Uppskeruhátíð Sumarlesturs Bókasafns Garðabæjar var haldin laugardaginn 21. ágúst. Gunnar Helgason rithöfundur las úr hinni vinsælu bók Palla Playstation og nýrri bók Drottningin sem kunni allt nema…, sem er væntanleg á næstu dögum, við mjög góðar undirtektir áheyrenda.

Hátt í 200 börn skráðu sig í sumarlestrarátakið og skiluðu þau um 400 umsagnarmiðum um bækur sem þau lásu í lukkukassann í sumar. Þrír lestrarhestar voru dregnir út á hátíðinni og allir virkir þátttakendur fengu glaðning. Þau heppnu voru Ísey Hrönn 7 ára, Bjartur Þór 7 ára og Gunnar Helgi 7 ára. Sá sem átti metið í umsagnarmiðum, skilaði um 35 miðum og stóð við lestrarmarkmiðin sín, var Arnar Dagur 7 ára og fékk hann sérstaka viðurkenningu.
Starfsfólk bókasafnsins óskar öllum duglegu lestrarhestum sumarsins innilega til hamingju með frábæran lestrarárangur og vonast til að sjá sem flesta á bókasafninu í vetur. Lestur er minn sprengikraftur!
Rósa Þóra Magnúsdóttir


