Stella Stefánsdóttir gefur kost á sér í 3 – 4. sæti

Stella Stefánsdóttir gefur kost á sér í 3 – 4. sæti á lista Sjálfsstæðisflokksins í Garðabæ. Prófkjörið fer fram 5. mars næstkomandi.

Á þessu kjörtímabili hefur Stella verið 2. varabæjarfulltrúi, setið í skipulagsnefnd, verið formaður stjórnar Hönnunarsafns Íslands og var nýverið skipuð fyrir hönd Garðabæjar í stefnuráð um Samstarfsvettvang um áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið.
„Ég hef skýra framtíðarsýn fyrir Garðabæ sem byggir á traustum fjárhag og nýsköpun í þjónustu og rekstri sveitarfélagsins sem kristallast í framsækinni þjónustu, velsæld íbúa á öllum aldri og fjölbreyttum lífsgæðum í nærumhverfinu.
Það er mikilvægt að byggja áfram á ábyrgri fjármálastjórn sem skilar sér í lágum álögum og er grunnur að framsækinni þjónustu við íbúa. Traustur fjárhagur gerir sveitarfélaginu kleift að styðja vel við menningu, lýðheilsu og íþrótta- og æskulýðsmál sem ýta undir jákvæðan bæjarbrag og eru undirsstöður líflegs mannlífs.
Sveitarfélagið Garðabær hefur verið leiðandi á ýmsum sviðum, en það er alltaf svigrúm til að gera betur. Mikilvægi nýsköpunar er óumdeilt og ég tel að það eigi að hvetja til og styðja nýsköpun í rekstri og þjónustu sveitarfélagsins. Ekki aðeins í átaksverkefnum heldur skapa nýsköpunarmenningu og hvatningu í stjórnsýslunni, skólakerfinu og velferðarþjónustu. Nýsköpun getur ýtt undir framsækna þjónustu, aukið skilvirkni og bætt lausnir í stjórnsýslu, stutt við betri nýtingu skattfjár, velsæld íbúa og lífsgæði í nærumhverfinu.“

Stella er viðskiptafræðingur með meistarapróf í nýsköpun og lógistik, stundar doktorsnám í nýsköpun og hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu.
„Ég hef brennandi áhuga á nærsamfélaginu og vil láta gott af mér leiða. Mér þykir vænt um Garðabæ. Þar hef ég hef alið upp fjórar dætur og þekki af eigin raun að eiga börn í grunnskóla, leiksskóla og íþrótta- og æskulýðsstarfi í Garðabæ. Ég tel að eiginleikar mínir, þekking og reynsla nýtist vel til starfa í þágu íbúa með það að leiðarljósi að Garðbæingar njóti framsækinnar þjónustu, búi við velsæld og fjölbreytt lífsgæði i nærumhverfinu.“

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar