Snúa bökum saman og vilja halda Októberfest í Garðabæ í ágúst

Handknattleiks-, knattspyrnu- og körfuknattleiksdeild hafa ákveðið að snúa bökum saman og stefna að því að halda sameiginlega fyrsta Októberfest í Garðabæ á Ásgarðssvæðinu dagana 24.-27. ágúst.

Viðburðurinn er fjáröflun fyrir deildirnar, en í leiðinni hugsaður sem skemmtileg viðbót við frábæra menningarviðburði í Garðabæ. Þetta kemur fram í erindi sem Stjarnan hefur sent á bæjarráð.

Lofa að sleppa hestaveðreiðum en bjóða upp á mjöð

,,Októberfest sækir fyrirmynd sína til Bæjaralands í Þýskalandi en þar hefur Oktoberfest verið haldin síðan 1810 þegar Lúðvík konungur bauð öllum bæjarbúum til brúðkaupsveislu sinnar og bauð uppá mjöð og hestaveðreiðar en við lofum því að sleppa hestaveðreiðum. Síðan þá hefur þessi hátíð stækkað og þróast og er núna haldin víðsvegar um heiminn við góðar undirtektir. Deildirnar telja að slík hátíð yrði frábær viðbót í menningarlíf Garðbæinga,” segir í erindinu frá Stjörnunni.

Hátíðartjald fyrir 350 manns í sæti

Áformað er að hátíðin sjálf verði staðsett fyrir framan stúkuna á Samsungvellinum og hátíðartjald sett upp sem rúmar um 350 manns í sæti.

Fram kemur í erindinu að aðstandendur Októberfest ætli að fara alla leið með hátíðina. Tjaldið verður skreytt með bláum borðum, starfsmenn (leikmenn meistaraflokka) verða í viðeigandi búningum, boðið verður uppá bæverskar veitingar, eins og pylsur, kartöflusalat og jafnvel snitsel og verða gestir hátíðarinnar hvattir til að mæta í búningum. Viðburðurinn stendur yfir í þrjú kvöld fimmtudag, föstudag og laugardag. ,,Það á eftir að útfæra dagskrána og aðgangsmál en reiknað er með að mesta púðrið yrði lagt í laugardagskvöld og jafnvel reiknað með að selt verði inn þar til að hafa stjórn á mannfjölda.”

Óska eftir styrk að fjárhæð 5,9 milljónir króna

Í erindinu kemur fram að svona hátíð sé talsverð fjárhagsleg áhætta fyrir deildirnar sem standa að hátíðinni. Tjaldið sem verður leigt kostar uppsett með borðum og hljóðbúnaði 2.9 milljónir. Reikna má með að listamennirnir verði á um 3 milljónir. ,,Forsvarsmenn Októberfest óska hér með eftir stuðningi og þátttöku Garða- bæjar vegna hátíðarinnar. Stuðningurinn fæli í sér aðstoð frá áhaldahúsinu, losun rusls og úrgangs en einnig óskum við eftir fjárstuðnings upp á allt að 5.9 milljónum. Ef vel gengur með þennan viðburð verður þetta að árlegri hefð sem ætti að vera góð lyftistöng fyrir fjármögnun deildanna þriggja sem og menningarlíf Garðbæ- inga,” segir í lok bréfsins en Garðabær hefur tekið jákvætt í erindið og vísað því til bæjarstjóra.

Forsíðumynd: AP

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar