Skapandi skólastarf fyrir nemendur í 1. – 10. bekk.
Sjálandsskóli er heildstæður grunnskóli fyrir nemendur í 1. – 10. bekk sem tók til starfa haustið 2005 en unglingadeild skólans hefur verið starfrækt frá árinu 2008.
Skólastarfið í Sjálandsskóla er fjölbreytt og hefur skólinn frá upphafi sett sér afar metnaðarfull markmið. Áhersla er lögð á einstaklingsmiðað nám, fjölbreytta, sveigjanlega og lýðræðislega kennsluhætti, sköpun og tjáningu auk þess sem útinám er hluti af vikulegu skipulagi allra árganga í 1.-7. bekk.
Skólahúsnæði og námsumhverfi
Sjálandsskóli er fallegur og vel útbúinn skóli. Staðsetning hans er einstök sem og skólabyggingin sem er björt, litrík og notaleg og öll aðstaða er til fyrirmyndar. Opin rými skólans skapa marvísleg tækifæri til fjölbreyttra námsaðstæðna og öflugrar hópavinnu. Sjálandsskóli er heilsueflandi skóli og ber Grænfána Landverndar þar sem meðal annars er lögð rík áhersla á skólastarf í anda heilsueflingar og umhverfismenntar. Unnið er að því að efla og stuðla að velferð og góðri heilsu nemenda í hvívetna en velferð og vellíðan nemenda og starfsmanna er undirstöðuþáttur í allri nálgun á skólastarfið.
Læsi
Lestrarstefna Sjálandsskóla er metnaðarfull. Rík áhersla er lögð á lestur og lesskilning í öllu skólastarfinu ásamt kennslu í ritun. Samstarf heimilis og skóla er lykilþáttur í lestrarkennslu og er heimalestri fylgt markvisst eftir í öllum árgöngum, 1.-7. bekk.
Skapandi skólastarf
Mikil áhersla er lögð á list- og verkgreinakennslu í Sjálandsskóla. Í skólanum fer fram metnaðarfull kennsla í tónlist, hönnun, smíði, textíl, myndmennt, nýsköpun, íþróttum og sundi undir stjórn sérmenntaðra kennara. Skólalóðin býður upp á skemmtilega möguleika fyrir fjölbreytt skólastarf en í hverri viku fara nemendur í útikennslu þar sem allar námsgreinar eru kenndar með ýmsum þrautum og í formi leikja. Nemendur í 1. – 7. bekk skólans taka daglega þátt í morgunsöng og hefur það reynst farsæl byrjun á skóladeginum.
Unglingastig – Metnaðarfullt nám, fjölbreytt val og áhersla á sköpun
Allt nám unglingadeildar er metnaðarfullt og umsjónarkennarar halda vel utan um hvern nemanda. Lögð er áhersla á að dugmiklir nemendur geti haldið eigin hraða í sínu námi. Í náttúrufræði, samfélagfræði og lífsleikni er unnið í stórum þemaverkefnum en listir, verkgreinar og íþróttir eru einnig snar þáttur í skólastarfinu. Lögð er rík áhersla á að aðlaga nám að nemendum og að þeir fái góðan grunn í undirstöðuatriðum.
Á unglingastigi Sjálandsskóla er boðið upp á fjölbreyttar og spennandi valgreinar. Hver og einn nemandi getur valið um þátttöku í tólf valnámskeiðum yfir skólaárið og þeir nemendur sem leggja stund á tónlistarnám í viðurkenndum tónlistarskóla geta fengið nám sitt metið. Skólinn útvegar nemendum sínum einstaklega góða aðstöðu til tónlistariðkunar og gerir þeim kleift að ljúka áfangaprófi samhliða námi í unglingadeildinni. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi en önnur dæmi um valgreinar sem boðið hefur verið uppá má nefna leirmótun, Skólahreysti, ítalska matargerð, kajak, útieldun, málun og hönnun svo eitthvað sé nefnt.
Félagsmiðstöðin Klakinn – Frábært félagslíf
Í unglingadeild Sjálandsskóla er öflugt félagslíf en þar er starfrækt félagsmiðstöðin Klakinn. Hlutverk hans er að styðja við unglinga með fjölbreyttu tómstundastarfi en meginmarkmið starfsins er að veita þeim tækifæri til samveru og stunda heilbrigðar tómstundir undir leiðsögn reyndra tómstundaleiðbeinenda. Unnið er út frá hugmyndafræði unglingalýðræðis, hugmyndum nemenda og áhugasviði þeirra. Tvö kvöld í viku er opið hús og geta allir nemendur á unglingastigi tekið virkan þátt í félagslífinu. Meðal viðburða á opnum kvöldum má nefna spilakvöld, böll, gistigleði, lan, fífamót, átkeppni, lasertag, bíókvöld, vinakvöld, kósíkvöld, kökukeppni, íþróttamót, kaffihúsakvöld og þrautakvöld. Nemendur í félagsmálavali og aðrir nemendur á unglingastigi stjórna dagskrá Klakans. Einnig gefst nemendum á unglingastigi kost að taka þátt í leikriti Klakans og árlegri skíðaferð til Dalvíkur. Þá tekur félagsmiðstöðin virkan þátt í öllu starfi Samfés og hafa nemendur skólans m.a. unnið Stíl hönnunarkeppni félagsmiðstöðva og átt fulltrúa í söngkeppni.
Að auki býður Klakinn fimmta, sjötta og sjöunda bekk upp á miðdeildarstarf frá 17:00-19:00. Nemendur í sjöunda bekk eru með opnun einu sinni í viku og fimmti og sjötti bekkur er með opnun aðra hverja viku. Hægt er að finna upplýsingar um opnunartíma og dagskrá Klakans undir nafninu Klakinn félagsmiðstöð á Facebook.
Ábyrgðarfullir umsjónarkennarar
Umsjónarhópar í Sjálandsskóla eru af hæfilegri stærð og umsjónarkennarar sjá um stóran hluta kennslu síns hóps í öllum árgöngum. Áhersla er lögð á að rækta góð tengsl milli starfsfólks, nemenda og foreldra. Teymiskennsla er leiðandi í öllu skólastarfinu.
Verið velkomin í Sjálandsskóla!
Við hvetjum forráðamenn og nemendur til þess að kynna sér starfið í Sjálandsskóla betur með því að skoða heimasíðu skólans. Kynningarfundur fyrir foreldra barna sem hefja nám í 1. bekk næsta haust verður haldinn þriðjudaginn 8. mars kl. 16:00 og kl. 18:00 fyrir verðandi nemendur í 8. bekk. Einnig er hægt að bóka heimsókn með því að senda okkur tölvupóst á netfangið [email protected].
Sesselja Þóra Gunnarsdóttir, skólastjóri
Heimilisfang: Langalína 8
Árgangar: 1. – 10. bekkur
Fjöldi nemenda: 270
Sími: 590-3100
www.sjalandsskoli.is
[email protected]