Skólabragur og vellíðan

Ávinningur þróunarverkefna í grunnskólum Garðabæjar: Skólabragur og vellíðan
[A traffic light showing red  Description automatically generated with medium confidence]

Þróunarsjóður grunnskóla Garðabæjar var stofnaður árið 2015 og hefur sl. 6 ár úthlutað yfir 100 milljónum til verkefna í grunnskólum Garðabæjar. Markmið sjóðsins er að stuðla að öflugu og framsæknu skólastarfi í bænum og gefa fagfólki tækifæri til að þróa fagsvið sitt í framsæknu stafi með börnum og ungmennum. Úthlutað hefur verið til yfir 100 verkefna sem snerta ýmsa fleti skólastarfsins auk hinna hefðbundnu námsgreina. Árið 2018 var send spurningakönnun til fagfólks í grunnskólum bæjarins, til að fá álit þeirra á sjóðnum og áhrifum hans á skólastarfið. Samkvæmt þeirri könnun telja yfir 90% að áhrif sjóðsins á skólastarf í Garðabæ séu góð og sama hlutfall telur að styrkir sjóðsins auki tækifæri til starfsþróunar og framsækni i skólastarfi. Ávinningurinn sé öflugra skólastarf fyrir nemendur og eftirsóttara starfsumhverfi. Hér verður veitt innsýn í þróunarverkefni í Hofsstaðaskóla um skólabrag og vellíðan. Í næstu blöðum Garðapóstsins verða kynnt fleiri þróunarverkefni grunnskólanna í Garðabæ.

Hofsstaðaskóli

Ertu grænn, gulur eða rauður?

Þróunarverkefnið felst í því að nálgast skólareglur Hofsstaðaskóla á nýjan hátt þar sem áhersla er lögð á jákvæðan skólabrag og vellíðan nemenda. Unnið er út frá hugmyndafræðinni ,,Uppeldi til ábyrgðar“ og ,,vaxandi hugarfar“ en báðar þessar áherslur hafa sem útgangspunkt að efla ábyrgð, styrk og sjálfsmeðvitund nemandans. Skólareglurnar eru einfaldar og sýnilegar til dæmis á veggspjöldum. Umferðarljós eru notuð sem táknræn leiðbeining fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Þar er unnið með litakerfi umferðarljósanna til að auðvelda nemendum að skilgreina eigin stöðu; hvað maður hefur á valdi sínu, hvað þarf að þjálfa betur og jafnvel hvað maður getur aðstoðað við og/eða kennt öðrum.

Ábyrgð eigin framkomu

Leiðarljós verkefnisins byggir á því að hver og einn beri ábyrgð á eigin hegðun, hafi val um framkomu, t.d. hvort farið sé eftir reglum eður ei. Ef viðkomandi velur að fara ekki eftir reglum er leitað skýringa á hvers vegna og jafnframt leita leiða til að styrkja viðkomandi út frá eigin getu og stöðu.

Hver og einn er mikilvægur

Leiðarljós verkefnisins ganga einnig út frá þeirri hugmyndafræði að hver og einn sé mikilvægur í skólasamfélaginu og hafi með vali sínu og framkomu áhrif á samfélag skólans. Öll hegðun á sínar skýringar og markmiðið er að allir vinni saman að því að tryggja vellíðan og skapa jákvæðan skólabrag. Að átta sig á eigin ábyrgð og áhrifamætti á umhverfið styður við þroska og skapar tækifæri til að láta gott af sér leiða.

Heimili og skóli

Samskipti heimilis og skóla eru lykilatriði í sterkum og uppbyggilegum skólabrag. Til að þetta verkefni skili árangri er mikilvægt að farið sé yfir skólareglurnar og leiðarljósin heima með barninu. Skólinn leggur sig fram um að upplýsa heimilin um verkefnið og stöðu barnsins. Hvernig gengur hjá viðkomandi barni, hvað er jákvætt og hvað þarf að æfa betur.

Niðurstaða

Virðing í samskiptum og jákvæður skólabragur hefur áhrif á líðan. Þar sem nemendum gefst tækifæri til að þjálfa og taka ábyrgð á eigin hegðun er líklegt að þeir auki samskiptafærni sína og sjálfsstjórn. Að vera hluti af hóp og samfélagi er stór hluti af mannlegri tilveru. Ábyrgð, meðvitund og hæfni á því sviði er því færni sem nýtist til framtíðar.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar