Skólasamfélagið í Garðabæ

Mín framtíðarsýn er að Garðabær verði öðrum sveitarfélögum fyrirmynd í þessum efnum.

Ég starfa í Álftanesskóla og umgengst grunnskólabörn alla daga. Mér er oft hugleikið hvað lætur börnum og ungmennum líða vel í skólanum og hvernig við eflum áhugahvöt þeirra til að vilja standa sig og hafa trú á sjálfum sér. Það er vissulegar margir þættir sem hafa áhrif s.s. fjölskylduaðstæður, félagsleg staða, viðmót í skólakerfinu og margt fleira. Meginmarkmið skólastarfs er að stuðla að menntun, velferð, vellíðan og þroska allra nemenda, efla sjálfstraust og jákvæða sjálfsmynd.

Brottfall drengja úr námi er eitthvað sem við verðum að beina athygli okkar að. Undanfarin 15 ár hefur 75% af útskrifuðum háskólanemum verið konur Á sama tíma eru lang flest fyrirtæki stofnuð af körlum. Það er ljóst að það er skortur á karlkyns fyrirmyndum í skólastarfinu. Við þurfum að koma í veg fyrir brottfall drengja úr skólakerfinu og auka frumkvöðlafræðslu stúlkna. Þó svo að Covid tímar hafi verið krefjandi hafa þeir einnig kennt okkur fjölbreyttari leiðir við kennslu sem að mínu mati hefur gengið vel en gæti gengið betur ef skólarnir okkar væru tæknivæddari. Hröð tækniþróun undanfarinna ára má ekki verða takmarkandi þáttur í skólastarfinu þar sem skólinn heldur ekki í við nemendur. Við þurfum að bregðast við og komast í takt við nútímann svo við lendum ekki í því að horfa í baksýnisspegilinn eftir einhver ár með eftirsjá yfir því að hafa ekki brugðist við á réttan hátt.

Að undanförnu hefur verið mikil umræðan um skóla án aðgreiningar. Skóli án aðgreiningar byggist á því að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Innleiðingin hefur ekki gengið vel; verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er á gráu svæði og hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar hefur hvorki verið skilgreind né innleidd með skipulögðum hætti hér á landi. Stefnan á við um öll skólastig og var lögfest 2008. Árið 2015 ákvað Mennta- og menningarmálaráðuneytið að leggja fyrir mat á fyrirkomulagi og framkvæmd sérfræðiþjónustu í sex sveitarfélögum. Niðurstaðan var sú að mjög erfitt er að framfylgja stefnu um skóla án aðgreiningar. Það vantar aukið fjármagn, fjölbreyttari sérfræðiþekkingu og stuðning á faglegum sviðum innan skólanna. Starfsumhverfi kennara hefur breyst mikið með tilkomu stefnunnar með auknu álagi, auknum kröfum um sérþekkingu og meiri tíma sem fer í skýrslugerð og fundasetur. Mín framtíðarsýn er að Garðabær verði öðrum sveitarfélögum fyrirmynd í þessum efnum. Með því að setja aukið fjármagn í sérfræðiþjónustu og þekkingu inn í skóla Garðabæjar tryggjum við aðgengi nemenda að nauðsynlegri þjónustu, veitum þeim úrræði við hæfi og kennarar fá ráðgjöf og stuðning sem aukin þörf er á. Um leið erum við að gera starf kennara eftirsóknarverðara með auknu svigrúmi til þess að vinna störfin sín.

Ég vil halda áfram að láta gott af mér leiða innan samfélagsins. Ég trúi því að reynslan mín geti nýst bæjarbúum í þeirri vegferð að skapa eftirsóknarvert þekkingarsamfélag þar sem flestum líður vel og allir fái tækifæri við sitt hæfi.

Sigrún Antonsdóttir.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur og kennari og sækist eftir 4-6 sæti í prófkjöri Sjálfstæðisfélags Garðabæjar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar