Stjarnan sigraði með miklum yfirburðum

Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram í Fimleikahúsi Akraness í gær. Stjarnan sigraði mótið með yfirburðum bæði í kvenna- og karlaflokki og urðu bæði lið Íslandsmeistarar á öllum áhöldum.

Framumferð með tvöföldu heljarstökki og tveimur og hálfri skrúfu

Á mótið mætti allt okkar besta hópfimleikafólk og sýnd voru frábær tilþrif en þar vegur hve hæðst frábær útfærsla Stjörnumannsins Helga Laxdal á dýnu, þegar hann gerði framumferð með tvöföldu heljarstökki og tveimur og hálfri skrúfu og þar með varð hann fyrstur í heiminum til þess að framkvæma og lenda þetta stökk í keppni.

Stjörnustúlkur eignuðu sér alla titlana sem voru í boði á keppnistímabilinu, það átti enginn roð í þær

Stjarnan með yfirburðalið í kvennaflokki

Í kvennaflokki var það lið Stjörnunnar sem sigraði með 59.150 stig. Stjarnan var yfirburðalið í ár og vann einnig Íslandsmeistaratitla á öllum áhöldum. Í öðru sæti var lið Gerplu með 56.800 stig, í því þriðja var lið Stjörnunnar 2 með 48.450 stig. 

Karlalið Stjörnunnar sýndi frábærar æfingar og má líkja trampólínæfingum liðsins við flugeldasýningu

Trampólínæfingarnar eins og flugeldasýning

Í karlaflokki var það lið Stjörnunnar 1 sem varð hlutskarpast með 54.700 stig en liðið sýndi frábærar æfingar og má líkja trampólínæfingum liðsins við flugeldasýningu. Lið Stjörnunnar 1 sigraði einnig Íslandsmeistaratitil á öllum áhöldum líkt og kvennalið Stjörnunnar. Lið Stjörnunnar 2 var í öðru sæti með 44.300 stig. 

Stjarnan í 2. sæti í 1. flokki

Einnig var keppt í 1. flokki kvenna. Þar var það lið Gerplu sem stóð uppi sem sigurvegari með 50.350 stig. Í öðru sæti var lið Stjörnunnar með 48.700 stig, en lið Stjörnunnar sigraði í æfingum á dýnu með 15.200 stig. Í þriðja sæti voru núverandi Bikarmeistarar Selfoss.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar