Söngdeild Tónlistarskóla Garðabæjar flytur Töfraflautuna eftir W. A. Mozart.

Mánudaginn 6. febrúar og miðvikudaginn 8. febrúar flytja nemendur söngdeildar Tónlistarskólans stytta útgáfu af Töfraflautu W. A. Mozart.

Sýningin er um það bil 1 klst og hefst báða dagana kl. 20:00 í sal Tónlistarskólans við Kirkjulund.
Ævintýrið um prinsinn Tamino er skemmtilegt, dramatískt og grátbroslegt. Við sögu koma margar skrautlegar persónur eins og t.d. hann Papageno sem er skrýtin skrúfa sem langar mikið til að hitta góða konu og er alltaf svangur. Næturdrottningin, slóttug og grimm og auðvitað prinsessan Pamina.

Við hittum nokkra söngnemendur og fengum að heyra um þetta áhugaverða verkefni og jákvæð áhrif þess á þá.

Svandís syngur hlutverk 3. dömu: Að taka þátt í Töfraflautunni hefur hjálpað mér að fara út fyrir þægindarammann og enduruppgötva ástríðu mína fyrir söng og sviðsframkomu.“

Guðmundur Tómas syngur hlutverk Papageno: „Þetta er mjög eflandi og uppörvandi, það verða allir nær hver öðrum við það að setja upp svona óperu.“

Jóhanna syngur hlutverk 2. drengs: „Þetta hefur verið svo skemmtilegt og ég er hálf sorgmædd að verkefnið sé að enda“

Guðrún Ágústa syngur hlutverk 1. dömu: „Töfraflautan er ópera sem nánast öllum þykir skemmtileg, og mér þykir það skína í gegn í uppsetningu okkar, ekki síst vegna þess hve mikil leikgleði ríkir í hópnum.“

Hin slóttuga og grimma Næturdrottning ásamt prinsessunni og Pamina

Tinna Margrét syngur hlutverk Næturdrottningarinnar: „Ég hef aldrei leikið svona hlutverk áður, hef alltaf verið prúða og góða stelpan svo það er sjúklega skemmtilegt og þroskandi að leika konu eins og Næturdrottinguna, fæ frelsi til að prófa mig áfram og vaxa sem leikari.“

Bryndís Ásta syngur hlutverk Paminu: „Við höfum skemmt okkur konunglega á æfingum og það hefur myndast yndislegur hópur af vinum í kjölfarið. Þetta er líka frábær þjálfun fyrir framtíðina því hér kynnumst við framtíðar starfsumhverfi okkar.“

Björn Ari syngur hlutverk Tamino: „Það er eitt að syngja inn í stofu með kennara og annað að skapa eitthvað saman á sviði með öðrum flytjendum“

Viðar Janus syngur hlutverk Sarastro, hugleiðing um tónlist Mozarts: „Handan veggja hugans dvelur fegurð lífsins í vöggu hjartans. Í óskalandi sem fáir fundu með orðinu einu. En tónlistina þekkti Mozart, hún var hans vegvísir.“

Örvar Már leikstjóri sýningarinnar: „Það er ótrúlega gaman að sjá framfarirnar sem verða á hverri æfingu og mikil forréttindi að vinna með þessum hóp. Ég sé hvernig sú mikla vinna sem fram fer í kennslustofunni skilar sér inn á sviðið og við sjáum nemendur verða að blómstrandi listamönnum.“
Lokaorðin verða frá Svandísi. „Mæli ótrúlega mikið með sýningunni, vonandi hreyfir hún við hjarta þínu“

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar