Í ljósi frétta undanfarið um aukinn vopnaburð barna og ungmenna hér á landi sendi Garðabær út bréf sl. föstudag á forráðafólk og foreldra grunnskólabarna í bænum. Þar eru foreldrar hvattir til ræða við börnin sín og leggja sitt af mörkum til að stemma stigu við vopnaburð barna og ungmenna. Á komandi dögum mun starfsfólk í skóla- og frístundastarfi Garðabæjar leggja mikla áherslu á fræðslu og eftirlit til að stöðva vopnaburð. Með handleiðslu og góðum samskiptum er hægt að auka vellíðan, velferð, lífsgæði og heilsu barna.
Í bréfinu eru foreldrar einnig minntir á að um mánaðamótin breytist útivistartími barna, 12 ára börn og yngri mega lengst vera úti til 20:00 og börn á aldrinum 13-16 ára mega lengst vera úti til 22:00.
Bréfið er sett saman að frumkvæði Reykjavíkurborgar sem sendi út samskonar bréf sl. fimmtudag.
Kæru foreldrar/forsjáraðilar
Í kjölfar skelfilegs atburðar eftir að Menningarnótt lauk, þar sem hnífi var beitt með alvarlegum afleiðingum vill starfsfólk fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, hvetja foreldra til að ræða við börnin sín um hversu hættulegt það getur verið að ganga með hníf á sér og komi í veg fyrir vopnaburð.
Því miður hefur borið á því undanfarna mánuði að börn hafi verið með hníf á sér í skólum og í frístundastarfi. Slíkt er óásættanlegt og við verðum að stöðva þessa þróun með öllum ráðum. Vopnaburður á almannafæri er bannaður skv. 30. gr. vopnalaga. Brot geta varðað sektum eða fangelsi, allt að fjórum árum.
Í skóla- og frístundastarfi er allur vopnaburður stranglega bannaður og ef barn verður uppvíst að því að bera vopn er það gert upptækt, haft samband við foreldra og málið tilkynnt til lögreglu og barnaverndar í öllum tilvikum.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að ákveðnir þættir vernda börn gegn áhættuhegðun svo sem samvera foreldra og barna, að foreldrar sýni umhyggju og setji skýr mörk og að foreldrar þekki vini barna sinna og foreldra þeirra.
Foreldrar þurfa að taka skýra afstöðu gegn neyslu barna á áfengi og vímuefnum og kaupi hvorki fyrir þau áfengi né leyfi eftirlitslaus partý. Nú um mánaðarmótin breytist útivistartími barna, 12 ára börn og yngri mega lengst vera úti til 20:00 og börn á aldrinum 13-16 ára mega lengst vera úti til 22:00.
Þá er mikið forvarnagildi falið í þátttöku barna í skipulögðu frístundastarfi og að lögbundinn útivistartími sé virtur. Mikilvægt er að foreldrar séu virkir þátttakendur í foreldrastarfi og taki þátt í starfi foreldrafélaga,foreldrarölti og bekkjarstarfi.
Með verndandi þætti að leiðarljósi getum við í sameiningu tekist á við stórar áskoranir með góðum árangri.
Ræðum þessi mál við börnin, vini barnanna og foreldra þeirra og leggjum okkar af mörkum til að auka farsæld barna. Starfsfólk í skóla- og frístundastarfi mun leggja þunga áherslu á það á komandi dögum að stöðva hnífaburð barnanna okkar. Stígum fast til jarðar – saman!
Virðingarfyllst
Linda Udengard, sviðsstjóri fræðslu – og menningarsviðs Garðabæjar