisgjöf í tilefni dagsins, því að þetta er líka hennar dagur þar sem að hún hefur verið á Holtakoti alveg frá upphafi og leikskólinn væri ekki á þeim stað sem hann er í dag nema fyrir hana.
Starfsfólk Heilsuleikskólans Holtakots