Stjarnan handbolti fer aftur af stað

Nú er handboltinn hjá Stjörnunni farinn að rúlla á ný eftir stutt hlé og sjáum við fram á bjartari tíma eftir tvo erfiða vetur í glímu við allskonar takmarkanir vegna Covid19 faraldursins.

Strákarnir okkar náðu loksins að brjóta langþráðan múr og eftir 30 ára bið þá loksins komust við uppúr 8 liða úrslitum eftir æsispennandi leiki við Selfoss. Minnst mátti svo muna að þeir kæmust í úrslitarimmuna en duttu út með naumindum á móti fyrnasterku liði Deildarmeistara Hauka.

Handboltaskólinn hefur verið starfræktur í sumar og gekk það verkefni mjög vel. Lærðu krakkarnir ótrúlega margt á skömmum tíma.

Nú eru æfingar byrjaðar hjá meistaraflokkunum og svo fara yngri flokkarnir af stað einn af öðrum nú í ágúst og svo allt starfið á fullt í september.

Tímabilið byrjar svo 09. september á 16 liða úrslitum bikarkeppninnar sem átti að fara fram í vor en var frestað vegna Covid lokana. Kvennaliðið fer í heimsókn til Aftureldingar en strákarnir spila við Gróttu á Seltjarnarnesi.

Nýtt útlit á búningum handboltans.

Stjórn Handknattleiksdeildar hefur ákveðið að koma til móts við foreldra og iðkendur í vetur með því að láta keppnisbúning fylgja með í vetur. Það er kominn tími á endurnýjun búninga þar sem að iðkendur eru í mismunandi búningum í keppni. Búningar hafa breyst með tímanum og merkingar samstarfsaðila hafa jafnframt tekið breytingum. Þetta ætti að koma sér vel þar sem að Aðalstjórn og framkvæmdastjórn Stjörnunnar hafa ákveðið að hækka öll æfingagjöld miðað við vísitölu sem er ca 4.4%

Það verður nýtt útlit á búningum handboltans í vetur og verða þeir eins frá þeim yngstu uppí meistarflokka. Það er von okkar að þessi aðgerð skili ánægju og stolti og bindum við vonir um að deildin okkar stækki í vetur.

Það eru komnir nýir rekstraraðilar í Sportland, Garðaflöt 16-18 og hlökkum við mikið til samstarfs við þau. Það eru margir spennandi hlutir að fara að gerast þar og bindum við miklar vonir um farsælt starf þar í samvinnu við Stjörnuna.

Fyrir hönd stjórnar.

Pétur Bjarnason

Formaður Handknattleiksdeildar Stjörnunnar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar