Sjálfbær og ábyrgur rekstur?

Ársreikningur ársins 2022 var lagður fram í bæjarráði í vikunni og á heimasíðu Garðabæjar er frétt með yfirskriftinni Fjárhagsstaða Garðabæjar sterk. 

En er það svo?
Vissulega sjáum við jákvæða niðurstöðu A og B hluta en það sem ekki kemur fram í fréttinni og skiptir öllu máli þegar uppbygging er mikil og fjárfestingar miklar og áform eru um lántöku til að standa undir framkvæmdum er getan til þess að standa undir skuldum sveitarfélagsins.

Í ársreikningnum kristallast einmitt hvernig  rekstri sveitarfélagsins er haldið í járnum. 
Veltufé frá rekstri, sem segir allt um hvernig staðan er gagnvart því að eiga fyrir skuldum, er neikvætt um 113.996 milljónir, þvert á áætlanir sem voru jákvæðar upp á 20.372 milljónir. 

Tæpt stóð það en nú er ljóst að áætlun gekk ekki eftir.

Sjálfbær og àbyrgur rekstur er það sem við í Viðreisn viljum sjá og merkilegt nokk, meirihlutinn talað fyrir alla tíð. 
En til þess að svo megi verða þarf að grípa til aðgerða en ekki sitja hjá og vona það besta.

En þetta þarf ekki að vera svona. 

Það er ástæðulaust að láta rekstur hanga á bláþræði með auknum kostnaði þegar svigrúm Garðabæjar til aukinna tekna er mjög mikið.

Það eina sem þarf, er að víkja frá þeirri harðlínu stefnu Sjálfstæðismanna um að heimild til hækkunar á útsvari sé skattpíning á íbúa. 

Það er ekki rétt. 

Óveruleg hækkun á útsvari styrkir stöðu bæjarsjóðs án verulegra áhrifa á skattgreiðendur. Það má gæta meðalhófs í þessu eins og öðru. Garðabær er eitt fjögurra sveitarfélaga sem heldur útsvarsprósentu undir 14%. 
Það segir sína sögu ef langflest sveitarfélög eru komin yfir 14% hvernig Garðabær staðsetur sig á jaðrinum í útsvarsinnheimtu upp á 13,92% og fjarlægist viðmið annarra sveitarfélaga óháð stærð eða íbúafjölda. Það skapar um leið mjög takmarkað svigrúm til þess að mæta fjölbreytileika samfélagsins. Fjölbreytt flóra íbúa fer vaxandi í Garðabæ sem hefur í för með sér meiri þunga á alla grunnþjónustu og undir því þarf að standa fjárhagslega með ábyrgum hætti. Það getur Garðabær hæglega gert og það vel, ef viljinn er einfaldlega fyrir hendi. 
Það viljum við í Viðreisn gera.

Sara Dögg Svanhildardóttir
Oddviti og bæjarfulltrúi Viðreisnar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar