Skella í lás 1. júní ef þau selja ekki – Bryngeir og Ragna kveðja Efnalaug Garðabæjar eftir 37 ára samfylgd

Það er komið að ákveðnum tímamótum í rekstri fjölskyldufyrirtækisins, Efnalaugar Garðabæjar á Garðatorgi, því nú 37 árum eftir að hjónin Bryngeir Vattness og Ragna Gísladóttir opnuðu dyrnar þá hafa þau ákveðið að setja efnalaugina á sölu.

Undanfarin þrjú ár hafa dætur þeirra hjóna, Lovísa og Lilja, séð um alfarið um reksturinn þótt foreldrar þeirra hafi fylgst með af hliðarlínunni, en þær systur þekkja mjög vel til enda hafa þær allt frá opnun verið viðloðandi fyrirtækið, starfað þar og seinna meir leyst foreldra sína af þegar þau fóru í frí og auk þess að hjálpa til í jólahasarnum.

Bryngeir hefur öllum stundum unnið í efnalauginni eftir opnun hennar og Ragna hefur einnig starfað þar af stærstum hluta, en hún starfaði einnig sem sjúkraliði á Vífilsstöðum.

Garðapósturinn heyrði í þeim hjónum og byrjaði á því að spyrja þau hvernig það hafi komið til að þau ákvaðu að vinda kvæði sínu í kross og opna efnalaug á Garðatorgi? ,,Okkur langaði að breyta aðeins til og skipta um starfsvett-fang, við höfðum samband við þá sem sáu um uppbyggingu á Garðatorgi og þá var þetta eina plássið sem var eftir og það átti að vera Efnalaug í því og við letum slag standa og skelltum okkur í það,” segir Bryngeir.

Nóg að gera allt frá fyrsta degi

Voru margar efnalaugar starfandi á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma og hvar sáu þið tækifærin í þessum rekstri í Garðabæ? ,,Það voru þó nokkrar efnalaugar starfandi án þess að við höfðum gert einhverjar kannanir á því. Það hefur greinilega verið eftirspurn því það hefur verið nóg að gera hjá okkur allt frá fyrsta degi.”

Hvernig gekk svo í upphafi að fá Garðbæinga til að koma með heimilisþvottinn til ykkar og hvað voru viðskiptavinir að láta þvo? ,,Allt frá fyrsta degi hefur verið nóg að gera hjá okkur og hafa bæði Garðbæingar sem og aðrir verið mjög duglegir að versla við okkur. Það er allt mögulegt sem fólk lætur hreinsa og þvo, allt frá rúmfötum og upp í brúðarkjóla.”

Allt frá fyrsta degi hefur verið nóg að gera hjá okkur og hafa bæði Garðbæingar sem og aðrir verið mjög duglegir að versla við okkur segir Bryngeir.

Heilu kynslóðirnar hafa verslað við okkur

Og eru jafnvel einhverjar viðskiptavinir sem hafa nánast fylgt ykkur allan þennan tíma, í 37 ár? ,,Hér hafa heilu kynslóðirnar verslað og gera enn. Og jafnvel þó fólk flytji í burtu þá heldur það tryggð við okkur.”

En hefur rekstur efnlaugarinnar breyst og þróast mikið á þessum árum sem eru liðin frá opnun hennar, sem var árið 1986? ,,Í rauninni hefur þetta ekki breyst mikið, þó hefur þvottahúsið hjá okkur eflst gríðaleg, fólk er farið að láta þvo sængurfatnað í miklu mæli ásamt því að láta strauja og stífa dúka.”

Þetta er langur tími, 37 ára, og þið upplifað tímanna tvenna, eins og efnhagshrunið og heimsfaraldur svo fátt eitt sé nefnt. Er einhver tími sem hefur verið erfiðari en annar eða hefur ekkert haft áhrif á reksturinn? ,,Við höfum sem betur fer aldrei fundið fyrir erfiðum tímum, þetta hefur verið mjög jafn og stöðugur rekstur sem fer bara stækkandi með hverju árinu,” segir hann.

Og svona af einskærri forvitni hvað eru þá viðskiptavinir helst að koma með til ykkar í þvott? ,,Jakkafötin, skyrturnar og kjólarnir er alltaf vinsælast nú og svo rúmfatnaður og dúkar. Það er alltaf gaman að geta hjálpað fólki með það sem það kemur með.”

Þetta er gert með miklum trega

En nú er komið að ákveðnum tímamótum hjá ykkur og þið sett Efnalaug Garðabæjar á sölu. Var þetta erfið ákvörðun eða hefur allt sinn tíma? ,,Allt hefur sinn tíma, en við höfum verið mjög heppin með það að Lilja og Lovísa, dætur okkar, hafa viljað stíga inn í en vegna veikinda sem hafa komið upp hjá fjölskyldu annarrar þeirra þá sjá þær sér ekki fært að vinna lengur við þetta. Já þetta er gert með miklum trega hjá okkur öllum,” segir Bryngeir.

Nýir eigendur taka við góðu búi En hvernig hefur reksturinn gengið og hvernig búi taka nýir eigendur Efna-laugar Garðabæjar við? ,,Þessi rekstur hefur alltaf staðið fyrir sínu og nýir eigendur taka við góðu búi, sem við erum ákaflega stollt af að láta af hendi.”

Og það er bæði hægt að kaupa reksturinn og leigja síðan húsnæðið af ykkur í einhvern tíma eða þá kaupa allan pakkann, húsnæðið og reksturinn? ,,Í rauninni erum við opin fyrir öllu öðru en að loka fyrirtækinu, það væri svo mikil synd, en já það er hægt að kaupa reksturinn og þá fá forkaupsrétt á húsn-æði eftir einhver ákveðin ár, nú eða kaupa bæði húsnæði og rekstur.”

Dætur Bryngeirs og Rögnu, Lilja og Lovísa, hafa séð um reksturinn sl. þrjú ár

Reksturinn býður upp á mikla möguleika

En eru ekki töluverð tækifæri í rekstri efnalaugarinnar, bæði er Garðabær og nágrannabæir að stækka og svo fer vel um ykkur í rúmgóðu húsnæði, svo það er hægt að bæta við tækjabúnaði og stækka reksturinn? ,,Þessi rekstur býður upp á mikla möguleika og töluverða stækkun ef vilji er fyrir hendi. Og jú, til okkar koma viðskiptavinir frá öllu landinu í raun og veru. Húsnæðið býður upp á aukinn tækjakost þar sem við erum í rúmgóðu húsnæði og til gamans má geta að við höfum aldrei auglýst neitt nema þá helst í Garðapóstinum og svo líka í aðeins í Kópavogspóstinum þannig að sá akur er alveg óplægður.”

En hver er svo annars lykillinn að svona farsælum rekstri eins og þið hafið verið með? ,,Persónulega þjónusta skipar stóran sess í þessum viðskipum og auðvitað mikil reynsla sem komin er eftir öll þessi ár og erum við svo sannalega tilbúin að miðla henni áfram til nýrra eigenda.”

Þið eruð eitt elsta fyrirtækið á Garða torgi svo ykkur hefur væntanlega liðið vel á torginu í öll þessi ár? ,,Okkur hefur alltaf liðið vel á Garðatorgi og núna á að fara efla torgið til muna þannig það á bara eftir að verða betra.”

Og er þetta búinn að vera skemmtilegur en krefjandi tími? ,,Þetta hefur verið mjög skemmtilegur og oft á tíðum töluvert krefjandi, aðalega þá í kringum stórhátíðir.”

Skella í lás 1. júní ef þau selja ekki

Verður mikill söknuðu og viðbrigði þegar reksturinn er komin úr ykkar höndum? ,,Okkar stærsta ósk er að fyrirtækið haldið áfram þar sem þetta er flott og gott fyrirtæki og það væri synd að það væri engin efnalaug og þvottahús fyrir Garðbæinga og nærsveitunga. Við eigum eftir að sakna okkar frábæru viðskiptavina mjög mikið, en vonum auðvitað að einhver vilji halda áfram þessu frábæra starfi og þjónusta viðskiptavini okkar um ókomna tíð því annars verður því lokað 1, júní næstkomandi vegna aðstæðna,” segir Bryngeir.

En svona þegar þið hafi lagt þvottinn til hliðar hvað tekur þá við hjá ykkur öllum? ,,Við horfum björtum augum til framtíðarinnar og skemmtilega óráðin hjá okkur öllum,” segir hann.

Og þið eigið væntanlega eftir að koma með þvottinn ykkar í Efnalaug Garðabæjar þegar aðrir eru teknir við rekstrinum? ,,Að sjálfsögðu eigum við eftir að vera diggir viðskiptavinir Efnalaugarinnar, það er ekkert betra en skríða upp í ný þvegin og straujuð rúmföt frá okkur,” segir Bryngeir að lokum.

Forsíðumynd: 37 ár eru liðin síðan hjónin Bryngeir og Ragna opnuð Efnlauga Garðabæjar, en segja að nú sé komið að ákveðnum timamótum hjá þeim og því hafa þau sett efnlaugina, sem er staðsett á Garðatorgi, á sölu

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar