Stefna á opnun 6.-14.maí

Urriðavöllur er einn glæsilegasti golfvöllur landsins

Golfarar eru sjálfsagt farnir að pússa golfkylfurnar og gera þær klárar fyrir sumarið sem er nú dottið í hús samkvæmt almannadagatalinu. Urriðavöllur í Garðabæ er einn glæsilegasti golfvöllur landsins, en þar er starfandi Golfklúbburinn Oddur (GO), sem var stofnaður árið 1993.

Golfklúbburinn Oddur er meðlimur að GSÍ. Hugmyndin að stofnun GO var að gefa félögum í Golfklúbbi Oddfellowa (GOF) möguleika á að taka þátt í starfi GSÍ og ekki síður að opna Urriðavöll fyrir golfáhugamönnum. Urriðavöllur er 18 holu, par 71 og óhætt er að fullyrða að völlurinn er með glæsilegri golfvöllum landsins. Auk Urriðavallar býður svæðið upp á 9 holu par 3 völl sem heitir Ljúflingur. Á svæðinu er einnig stórt og gott æfingasvæði (básar), púttvellir og vippgrín til æfinga.

Þorvaldur Þorsteinsson framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Odds í Urriðaholti

Framkvæmdastjóri Odds er Þorvaldur Þorsteinsson og Garðapósturinn sló á þráðinn til hans og spurði um stöðuna á vellinum og golfsumarið sem er framundan

Völlurinn kemur vel undan vetri
Hvernig kemur golfvöllurinn undan vetri og hvenær reiknar þú með að hann opni? ,,Völlurinn kemur vel undan vetri en þó er enn frost í jörðu. Vallarstarfsmenn eru á fullu að undirbúa völlinn fyrir opnun sem við vonum að verði á bilinu 6-14 maí. Allt fer þetta eftir hitastiginu hvenær við opnum en vonandi verður það fyrr en seinna,“ segir Þorvaldur.

Minnka líkur á að slegið sé inn á flóttamannaleið
Einhverjar framkvæmdir sem hafa staðið yfir á vellinum í vetur og núna í vor – eitthvað sem félagar taka eftir? ,,Í vetur höfum við verið að vinna í tveimur nýjum teigum á 14 braut sem þó munu ekki verða teknir í notkun fyrr en á næsta ári. Er það gert til að minnka líkur á því að kylfingar slái inn á flóttamannaleið auk þess sem brautin mun styttast fyrir þá sem spila á fremstu teigum. Einnig hefur töluverð vinna farið í endurnýjun vatnslagna og að leggja nýtt rafmagn þar sem hleðslustöðvar fyrir slátturóbóta verða staðsettir. Félagsmenn munu einnig verða varir töluverða breytingu í golfskála en búið er að breyta um útlit með það að markmiði að gera salinn okkar hlýlegri.“

Urriðholtsvöllur er einn fallegasti völlur landsins ef ekki sá fallegasti (C) Jacob Sjöman. [email protected]

Stækkun golfvallarins í 27 hölur í pípunum
Nú eru áform um að stækka völlinn, fjölga holum – hver er staðan á þeim áformum og hversu mikið vilja menn stækka völlinn? ,,Staðan á stækkun er enn í skipulagsferli sem okkur þykir ganga hægt. Við höfum lengi viljað stækka golfvöllinn úr 18 í 27 holur og má segja að fyrstu hugmyndir hafi komið fram fyrir tveimur áratugum. Þær hugmyndir hafa síðan mikið breyst og að mínu viti til batnaðar. Erum við að vona að við getum kynnt hugmyndir á þessu ári fyrir okkar félagsmönnum.“

Vantar vetraraðstöðu – sannfærður um að sveitarfélagið farið að taka við sér
Hafið þið hugað að því að koma upp golfhermum í félagsheimilinu ykkar? ,,Því miður höfum við enga möguleika á að koma upp golfhermum í núverandi golfskála, til þess er hann alltof lítill. Við höfum einfaldlega enga vetraraðstöðu líkt og aðrir golfklúbbar sem eru af svipaðri stærð og við hér á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum haft uppi hugmyndir um byggingu inniaðstöðu bæði með stækkun á núverandi golfskála eða við núverandi æfingasvæði en því miður hefur golfklúbburinn enga burði til að fara í slíka framkvæmd án aðstoðar. Í mörg ár höfum við óskað eftir því við sveitarfélagið að það komi að þessu með okkur án árangurs. Erum við sannfærð um að sveitarfélagið fari að taka við sér enda er byggðin í Urriðaholti alltaf að vaxa og íbúum að fjölga sem einfaldlega kallar á aukna möguleika til íþróttaiðkunar og útivistar, jafnt að sumri sem vetri.“

