Handknattleiks-, knattspyrnu- og körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hafa tekið höndum saman og ætla í sameiningu að halda Októberfest í Garðabæ, það fyrsta sinnar tegundar, en fyrirmyndin af hátíðinni er sótt til Bæjaralands í Þýskalandi þar sem Októberfest var fyrst haldið árið 1810.
Garðapósturinn heyrði í Sófusi Gústavssyni sem heldur utan um hátíðina ásamt Sæmundi Friðjónssyni, Herði Harðarsyni, Benedikt Sigurðussyni og Sigurði (Dúllu) Þórðarsyni.
Hvernig kom það til að deildirnar ákváðu að taka höndum saman og rigga upp Októberfest? ,,Okkur fannst vanta hátíð eins og þessa í Garðabæ og þegar hugmyndin var rædd milli deilda þá hafði sama hugmynd verið rædd í öllum deildum. Auk þess fer alltaf mikil vinna í auglýsingasöfnun hjá öllum deildum og við töldum að ein stór skemmtun gæti hjálpað deildunum við fjáröflun.”
350 manna hátíðartjald
Og þið ætlið að gera þetta með stæl og meðal annars er fyrirhugað að reisa hátíðartjald fyrir 350 gesti á Stjörnu- torgi? ,,Já, það er rétt. Hátíðin verður haldin á Stjörnutorgi sem er tilvalið fyrir hátíð sem þessa. Stjörnutorg er fyrir framan innganginn á Samsungvellingum og þar verður grillvagn með alvöru þýskum pylsum og Snitzel, bjórvagn frá Ölgerðinni og Pretzel frá Gulla Arnari.”
Og þetta er Októberfest í ágúst, það hljómar nokkuð furðulega? ,,Já, en við treystum ekki alveg á veðrið í september/október. Þá er þessi tími í ágúst góður þar sem flestir eru komnir heim úr fríum og svo er bara kominn tími á gott partý,” segir hann brosandi.
Þetta er þriggja daga hátíð, frá 24. til 26. ágúst, hvað verður á boði? ,,Dagskráin verður mjög fjölbreytt og flott, en það verður m.a. lifandi músik alla dagana þar sem DJ Raggi Már, Herbert Guðmundsson, MC Gauti, Eyþór Ingi, Elísabet Ormslev og Húsbandið munu stíga á svið. Hátíðartjaldið mun vera opið frá kl. 17:00 til 00:30 alla daga og það opnar með Happy Hour á milli klukkan 17 og 19.”
Októberfest-Stjörnubolir
Nú er algengt á Októberfest í Þýskalandi að gestir mæti í búningum. Hvetjið þið gesti hátíðarinnar í Garðabæ og gera slíkt hið sama? ,,Við erum með skemmtilega Októberfest-Stjörnuboli til sölu fá Henson. Bolirinn kostar 10.000 kr. og þeir verða í boði frá 20. ágúst nk. Einnig hvetjum við alla til að mæta í sínum eigin Októberfestbúningum eða kaupa af okkur bol til styrktar deildunum. Sjálfur á ég einn alvöru búning frá Þýskalandi og ég hlakka mikið til að mæta í honum,” segir hann brosandi og bætir við: ,,Að sjálfsögð kaupi ég líka Stjörnubolinn.”
Stór nöfn stíga á svið og syngja
Þetta er mjög metnarfull dagskrá og hátíð hjá ykkur en hátíðin er hugsuð sem fjáröflun fyrir deildirnar, kostar inn á hana eða hvernig sækjið þið krónur í kassann? ,,Já, við rukkum inn á hátíðina, það kostar 5.000 kr. inn á fimmtudeginum en þá spilar Dj Raggi Már og Herbert Guðmundsson. Á föstu-deginum kostar 10.000 kr. inn en þá spilar Dj Raggi Már, Eyþór Ingi, Elísabet Ormslev og Húsbandið. Á laugardaginn mætir kostar 8.000 kr. inn og þá mæta MC Gauti og Húsbandið. Auk þess mæta gestasöngvarar alla dagana, en þeir verða kynntir síðar.”
Og þið sjáið fram á að þetta verði frábær viðbót við annars flott menningarlíf í Garðabæ? ,,Já, vonandi verður vel tekið í þetta. Það er alltaf gaman að hittast og hitta aðra. Við höfum heyrt að íbúar í ákveðnum götum eru að hópa sig saman og ef að þetta heppnast vel þá verður Októberfest Stjörnunnar árlegur viðburður,” segir Sófus og bætir við að lokum. ,,Í Garðabæ er mikið að ungum tónlistarmönnum sem gaman væri að fá til okkar á laugardeginum. Þá væri t.d. hægt að vera með opna dagskrá frá 12-16, en allt kostar þetta peninga og við erum þessa dagana að leita að styrkaraðilum fyrir þá dagskrá.”
Hægt er að panta miða á: [email protected]
Októberfest-töffarar! Benedikt, Sófus, Hörður, Sæmundur og Siggi Dúlla