Á fundi bæjarráðs Garðabæjar sl. þriðjudag var sex mánaða uppgjör Garðabæjar fyrir tímabilið janúar til júní 2024 lagt fram. Árshlutauppgjörið sýnir sterka fjárhagsstöðu Garðabæjar í þungu verðbólguumhverfi. Í fjárhagsáætlun Garðabæjar árið 2024 er gert ráð fyrir hagræðingu sem er nú að skila sér í rekstri og efnahag bæjarins. Sú þróun mun halda áfram á síðari hluta ársins. „Sjóðstreymi Garðabæjar er að styrkjast og afkoma fyrir fjármagnsliði einnig. Það þýðir að grunnreksturinn sveitarfélagsins eflist eins og stefnt var að í fjárhagsáætlun ársins,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar.
Niðurstaða A og B hluta jákvæð um 93 m.kr
Samkvæmt sex mánaða uppgjöri Garðabæjar er niðurstaða samstæðureiknings A og B hluta jákvæð um 93 m.kr. Skuldaviðmið er 102,1%.
Í Garðabæ hefur íbúum fjölgað hlutfallslega mest á höfuðborgarsvæðinu. Traust fjárhagsstaða er undirstaða þess að Garðabær sé vel undir það búinn að mæta þjónustu við fjölgun nýrra íbúa samhliða uppbyggingu nýrra hverfa.
„Áhersla var lögð á hagræðingaraðgerðir og aðhald í fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2024. Við höfum þó haldið áfram með mikilvæga innviðauppbyggingu og fjárfestingar í grunninnviðum bæjarins. Fyrr á árinu opnaði t.a.m. nýr leikskóli í Urriðaholti og 2. áfangi Urriðaholtsskóla var tekinn í notkun. Þá eru framkvæmdir við 3. áfanga skólans hafnar og fyrirséð er innviðauppbygging í nýjum hverfum Garðabæjar. Í sístækkandi sveitarfélagi ætlum við okkur, nú sem endranær, að mæta kröfum um áframhaldandi framúrskarandi þjónustu,“ segir Almar. Mikið hefur verið lagt upp úr endurnýjun skólahúsnæðis síðastliðin ár auk þess sem mikilvægar veituframkvæmdir eru í undirbúningi.