Það eru um 1650 félagar í Oddi

Um 1650 félagr í GO
Hvað eru margir félagsmenn í Oddi og eruð þið ávallt að setja meiri kraft í barna- og unglingastarfið hjá ykkur?
,,Félagar í Golfklúbbnum Oddi eru um 1650, þar af um 400 sem eru að spila byrjenda- og æfingavöllinn okkar Ljúfling. Barna-og unglinganámskeiðin hafa verið mjög vinsæl hjá okkur undanfarin ár. Þátttakan hefur þrefaldast á síðustu 4 árum og er nú svo komið að um 250 krakkar koma til okkar á sumri hverju og læra undirstöðuatriði íþróttarinnar. Æfingar fyrir þá krakka sem vilja halda áfram eru svo í gangi fram á haust þar til frostið fer að bíta. Er það von okkar að með byggingu inniaðstöðu getum við farið að bjóða upp á æfingar allt árið í okkar eigin aðstöðu og við bestu aðstæður.“

Engar áhyggjur af sumrinu
Hvernig sérðu svo sumarið fyrir þér miðað við stöðuna á kórónuveirufaraldrinum, heldurðu að þið náið að halda úti eðlilegu starfi og geta haldið þau mót sem þið eruð með árlega?
,,Ég er sannfærður um að faraldurinn muni ekki hafa mikil á golfið sjálft þótt einhverjar samkomutakmarkanir gætu orðið í klúbbhúsi. Í raun held ég að starfið verði með svipuðu sniði og í fyrra og við munum halda áfram að leika eftir þeim Covid reglum sem voru í gildi þá. Ef síðan stór hluti landsmanna verður orðinn bólusettur um mitt sumar verður golfið líklega komið í sama horf og sumarið 2019 þannig að ég hef engar áhyggjur af sumrinu.“

Gönguhópur Odds hefur komið saman alla laugardaga í vetur og gengið í og við golfvöllinn og í næsta nágrenni

Státa af hæsta hlutfalli kvenna í golfklúbbi á landinu
Og svona að lokum, þá er félagsstarfið einnig öflugt í Oddi og þið eruð m.a. með gönguhóp?
,,Félagsstarfið hefur ávallt verið með ágætum og eins þú nefnir hefur gönguhópur okkar komið saman á laugardögum í vetur og gengið í og við golfvöllinn og næsta nágrenni. Kvennastarfið okkar er einnig mjög öflugt. Kvennahópurinn okkar er mjög stór enda hefur klúbburinn státað af hæsta hlutfalli kvenna í golfklúbbi á landinu í mörg ár eða rúm 40%. Allt félagsstarf hefur þó undanfarið ár litast mjög af faraldrinum en við búumst við að starfið taki kipp þegar honum er lokið.“

Evrópumót stúlkna 2022 – Græni herinn virkjaður
,,Á næsta ári 2022, munum við svo taka á móti bestu stúlkum Evrópu þar sem Evrópumót stúlkna 18 ára og yngri verður haldið hér á Urriðavelli og þá verður virkjaður að nýju „græni herinn“, hópur sjálfboðaliða, sem gerði umgjörð Evrópumóts kvenna 2016 ógleymanlega.“

Uppselt en hægt að skrá sig í Ljúflingsaðild
En geta allir skráð sig í golfklúbbinn Odd?
,,Það geta allir skráð sig golfklúbbinn sem vilja. Eins og staðan er núna getum við ekki tekið við fleiri meðlimum sem heimild hafa til að spila Urriðavöll þar sem hann ber ekki fleiri en við fögnum ávallt byrjendum á Ljúfling sem geta þá skráð sig í Ljúflingsaðild hjá okkur.“

Fiðringur í mannskapnum
…og þú ert bara spenntur fyrir sumrinu og hlakkar til að fá mannskapinn til þín? ,,Já, það er kominn mikill fiðringur í okkar félagsmenn að byrja að spila og njóta útiverunnar í okkar skemmtilega umhverfi með vinum og fjölskyldu. Við erum ávallt bjartsýn hér í upplandinu og erum við sannfærð um að þetta verði besta og skemmtilegasta golfsumar í manna minnum.

Geggjað! Hola 10 nýtur sín í fallegri náttúru

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar