Það er okkur metnaðarmál sem störfum í kirkjum Garðabæjar að miðla hinni sterku og stóru sögu kristninnar af píslarsögu Jesú frá Nasaret og þegar í ljós kemur að ástin er sterkari en dauðinn.
Á skírdagskvöld verður messa kl. 20:00 í Vídalínskirkju þar sem síðustu kvöldmáltíðarinnar er minnst í tali og tónum. Hr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrverandi vígslubiskup í Skálholti, flytjur hugvekju og Erla Björg Káradóttir og Særún Rúnudóttir syngja við undirleik Jóhanns Baldvinssonar organista. Í lok stundarinnar er altari Vídalínskirkju afskrýtt til að minnast þjáningarinnar og það er síðan klætt svörtu klæði og settar á það fimm rósir sem tjákna sárin á líkama Jesú. Daginn eftir, á föstudaginn langa, er farin pílagrímaganga frá Vídalínskirkju og einnig Bessastaðakirkju þar sem píslarsagan er flutt á leiðinni. Gönguhóparnir hittast svo í Garðakirkju og þar flytur Kór Vídalínskirkju tónlist undir stjórn Jóhanns Baldvinssonar organista og Þórunn Clausen leikkona flytur valda passíusálma.
Síðan er lífinu fagnað á páskadagsmorgunn við sólarupprás kl. 8 með kröftugum kórsöng Kórs Vídalínskirkju og óbóleik Peter Tompkins í Vídalínskirkju. Þá verður búið að klæða altarið að nýju og páskaliljurnar minna okkur á vonina og lífskraftinn. Sungið verður hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar. Á eftir er öllum boðið í heitt súkkulaði með rjóma og brauð í safnaðarheimilinu. Í morgunmatnum er það svo verkefni sóknarprestsins að vekja páskahlátur hjá söfnuðinum. Við minnum einnig á hátíðarguðsþjónustu á hjúkrunarheimilinu Ísafold kl. 11 þar sem félagar í kór Vídalínskirkju syngja. Sjá gardasokn.is
Með hátíðarkveðjum
Prestar og starfsfólk Vídalínskirkju/Garðakirkju