Sigurður Ingi og Bergþóra klipptu á borðann!

Síðustu vikuna í ágúst voru nýjar höfuðstöðvar Vegagerðarinnar við Suðurhraun 3 í Garðabæ teknar í notkun með formlegum hætti þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, klipptu á borða við inngang nýja hússins. Jafnframt afhjúpaði ráðherra vörðu Vegagerðarinnar sem var flutt með úr eldra húsnæði í Borgartúni og stendur nú endurhlaðin fyrir utan nýju húsakynnin.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fór yfir þýðingarmikið hlutverk Vegagerðarinnar í samfélaginu og óskaði starfsfólki Vegagerðarinnar góðs gengis á nýjum stað. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, flutti ávarp og sagði reynslu starfsmanna af hinu nýja húsnæði mjög góða og þegar hafa farið fram úr væntingum. Þá bauð Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, Vegagerðina velkomna í Garðabæ og færði Vegagerðinni ritverkið Sögu Garðabæjar að gjöf.

Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, bauð Vegagerðina velkomna í Garðabæ og færði Vegagerðinni ritverkið Sögu Garðabæjar að gjöf.

Starfsemi Vegagerðarinnar sameinuð

Sameinuð starfsemi í Garðabæ Starfsemi Vegagerðarinnar er nú sameinuð á einum stað í Garðabæ en áður var Vegagerðin á þremur stöðum í Borgartúni í Reykjavík, Vesturvör í Kópavogi og Hringhellu í Hafnarfirði.

Nýja húsið skiptist í 6.000 fermetra skrifstofu- og geymsluhúsnæði og 9.000 fermetra útisvæði. Í húsinu eru um 170 starfsstöðvar, 21 fundarherbergi af ýmsum stærðum og 10 minni næðisrými. Flutningur starfseminnar hefur staðið yfir í allt sumar.

Samkomulag um byggingu höfuðstöðvanna var undirritað í mars 2020, að undangengnu útboði. Reginn byggði húsnæðið og á það en Vegagerðin leigir til langs tíma.

Forsíðumynd: Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, klipptu á borðann í sameiningu.

Sigurður Ingi afhjúpaði vörðu Vegagerðarinnar sem var flutt með úr eldra húsnæði í Borgartúni og stendur nú endurhlaðin fyrir utan nýju húsakynnin


Fyrri grein
Næsta grein

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar