Aðeins munaði 41 atkvæði á Almari Guðmundssyni og Áslaugu Huldu Jónsdóttur í prófkjöri Sjálfstæðis-flokksins í Garðabæ sem fram fór sl. laugardag, en úrslit lágu fyrir aðfaranótt sunnudags. Bæði stefndu þau á oddvita-sætið ásamt Sigríði Huldu Jónsdóttur, en Almar bar sigur úr býtum, Áslaug Hulda varð í öðru sæti og Björg Fenger, sem sóttist eftir öðru sæti á listanum skaust upp fyrir Sigríði Hulda er lokatölur lágu fyrir og varð þriðja og Sigríður Hulda fjórða.
Þátttakan í prófkjörinu var mjög góð en alls tóku 2448 þátt, gild atkvæði voru 2368.
Skilaði sér í uppbótartíma
Garðapósturinn heyrði hljóðið í Almari sem var eðlilega ánægður með árangurinn? ,,Það er frábær tilfinning að hafa náð mínu markmiði í prófkjörinu. Það, eins og allt annað, er ekki eins manns vinna. Ég er fyrst og fremst þakklátur öllu mínu stuðningsfólki fyrir að sýna mér traust. Ég er síðan mjög stoltur af fjölskyldunni, vinunum og fólkinu í baklandinu sem unnu öll baki brotnu og voru mjög ósérhlífin. Við fylgdum okkar áætlun allan tímann og það skilaði sér “í uppbótartíma”,“ segir hann brosandi.
Vill þakka Áslaugu og Sigríði fyrir málefnalega og kraftmikla kosningabaráttu
Það má nú segja að þetta hafi varla getið verið jafnara? ,,Ég gekk út frá því frá fyrsta degi að þetta yrði jöfn barátta um öll átta sætin. Á endanum varð þetta sennilega enn meira spennandi í heildina en maður gerði ráð fyrir. Það kom svo auðvitað ekki á óvart að baráttan um fyrsta sætið yrði spennandi. Ég vil þakka Áslaugu Huldu og Sigríði Huldu sérstaklega fyrir málefnalega og kraftmikla kosningabaráttu.”
Prófkjörið færir okkur lýðræðislega niðurstöðu
Ertu ánægður með að Sjálf-stæðisflokkurinn hafi ákveðið að viðhafa prófkjör? ,,Sjálft prófkjörið er eiginlega stærsti sigurinn fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Garðabæ. Það komu fram 17 mjög sterkir frambjóðendur, sem sýndu mikinn dugnað og kraft við að kynna sig og koma mikilvægum málefnum á framfæri. Öll kynning á frambjóðendum á vegum Sjálfstæðisfélagsins var glæsileg og framkvæmdin góð. Það er ástæða til að þakka öllu þeim fjölda aðila sem komu að undirbúningi og framkvæmd prófkjörsins. Það voru síðan rétt tæplega 2.500 manns sem greiddu atkvæði, sem bæði sýnir áhuga fólksins í bænum og eins færir okkur mjög lýðræðislega niðurstöðu. Ég tel að það sé eftir þessu tekið langt út fyrir bæinn.”
Erum vel nestuð af þeirri miklu málefnaumræðu sem var í kringum prófkjörið
Ertu ánægður með listann og áttu nú von á að frambjóðendur snúi saman bökum og vinni vel saman fyrir baráttuna sem er framundan? ,,Niðurstaða prófkjörsins skilar okkur mjög sterkum hópi fyrir kosningarnar. Við erum líka vel nestuð af þeirri miklu málefnaumræðu sem var í kringum prófkjörið. Ég skynja strax mikla spennu og tilhlökkun í hópnum og auðvitað þurfum við að ná upp frábærum og þéttum liðsanda. Næsta verkefni er að stilla enn betur saman strengi varðandi málefnavinnu og fleira og sigla síðan af krafti, gleði og dugnaði inn í kosningabaráttuna. Ég er spenntur fyrir því að leiða sterkan hóp Sjálfstæðisfólks til sigurs í vor, en vil um leið nálgast það verkefni af auðmýkt,” segir nýr oddviti Sjálfstæðsflokksins í Garðabæ, Almar Guðmundsson.
Mynd: Oddviti Sjálfstæðisflokksins! Almar á kjörstað sl. laugardag ásamt eiginkonu sinni Guðrúnu Zoéga og dótturinni Fríðu.