Stjarnan og Öspin í samstarf

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, leikmaður Stjörnunnar í knattspyrnu og fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður, hefur frá því í febrúar sl. verið yfirþjálfari hjá Öspinni. Þar þjálfar hún börn og unglinga með sérþarfir, en í lok sumars fóru Öspin og Stjarnan í samstarf hvað knattspyrnuna varðar.

,,Markmiðið er að gefa öllum, óháð fötlun tækifæri til að æfa fótbolta. Allir eiga rétt á að velja sér íþrótt sem þau hafa áhuga á, fatlað fólk sem ófatlað fólk,” segir Gunnhildur Yrsa er Garðapósturinn forvitnaðist nánar um Öspina og sameiningu við Stjörnuna, en fótbolti hefur verið í boði hjá Öspinni í mörg ár.

Það má segja að Gunnhildur hafi tekið upp þráðinn aftur þegar hún kom úr atvinnumennsku í knattspyrnu haustið 2022, en málefni barna með sérþarfir hafa alltaf verið henni ofarlega í huga. Áður en hún hélt í atvinnumennsku var hún nefnilega með námskeið með mömmu sinni fyrir börn með sérþarfir sem hét Fótbolti fyrir alla og fóru æfingarnar fram í Íþróttahúsinu við Ásgarð í Garðabæ. ,,Svo þjálfaði ég fótboltalið fyrir börn með einhverfu úti í Bandaríkjunum,” segir hún og bætir við: ,,Ég vildi halda uppteknum hætti þegar ég kom heim enda finnst mér þetta mjög gaman,” segir Gunnhildur en hún er mikil baráttukona fyrir íþróttir og er á því að allir, hvar sem er í heiminum eigi að geta stundað íþróttir.

En hvað finnst henni svona gefandi við þetta starf? ,,Eins og fyrir flesta þjálfara þá er svo gaman að sjá iðkendurnar bæta sig. En því miður í sumum íþróttum eru mikilit fötlunarfordómar, þannig það eru margir iðkendur sem hafa ekki fengið tækifæri á að prófa fótbolta og hafa oft ekki trú á sinni eigin getu út frá samfélags viðhorfum en svo mæta þau á æfingu og sjá að þau hafa fulla getu til að stunda þessa íþrótt. Samfélagið hefur búið til ákveðnar hindranir fyrir fatlað fólk og það er upp á okkur komið að fjárlægja þessar hindranir,” segir hún.

Og um þessr mundir æfa um 40 einstaklingar á bilinu 6 til 48 ára tvisvar sinnum í viku með Öspinni/Stjörnunni, en æfingarnar fara fram í íþróttahúsinu í Sjálandsskóla og í Miðgarði. Hvernig kom það til að Stjarnan og Öspin sameinuðust? ,,Ég er mikil Stjörnukona og Stjarnan á auðvitað að bjóða upp á íþróttir fyrir alla. Þegar kom að máli við Stjörnuna og Garðabæ þá tóku þau vel í þetta verkefni, að sameina Stjörnuna og Öspina. Öspin og önnur íþróttafélög fyrir fatlaða eru að vinna frábær störf nú þegar en mikilvægt að þetta sé líka í boði inn í hverfisfélögin.”

Og þið hafið verið að leika æfingaleiki við Stjörnuna í fótbolta, hvernig hefur það gengið? ,,Já, við erum að fara halda okkar fyrsta mót með 3. flokk kvenna hjá Stjörnunni. Markmiðið er að reyna að keppa með og á móti öðrum flokkum hjá Stjörnunni. “

Gunnhildur segir að knattspyrna sé liðsíþrótt sem er tilvalin fyrir iðkendur á öllum aldri óháð sérþörfum. ,,Knattspyrnuiðkun eflir styrk, jafnvægi og samhæfingu en hefur einnig félagslegt gildi og stuðlar að samvinnu einstaklinga,” segir hún, en félagið tekur þátt í mótum bæði hérlendis sem og erlendis.

Ég væri klárlega ekki sú manneskja sem ég er í dag ef það hefði ekki verið fyrir íþróttir

Hún segir að lokum að íþróttir hafi gert ótrúlega mikið fyrir hana í gegnum árin og hún væri ekki hún nema út af fótboltanum. Hvað á hún við með því? ,,Það er ótrúlega mikið sem ég hef skapað í gegnum fótboltann. Allir vinirnir sem ég kynntist, ferðalögin sem ég fór í, áskorarnir sem ég þurfti að takast á við og margt fleira. Ég væri klárlega ekki sú manneskja sem ég er í dag ef það hefði ekki verið fyrir íþróttir. Ég get ekki ímyndað mér ef ég hefði ekki fengið þann valmöguleiki að æfa fótbolta þegar ég var yngri. Fyrir mér snýst þetta um að íþróttir eru fyrir alla og að allir eigi rétt á að velja sína íþrótt, þannig ég vil nota mitt ,,platform” til að berjast fyrir að allir fái sömu tækifærin, það finnst mér grundvallar mannréttindi,” segir hún að lokum.

Íþróttafélagið Ösp

Íþróttafélagið Ösp var stofnað 18. maí, 1980 af foreldra- og kennarafélagi Öskjuhlíðarskóla, með stuðningi frá Íþróttasambandi Fatlaðra. Stofnfundurinn fór fram á Þingvöllum, þar sem mættu foreldrar og nemendur til veislu í Valhöll.

Markmið Íþróttafélagsins Aspar er að standa fyrir íþróttaæfingum hjá félögunum, með sem fjölbreyttustum hætti, þeim til heilsubótar og ánægju og þátttöku í íþróttamótum, þar sem hæfni hvers og eins nýtur sín sem best.

Fjöldi iðkenda er um 250 manns og æfðar eru átta íþróttagreinar, þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Íþróttafélagið Ösp er opið öllum, sem hafa áhuga á íþróttum, sem æfðar eru hjá félaginu: sund, keila, frjálsar íþróttir, boccia, fótbolti, nútíma fimleikar og skautar.

Allir eru velkomnir á æfingar, til að kynnast því, sem þar fer fram og hvetur félagið alla til að mæta og sjá hvort ekki sé eitthvað við þeirra hæfi eða þeirra skjólstæðinga sem þeir gætu haft gaman af.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar