Stjarnan mætir ÍBV í úrslitakeppni kvenna í handbolta

Stjarnan sigraði Hauka í síðasta deildarleiknum í Olísdeild kvenna með tveggja marka mun, 24-26. Stjarnan var skrefinu á undan allan leikinn og komst mest í 7 marka forskot. Eva Björk Davíðsdóttir dró vagninn í sókninni og skoraði 10 mörk en í markinu átti Tinna Húnbjörg stórleik og varði 16 skot (41% markvarsla). Anna Karen Hansdóttir átti einnig góðan leik og nýtti færin vel auk þess sem Katrín Tinna Jensdóttir og Helena Rut Örvarsdóttir voru frábærar í vörninni.

Unnu Eyjakonur í báðum deildarleikjunum

Þetta þýðir að Stjarnan endar í 5 sæti og mætir ÍBV sem var stigi ofar í 4 sæti. Stjarnan sigraði báða leikina við ÍBV í deildinni, en ekki má vanmeta lið Eyjakvenna sem er vel skipað og með marga sterka leikmenn innan sinna raða. Fyrsti leikurinn er í Eyjum þann 13. maí kl. 13:30 og annar leikurinn verður í TM Höllinni þann 16. maí kl. 13:30. Stjörnufólk er hvatt til að mæta á leikina og láta í sér heyra.

Hæfileikaríkur Stjörnuhópur

Stjörnuliðið er með mjög hæfileikaríkan hóp þar sem margar ungar og efnilegar stelpur eru að taka sín fyrstu skref í Olísdeildinni. Reynsluna vantar þó ekki því margfaldir Íslandsmeistarar eru innan raða liðsins og má þar nefna Hönnu Guðrúnu, Sólveigu Láru og Elísabetu Gunnarsdóttur. Liðið hefur nú unnið 3 leiki í röð í Olísdeildinni og verður gaman að sjá hvort sigurbrautin lengist inn í úrslitakeppnina. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar