Stafræn vegferð Garðabæjar

Aðgengi að upplýsingum á að vera einfalt og gott. Það á líka að vera auðvelt að koma upplýsingum áfram. Stafrænar reiknivélar veita okkur betri upplýsingar og auðvelda samanburð á t.d. leikskóla- eða fasteignagjöldum. Stafrænt umhverfi opnar marga möguleika. Ábendingagátt þar sem auðvelt er fyrir bæjarbúa að koma ábendingum á framfæri og bætir utanumhald. Sorphirðudagatal þar sem við fáum með einum smelli upplýsingar um það hvenær tunnan okkar verður tæmd. Rafrænar tímabókanir og undirritanir. Bæjarbúar geta líka sagt bless við plastkortin í sund og á bókasafnið sem mörg okkar vorum alltof oft að gleyma eða týna.

Aðgengilegri og betri þjónusta

Með stafrænni umbreytingu geta sveitarfélög aukið við þjónustu, gert hana skilvirkari og betri. Stafrænar lausnir minnka flækjustig, samskipti verða liprari og umhverfi notandans verður aðgengilegra. Hann fær hraðari afgreiðslu, betra og auðveldara aðgengi að gögnum, betri yfirsýn og gagnsæi með umsóknum, útborgunum og öðru sem viðkemur starfsemi sveitarfélagsins.

Fjárhagslegur ávinningur

Fjárhagslegur ávinningur er líka töluverður, með fjárfestingu í stafrænni þróun förum við betur með fjármuni. Við nýtum líka tíma starfsfólks betur og í virðismeiri verkefni, fólk sinnir þá fólki í stað bak- og pappírsvinnslu. 

Tökum dæmi. Sveitarfélögin vinna nú að því að innleiða stafrænt aðgengi að fjárhagsaðstoð. Í dag fara 28.300 klst. á ári í vinnslu og afgreiðslu umsókna. Áætlað er að í nýju stafrænu kerfi verði þetta 14.150 klst. Það þýðir að hægt verður að nýta 14.150 klst. í önnur verkefni. Fjárfesting í stafrænum lausnum er fjárfesting í innviðum. Fjárfesting til framtíðar. 

Aukin lífsgæði og sjálfstæði notenda

Velferðartækni er hluti af stafrænni þróun og þar eru fjölmörg tækifæri til að gera miklu betur. Ávinningurinn er hagkvæmni, minni sóun á tíma og mannafla og umfram allt, aukin lífsgæði og sjálfstæði notenda.

Atvinnulífið er á fullri ferð í stafrænni þróun enda vill enginn sitja eftir. Það sama á við um sveitarfélögin. Mikil vinna er í gangi hjá þeim og sameiginlega er unnið að mörgum og spennandi verkefnum, enda er hagræðing í því. Við eigum að halda áfram og þróa fleiri stafrænar lausnir út frá þörfum notandans í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtæki á frjálsum markaði. 

Yngra fólk nýtir þjónustu öðruvísi en við sem eldri erum og þar eru stafrænar lausnir hluti af daglegu lífi. Við getum gert svo margt með smelli í símanum! 

Sveitarfélög verða að laga sig að raunveruleika þeirra. Bætum þjónustu og einföldum líf notandans. Garðabær er leiðandi í þjónustu. Stafræn vegferð Garðabæjar er hafin en við þurfum að halda áfram. 

Nýtum tæknina til framfara. 

Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar. Hún situr í stafrænu ráði sveitarfélaga og var formaður stýrihóps Garðabæjar um stafræna þróun. Hún býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar