Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemd við tillögu að breytingu sem nær til Arnarlands (Arnarháls)

Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemd við að tillaga að breytingu Aðalskipulags Garðabæjar 2016-2030 sem nái til Arnarlands (Arnarnesháls) verði auglýst þegar brugðist hafi verið við ákveðnum atriðum sem fram koma í erindinu.

Þetta kom fram í máli skipulagsstjóra Garðabæjar á fundi skipulagsnefndar í síðustu viku þar sem hann gerði grein fyrir fundi hans og skipulagsráðgjafa með Skipulagsstofnun, en þar voru lagðar fram hugmyndir að því með hvaða hætti mætti bregðast við þeim ábendingum sem stofnunin gerði.

Á fundinum var lögð fram tillaga að breytingum á ákvæðum tillögunnar sem koma til móts við ábendingar stofnunarinnar og eru í samræmi við þá deiliskipulagstillögu sem lögð er fyrir fundinn. Skipulagsnefnd samþykkti að vísa breytingartillögunni með þeim breytingum sem lagðar eru til auglýsingar og verður tillagana auglýst samhliða tillögu að deiliskipulagi Arnarlands.

Arnarland – deiliskipulag

Á fundi skipulagsnefndar var síðan lögð fram tillaga að deiliskipulagi Arnarlands sem nær til 8,9 ha svæðis sem í Aðalskipulagi nefnist Arnarnesháls. Tillagan er unnin á vegum landeiganda í samvinnu við Garðabæ, en það var Jóhanna Helgadóttir arkitekt og skipulagsfræðingur hjá Nordic gerði grein fyrir tillögunni. Umsjón með gerð deiliskipulags Arnarnlands er í höndum Nordic Arkitektastofu, ásamt Landslagi og VSB verkfræðistofu. Umhverfisskýrsla og önnur ráðgjöf er unnin af EFLU verkfræðistofu, umferðagreiningar voru unnar af Mannvit nú Cowi og sér sami aðili um Breeam vottun tillögunnar.

500 íbúðir og u.þ.b. 40.000 m2 af verslunar-, skrifstofu- og þjónusturými

Samkvæmt tillögunni verður byggðin blanda af 3-6 hæða fjölbýlishúsum ásamt atvinnu-, verslunar og/eða þjónustuhúsnæði næst Hafnarfjarðarvegi. Tvær aðkomuleiðir eru að byggðinni, frá Fífuhvammsvegi og um fyrirhuguð undirgöng undir Arnarnesveg frá Akrabraut. Umferðarreikningar sýna að stærsti hluti umferðar að og frá hverfinu verður um Fífuhvammsveg. Fjölbýlishúsabyggð næst Arnarnesvegi og Fífuhvammsvegi er uppbrotin og lagar sig að landhalla og myndar umgjörð um sameiginlega inngarða. Sérstök kennileit- isbygging/atvinnuhúsnæði getur orðið allt að 8 hæðir. Til móts við atvinnuhúsnæði fyrir miðju svæðisins er gert ráð fyrir verslunar- og/eða þjónusturými á jarðhæðum í tengslum við miðlægt torg þar sem m.a. er gert ráð fyrir stoppistöð Borgarlínu. Á svæðinu er gert ráð fyrir u.þ.b. 500 íbúðum og u.þ.b. 40.000 m2 af verslunar, skrifstofu og þjónusturými.

Vilja styrkja nærumhverfið og bæta lífsgæði þeirra sem sækja svæðið

Meginmarkmið skipulagsins er að leggja grunn að öflugu borgarumhverfi sem styrkir nærumhverfið og bætir lífsgæði bæði þeirra sem sækja svæðið, starfa og búa á svæðinu og í nálægð við það. Helstu áherslur eru á starfsemi og uppbyggingu sem styður við virkan lífsstíl og blandaða byggð.

Helstu markmið skipulagsins eru sett fram í fjórum flokkum, þau eru:

Byggðarmynstur

  • að í Arnarlandi rísi borgarumhverfi með lifandi starfsemi og góðum íbúðum á samgöngu- og þróunarás miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.
    Vistvænar samgöngur
  • að í Arnarlandi verði greitt aðgengi að fjölbreyttum og vistvænum ferðamátum
    Náttúran í borgarumhverfinu
  • að í Arnarlandi verði gott aðgengi að fjölbreyttum útivistar- og grænum svæðum bæði innan hverfisins og í nærumhverfinu. Samfélag og lýðheilsa
  • að í Arnarlandi rísi blönduð byggð sem styður við samfélagsheild og bætta lýðheilsu íbúa og gesta.

Samhliða deiliskipulagi er lögð fram sam- eiginleg umhverfismatsskýrsla fyrir breyt- ingu á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, umhverfis-matsskýrsla, breyting á aðalskipulagi og gerð nýs deiliskipulags fyrir Arnarland í Garðabæ, unnin af EFLU verkfræðistofu.

Tillagan lögð fram eins fljótt og auðið er í samvinnu við Vegagerðina

Skipulagsnefnd leggur áherslu á að tillaga að deiliskipulagi Arnarnesvegar verði lögð fram eins fljótt og auðið er í samvinnu við Vegagerðina sem nær til aðgerða til þess að greiða fyrir umferð akandi, gangandi og hjólandi vegfarenda á svæðinu í kringum Arnarland.

Forhönnun aðgerða til að bæta umferðarflæði og öryggi við hringtorg á mótum Arnarnesvegar, Bæjarbrautar og Fífuhvammsvegar liggja fyrir. Skipulagsnefnd leggur áherslu á að ráðist verði í þær framkvæmdir sem fyrst.

Kynningarfundur þriðjudaginn 11.júní nk. kl. 17

Skipulagsnefnd mun vísa tillögunni ásamt umhverfismatsskýrslu til auglýsingar. Til- lagan skal auglýst samhliða tillögu að breytingu Aðalskipulags Garðabæjar sem nær til sama svæðis.

Forsíðumynd: Arnarland nær til 8,9 ha svæðis sem í Aðalskipulagi nefnist Arnarnesháls. (Mynd Arnarland)

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar