Niðurstöður Rannsókna og greiningar
Ungmennum í Garðabæ líður almennt vel samkvæmt nýjum niðurstöðum sem rannsóknamiðstöðin Rannsóknir og greining kynnti nýverið. Þar kemur fram að lykilatriði í að stuðla að vellíðan barna og unglinga er m.a. samvera með foreldrum, einfalt heimilislíf eins og að borða saman, ísbíltúr, spjall og spil. Þá styður við vellíðan að taka þátt í skipulögðu tómstundastarfi, að tengsl foreldra við skóla barnsins og vini séu góð auk þess sem góður nætursvefn er mikilvægur. Áskoranir eru hins vegar það sem eykur líkur á vanlíðan en þar má meðal annars nefna mikla skjánotkun sem getur valdið svefnleysi og kvíða, neyslu orkudrykkja og notkun nikótíns auk útivistar sem ekki samræmist reglum um útivistartíma.
Þann 7. apríl sl. var haldinn kynningarfundur um líðan unglinga í Garðabæ. Vegna samkomutakmarkana var fundurinn í beinni útsendingu á vef Garðabæjar og fésbókarsíðu bæjarins þar sem foreldrar og aðrir áhugasamir gátu fylgst með. Á fundinum voru kynntar nýjar niðurstöður Rannsókna og greiningar á högum og líðan grunnskólabarna í 8., 9. og 10. bekk auk þess sem fulltrúar Grunnstoða fóru yfir ýmis atriði. Grunnstoð eru hagsmunahópur foreldra í Garðabæ og tengist foreldrafélögum grunnskóla í bænum.
Byggt á rannsóknum
Rannsóknir og greining gerir reglulega kannanir á líðan barna og unglinga í landinu. Slíkar kannanir eru mikilvægar fyrir þá sem starfa að málefnum barna og ungmenna en ekki síður okkur foreldra. Þessar kannanir gefa okkur upplýsingar um líðan og hegðun barna og unglinga í Garðabæ samanborið við landið allt. Niðurstöðurnar eru nýttar við stefnumótun og gerð aðgerðaráætlana í starfi með ungmennum og er þar með byggt á nýjustu upplýsingum á hverjum tíma. Einnig eru upplýsingarnar notaðar til að fylgjast með hvort einstakar aðgerðir skili árangri sem er ekki síður mikilvægt.
Tengsl og samvera með foreldrum
Foreldrahlutverkið er yfirleitt skemmtilegt og gefandi, en getur líka verið krefjandi. Á unglingsárunum fer jafningjahópurinn oft að spila stærra hlutverk og þá getur dregið úr samveru með foreldrum. Rannsóknir sýna okkur hins vegar að samvera með foreldrum, umhyggja og hlýja eru verndandi þættir í uppeldi barna og unglinga. Að því sögðu er mikilvægt að við foreldrar reynum eftir fremsta megni að skapa samverustundir og ræða við börnin okkar. Jafnframt skiptir máli að þekkja og láta sér annt um vini barna sinni, vera í sambandi við foreldra þeirra, vita hvar barnið manns er, með hverjum og hvað vinahópurinn er að gera. Ef foreldrar þeirra sem eru í vinahóp eru upplýstir og samtaka í viðmiðum skapar það ákveðið öryggi og samhljóm í viðmiðum sem auðveldar okkur að virða reglur um útivistartíma.
Þátttaka í tómstundastarfi
Rannsóknir sýna okkur einnig að skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, tónlistarnám, þátttaka í starfi félagsmiðstöðva og tómstundastarfi í skólum eru verndandi þættir í lífi barna og unglinga enda sé starfið leitt af hæfum leiðbeinendum. Á þessum grunni hafa bæjaryfirvöld hvatt börn og unglinga til að stunda skipulagt starf með niðurgreiðslu á æfinga- og/eða þátttökugjöldum með greiðslu hvatapeninga.
Svefninn er mikilvægur
Ein af grunnstoðum góðrar heilsu er góður svefn. Niðurstöður kannana sýna að börn og unglingar í dag fá mörg hver ekki nægjanlegan nætursvefn. Ýmsir þættir hafa neikvæð áhrif á svefninn en helst má nefna aukna neyslu orkudrykkja og skjánotkunar á kvöldin og jafnvel fram eftir nóttu. Orkudrykkir sem innihalda mikið magn koffíns eru oft markaðssettir sem heilsu- og lífstílsdrykkir en börn og unglingar eru mun viðkvæmari fyrir koffíni heldur en þeir sem eru fullorðnir. Ungmenni sem neyta orkudrykkja sem innihalda koffín auka því líkur sínar á lélegum nætursvefni til muna sem getur haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar, svo sem andlega vanlíðan.
Áskoranir
Niðurstöður nýjustu rannsókna sýna okkur að líðan og staða ungmenna í 8.-10. bekk í Garðabæ endurspeglar að mestu leyti stöðu ungmenna á landsvísu en er betri varðandi ákveðna þætti. Samkvæmt niðurstöðunum felast áskoranir foreldra aðallega í því að virða útivistarreglur, fylgjast með hvers kyns vímuefnaneyslu, vera upplýst um tengsl milli skjánotkunar, svefnleysis og vanlíðunar en við sjáum að vanlíðan hefur heldur aukist hjá stúlkum. Ásamt framansögðu er mikilvægt að eiga upplýsandi umræðu við ungmennin um að senda ekki ögrandi myndir eða nektarmyndir (af sér eða öðrum) né heldur að biðja aðra um að gera slíkt.
Við hvetjum foreldra til að standa saman, vera vel upplýstir, skapa nærveru og eiga gott trúnaðarsamband við börn sín. Það styður við vellíðan þeirra og lífsgæði samkvæmt rannsóknum.
Björg Fenger, bæjarfulltrúi og formaður ÍTG
Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla
Burðarmynd Artem Podrez frá Pexels